Ráðherra Mynd frá kynningu Lilju á frumvarpinu í upphafi árs.
Ráðherra Mynd frá kynningu Lilju á frumvarpinu í upphafi árs. — Morgunblaðið/Hari
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Breytingar sem gerðar hafa verið á fjölmiðlafrumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra eru til þess fallnar að styrkja ritstjórnir meira en gert var ráð fyrir í drögum frumvarpsins.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Breytingar sem gerðar hafa verið á fjölmiðlafrumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra eru til þess fallnar að styrkja ritstjórnir meira en gert var ráð fyrir í drögum frumvarpsins.

Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, en frumvarpið snýr að styrkjum til einkarekinna fjölmiðla.

„Breytingarnar eru ekki umfangsmiklar en með þeim er komið til móts við þær ábendingar sem hafa borist. Breytingartillögurnar miða að því að efla ritstjórnir enn frekar en var gert í fyrstu drögum. Megininntak, skilyrði og annað slíkt er svipað upprunalegum drögum,“ segir Lilja.

Lilja kynnti breytt frumvarp fyrir þingflokki Sjálfstæðisflokksins í gær. „Það var mjög góður fundur, ég fór yfir megininntak frumvarpsins og hvaða breytingar hafa orðið á því.“ Hún segir þingmenn Sjálfstæðisflokksins jákvæða fyrir breyttu frumvarpi en drög frumvarpsins voru gagnrýnd af nokkrum þingmönnum flokksins þegar þau voru lögð fram í byrjun árs.

„Ég tel að það sé alveg ljóst að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, eins og þingflokkur Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins, verði jákvæður þegar endanleg kynning frá þeirra formanni hefur átt sér stað.“

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gat ekki tjáð sig um viðbrögð flokksins við breyttu frumvarpi þegar Morgunblaðið náði af honum tali í gær.

Aftur til umræðu í vikulok

Lilja vill ekki greina nánar frá breytingum á frumvarpinu að svo stöddu en ýmsar ábendingar bárust um það, þar á meðal varðandi aðgerðir sem þyrfti að ráðast í vegna umfangs RÚV á auglýsingamarkaði og kröfu um að fjölmiðlar sem hljóti styrki séu skrifaðir á íslensku.

Lilja er bjartsýn á að frumvarpið verði samþykkt og segir um framhaldið: „Formaður Sjálfstæðisflokksins er erlendis, hann verður kominn aftur í vikulok og þá verður þetta aftur til umræðu. Ég er mjög þakklát fyrir samstarfið sem ég hef átt við stjórnarflokkana og hversu langt málið er komið.“

Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi á þessu vorþingi, að sögn Lilju.