Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Dreymir mig magnaðan draum sem ég vaknaði upp af og skrifaði strax ræðu draumamanns niður."

Undirritaður var gestur Framsýnar á Húsavík 1. maí sem er ein glæsilegasta hátíð landsins ár hvert og koma saman 600-700 manns.

Nú gerist það nóttina áður að mig dreymir magnaðan draum sem ég vaknaði upp af og skrifaði strax ræðu draumamanns niður og flutti hana á hátíðinni. Ég skynjaði að þarna stóð Einar Þveræingur og flutti miklum mannfjölda boðskap. En hann var sá sem flutti mögnuðustu fullveldisræðu Íslands gegn ásælni Ólafs digra Noregskonungs þegar konungur ætlaði að eignast Grímsey. Nú fannst mér ESB og digrir auðmenn vera í hlutverki konungsins.

Ræðan var á þessa leið: Það steðjar nú hætta að landi voru, nú ágirnast auðugir útlendingar auðlindir landsins, bújarðir, veiðiár, fossa og orkuauðlindir. Vilji landsmenn halda frelsi og fullveldi þjóðarinnar er mikilvægt að standa gegn yfirgangi og ásælni Evrópusambandsins og auðjöfranna. Orkan og rafmagnið, jarðhitinn, eru dýrmætustu eignir komandi kynslóða. Hleypum aldrei græðginni í gegnum sæstreng að Íslands strönd. Verjum landhelgi vora og landbúnað vorn. Eignist útlendingar Grímsey eða Grímsstaði á Fjöllum mun þrengja að mörgum kotbóndanum og landið verður ekki undir okkar yfirráðum. Standið með Fjallkonunni og framtíðinni.

Svo mörg voru þau orð. Ég skynja að almenningur óttast þessa framtíð. Á meðan ræða stjórnmálamenn málið í lokuðum hring í þinghúsinu og láta sér fátt um finnast um áhyggjur þjóðarinnar. Og nú hefur stærsta hreyfing landsins, ASÍ, lagst gegn orkupakkanum.

Andstaðan við ráðagerðir ríkisstjórnarinnar minnir á Icesave, en þá hafnaði þjóðin ætlunarverki ríkisstjórnar og Alþingis, að greiða skuldir óreiðumanna.

Þessi slagur er að harðna og ég trúi enn að ágætir ráðherrar og Alþingi stöðvi nú þetta gönuhlaup. Þjóðinni stendur ekki á sama.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.