Svar Lars Løkke Rasmussen umsetinn fréttafólki.
Svar Lars Løkke Rasmussen umsetinn fréttafólki. — AFP
Þess hafði lengi verið beðið að Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, myndi tilkynna hvenær þingkosningar færu fram í landinu. Í fyrradag upplýsti hann loks að kosið verður á þjóðhátíðardegi Dana 5. júní.

Þess hafði lengi verið beðið að Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, myndi tilkynna hvenær þingkosningar færu fram í landinu. Í fyrradag upplýsti hann loks að kosið verður á þjóðhátíðardegi Dana 5. júní.

Í ljósi þess að lögum samkvæmt hefðu kosningarnar ekki getað farið fram seinna en 17. júní, þegar núverandi kjörtímabili lýkur, þarf ekki að koma á óvart að fjölmiðlar voru vel undirbúnir þegar kallið loks kom. Þannig bauð DR1 upp á fyrstu leiðtogaumræðurnar undir stjórn fréttamannsins skelegga Ask Rostrup í beinni sjónvarpsútsendingu aðeins nokkrum klukkustundum eftir að tilkynnt var um kjördaginn og í fréttaskýringaþættinum Deadline síðar um kvöldið voru spekingar kallaðir að borðinu til að meta hvaða kosningamál beri hæst þetta árið.

Í ljósi umræðunnar í Danmörku síðustu vikur og mánuði þarf ekki að koma á óvart að heilbrigðismálin verði fyrirferðarmikil sem og fyrirkomulag eftirlauna og snemmeftirlauna til handa þeim sem eru líkamlega að niðurlotum komnir eftir langa og erfiða starfsævi. Samkvæmt nýlegri könnun eru umhverfismálin einnig ofarlega í hugum danskra kjósenda, en ekki var að heyra að danskir stjórnmálamenn hefðu svör á reiðum höndum í þeim efnum. Forvitnilegt verður því að fylgjast með kosningabaráttunni næstu vikur.

Silja Björk Huldudóttir