Svava Árný Jónsdóttir fæddist 21. mars 1952. Hún lést 20. apríl 2019.

Útför Svövu fór fram 3. maí 2019.

Elsku systir og mágkona.

Sárt er vinar að sakna.Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Kæri Binni og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur. Megi Guð styrkja ykkur í sorginni, en minningin um góða konu mun ætíð lifa.

Jenný og Reynir.

Elsku Svava frænka.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín er sárt saknað.

Elsku Binni, Dúddi, Fjóla, Berglind og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur. Hugur okkar og hjarta er hjá ykkur.

Anna María Reynisdóttir og

fjölskylda.

Við bræður fengum í vöggugjöf að eiga frænku í næsta húsi sem við gátum alltaf leitað til hvort sem það var að sauma á okkur jakka eða gefa okkur að borða eða bara vera í heimsókn eins og það var kallað þegar hún var að passa okkur. Heima hjá henni fundum við alltaf að við vorum velkomnir og minningin um þvottalyktina er enn fersk. Hjá henni fengum við okkar fyrstu vinnu við að hringa upp teina í bílskúrnum. Alltaf sýndi hún okkur ekkert nema kærleik og ást. Svava var eina sanna frænka okkar og mun minning um hana lifa í hjörtum okkar um alla tíð. Elsku Binni og fjölskylda, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Helgi Einar og Ármann.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Þessi orð eiga vel við nú þegar við kveðjum kæra vinkonu okkar, hana Svövu.

Við vissum auðvitað að hún var búin að vera veik nokkuð lengi en við áttum alls ekki von á þessu svona fljótt. Kannski af því að við heyrðum hana aldrei kvarta, hún sagðist alltaf vera bara ágæt, kannski svolítið orkulaus en annað ekki.

Það er margs að minnast eftir vinskap sem varað hefur í meira en hálfa öld og aldrei borið skugga á. Og enn hefur verið höggvið stórt skarð í vinahópinn okkar en þrjú eru farin á undan henni.

Við minnumst allra skemmtilegu ferðanna okkar bæði erlendis og ekki síður hér innanlands. Við Björg og Óli minnumst yndislegrar ferðar til Taílands með Svövu og Binna, þar treystust vinaböndin enn frekar.

Einnig er mjög minnisstæð ferð þegar hópurinn fór í siglingu í Karíbahafinu og til Dóminíska lýðveldisins, var það einnig frábær ferð eins og reyndar allar ferðirnar okkar saman. Útilegur okkar vinanna eru óteljandi og allar geyma þær góðar minningar um söng, hlátur og gleði. Við vorum stundum spurð að því hvort við gerðum okkur grein fyrir hvað svona vinskapur væri mikilvægur en okkur fannst þetta bara svo sjálfsagt, hafði alltaf verið svona og við þekktum ekkert annað.

Við vinkonurnar vorum flestar mjög virkar í Slysavarnadeildinni Þórkötlu og voru Björg og Svava þar í stjórn í mörg ár.

Já það er margs að minnast og við vitum að við eigum eftir að sakna vinkonu okkar endalaust.

Við kveðjum þig með sára sorg í hjarta

söknuðurinn laugar tári kinn.

Dregur ský á dagsins ásýnd bjarta

dökkur skuggi fyllir huga minn.

Í miðjum leik var komið til þín kallið

klippt á strenginn þinn.

Eitt af vorsins fögrum blómum fallið.

(Hákon Aðalsteinsson)

Hvíl í friði, kæra vinkona, og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Elsku Binni, Dúddi, Fjóla, Berglind og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill en Guð gefi ykkur styrk.

Stefanía Björg og Ólafur Þór,

Elísabet og Daníel.

Mér þykir afar sárt að þurfa að kveðja elskulegu vinkonu mína. Ég kynntist þeim hjónum Svövu og Binna fyrir rúmum fimmtíu árum þegar ég fluttist til Grindavíkur. Á þeim tímum byrjuðum við að byggja hlið við hlið á Staðarhrauni 13 og 15. Hófst þar vinskapur okkar Svövu sem aldrei hefur slitnað upp úr. Samgangur fjölskyldnanna var einstakur og margar eru minningarnar er ég lít til baka. Öll ferðalögin, ferðirnar út í Knarrarnes, fjallaferðirnar þar sem mikið var hlegið og haft gaman. Upp úr standa samt sem áður erfiðu stundirnar þar sem Svava og Binni stóðu eins og klettur við hlið okkar, alltaf boðin og búin að hjálpa, hvort sem það var að baka fyrir fermingu, taka strákana í ferðalög, passa eða hvað sem er. Eitt sinn sagði Svava við mig: „Sibba, ég skal passa alla nema hundinn“ og þáði ég það, og ekki leið á löngu áður en Tryggur var kominn yfir þröskuldinn og var orðinn fastagestur í mat hjá þeim hjónum. Við vinkonurnar sátum löngum stundum saman í eldhúsinu hvor hjá annarri og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Ýmis samskiptamynstur voru notuð í gamni, þar sem þau frændsystkinin Hörður og Svava kölluðu hvort annað Júlla og Júllu. Alla tíð voru þau Hörður mjög samrýmd sem lagði grunninn að því sambandi sem var í Staðarhrauninu.

Svava var hörkudugleg og kvartaði aldrei og tókst á við veikindi sín af æðruleysi og þrautseigju og fannst mér mjög fallegt að sjá hve samrýmd þau hjónin voru og fjölskyldan á þessum tímum. Binni, Dúddi, Fjóla og Berglind, mig langar að senda ykkur og fjölskyldum ykkar mínar innilegustu samúðarkveðjur og vona að Guð styrki ykkur í sorginni.

Sigurbjörg Ásgeirsdóttir.