Í dag hefði Páll Agnar Pálsson dýralæknir orðið tíræður, en hann lést í júlí árið 2003. Nú þegar vorið skrýðir íslenska náttúru sínum fagra sumarbúningi kalla minningarnar um þennan góða afa minn hvað ákafast á mig. Í grænum mó á ég þær sérlega margar. Ásamt ömmu kynnti afi okkur barnabörnunum töfra hestamennsku og almennrar útivistar og um leið opnuðust augu okkar fyrir fegurð landsins í stóru sem smáu. Slíkt veganesti er með sanni ómetanlegt.

Afi fæddist á Kletti í Reykholtsdal 9. maí 1919. Hann var sonur hjónanna Guðrúnar Hannesdóttur húsfreyju og Páls Zóphóníassonar, alþingismanns og búnaðarmálastjóra. Stúdentsprófi lauk hann frá MR 1937 og prófi frá Dýralæknaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1944. Hann stundaði framhaldsnám í sýkla- og meinafræði húsdýra í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi.

Páll var sérfræðingur við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum árin 1948-98 og forstöðumaður hennar 1959-67. Hann sinnti margvíslegum rannsóknarstörfum, einkum á sviði visnu og mæðiveiki, og var yfirdýralæknir 1959-89.

Í dýralæknanáminu kynntist afi samnemanda sínum, Kirsten Henriksen. Úr þeim kynnum varð einstaklega farsælt hjónaband. Þau amma eignuðust tvær dætur, Hlín Helgu kennara og Vigdísi Hallfríði hjúkrunarfræðing.

Páll afi var miklum mannkostum gæddur og margt í lýsingum samferðamanna hans sem ég hef síðar heyrt og lesið skynjaði ég strax sem barn. Greiðvikni var áberandi í hans fari og vitjanir tengdar dýrahaldi utan hefðbundins vinnutíma voru algengar. Úr gat orðið mikið ævintýri fyrir lítið fólk sem fékk að slást í för. Kú hjá Geira í Gufunesi gekk illa að bera en allt fór vel að lokum. Háhyrning þurfti að skoða í Sædýrasafninu í Hafnarfirði áður en með hann var flogið út í heim.

Afi fór ekki í manngreinarálit. Kom það meðal annars skýrt fram á ótal hressingargöngum okkar um Þingholtin þar sem víða var staðar numið og spjallað af virðingu við fólk úr öllum þjóðfélagsstigum, og unga sem aldna.

Það er sérstaklega eftirminnilegt hve velkomin við barnabörnin vorum ávallt við hlið afa Páls hvað sem hann tók sér fyrir hendur og stundum voru okkur falin sjálfstæð verkefni. Undir hlýlegri leiðsögn hans efldist í senn áræðni og ábyrgðartilfinning. Fátt var betra en hrós frá afa að vel unnu verki loknu.

Afi var sérlega vinnusamur og ósérhlífinn og eftir hann liggur afar yfirgripsmikið og giftusamlegt ævistarf. Rannsóknir hans á sviði búfjársjúkdóma, í samstarfi við aðra merka vísindamenn, skiluðu íslenskum landbúnaði og þjóðinni allri miklu.

Í því sambandi skal sérstaklega dregið fram, hve afdráttarlaust hann beitti sér fyrir vörnum landsins við illvígum búfjársjúkdómum. Þar beitti hann þeirri stefnu að boða ýtrustu varúð frekar en að bjóða minnstu hættu heim og lét ekki hagsmuni stundarinnar sveigja sig af þeirri leið. Ef sofnað var á verðinum gat enda illa farið, eins og nokkur dæmi frá fyrri hluta tuttugustu aldar höfðu sannað. Enginn vafi leikur á því hver afstaða afa Páls hefði verið til nýlegs frumvarps sem meðal annars tekur til innflutnings á ófrystri kjötvöru.

Megi allar góðar vættir varðveita minningu merks manns og ástríks afa, Páls Agnars Pálssonar.

Kristín Helga Þórarinsdóttir.