Ólafur Herbert Skagvík fæddist á Ísafirði 9. desember 1942. Hann lést á sjúkrahúsi í Seattle 4. apríl 2019.

Foreldrar hans voru Gíslína Kristjánsdóttir og Harold Skagvík. Eiginkona hans var Margrét Sölvadóttir og eignuðust þau tvo syni; Sölva Pál og Gísla Þór. Margrét og Ólafur skildu árið 1978 og flutti Ólafur til Bandaríkjanna stuttu eftir það og bjó þar til dauðadags.

Útför hans fór fram í Seattle 13. apríl 2019.

Hebbi frændi ólst upp hjá fóstru föður míns, Guðmundu Ísleifsdóttur (1898-1968) frá Ísafirði, en hún bjó í Herskálakampinum. Í hænsnabúi bakarameistara voru fremur þröng húsakynni, voru þar stundum tvær fjölskyldur hvor í sínu herberginu. Síðar fluttist amma mín í forskalað hús skammt frá að Suðurlandsbraut 100.

Hebbi fermdist í Laugarneskirkju vorið 1956 og nam skólalærdóm í Laugarnesskólanum sem þá var næsti skólinn. Snemma sýndi Hebbi frændi listræna hæfileika og var einstaklega flinkur teiknari. Hlaut hann mikið lof fyrir og hefði náð langt sem listamaður hefðu aðstæður verið betri.

Hann tók snemma þátt í atvinnulífinu, hóf ungur sjómennsku á síðutogaranum Aski. Ekki líkaði honum dvölin um borð enda mikið um sukk og miður góðar lífsvenjur. Hebbi tók bílpróf og var um tíma við akstur stöðvarbíla í Reykjavík ásamt föður mínum. Minnisstætt er mér að í nóvembermánuði 1963 kom hann með miklum asa til fóstru sinnar en ég var þar búsettur hjá ömmu minni um nokkurra vikna skeið vegna fótbrots. Kvaðst Hebbi hafa verið að hlusta á ameríska útvarpið á Miðnesheiði og að sjálfum Bandaríkjaforseta hefði verið ráðinn bani þá fyrir örfáum klukkustundum og það væri ábyggilega víðtækt samsæri. Mikið var næstu daga rætt um þennan skelfilega atburð og er enn ekki ljóst hverjir áttu þar hlut að máli.

Um nokkurra ára skeið starfaði Hebbi frændi í sendiráði Vestur-Þýskalands sem bílstjóri og transportmaður. Það þótti föður mínum merkilegt sökum þess að sem unglingur hafði Hebbi farið víða um Austur-Evrópu. Þá var eðlilega mikil tortryggni enda kalda stríðið í algleymingi með öllum öfgum sínum og ómanneskjulegu viðhorfum.

Á þessum árum var hann fjölskyldumaður, kvæntist Margréti Sölvadóttur ættaðri frá Hornströndum og eignuðust þau tvo syni.

Hebbi var mikill ævintýramaður. Hann keypti sér litla snekkju og sigldi hingað til lands yfir Atlantshafið. Líklega er hann einn af þeim fyrstu sem fengu hugmynd um að sigla út á Faxaflóa með erlenda ferðamenn. Brautryðjanda gengur yfirleitt illa fjárhagslega og oft vonbrigði. Varð það tilefni þess að hann fluttist vestur um haf og settist að í borginni Seattle við Kyrrahafsströndina. Þar starfaði hann í áratugi við fiskveiðar og skipstjórn.

Um áratuga skeið skiptumst við á orðsendingum og sérstaklega voru jólakortin frá Hebba frænda okkur kærkomin. Þau voru ætíð mjög efnisrík af frásögnum frá lífi sjómannsins við Kyrrahafsströndina. Hebbi frændi var ætíð fundvís á það broslega í lífinu. Eitt sinn sagði hann frá ferð sinni til Shakalínseyjar milli Japans og Kamtsjatka. Lýsti hann vel íbúum þar og sérstaklega hafði hann átt vinsamleg samskipti við gamla rússneska konu sem minnti hann mjög mikið á fóstru sína. Nokkrum sinnum leit hann til okkar í Mosfellsbæ á ferðum sínum til Íslands en aldrei varð úr að við legðum á okkur ferð héðan frá Íslandi á vesturströnd Ameríku.

Það er mikil eftirsjá að Hebba frænda. Góðar minningar eru bundnar Ólafi Herbert Skagvík. Sonum, eftirlifandi maka sem og öðrum ættingjum og vinum er vottuð innileg samúð.

Guðjón Jensson.

Ég kynntist Hebba, eins og við í fjölskyldunni kölluðum hann, fyrst þegar Maddý, systir mín og síðar eiginkona hans, kom með hann í heimsókn eitt kvöldið. Það sem mér er minnisstæðast er að hann tók strax upp penna og fór að teikna skopmyndir aftan á eitt blaðið sem lá á borðinu, síðar kom í ljós að hann var afskaplega fær að teikna en yfirleitt skopmyndir. Í þá daga var einnig teflt mikið og þjálfaðist ég mikið við að tefla við hann.

Hermann bróðir minn og Hebbi voru góðir vinir og fóru oft á veiðar, þeir báðir höfðu mikið dálæti á skotvopnum og oftar en ekki var strákgemlingurinn tekinn með í veiðiferðirnar.

Hebbi hafði mikinn áhuga á sjómennsku enda fór hann ungur til sjós, en eftir að hann slasaðist illa á hendi hætti hann á sjónum og fór að vinna í landi. Hann var alltaf með nýjar og nýjar hugmyndir sem hann reyndi að koma í framkvæmd og ein þeirra var að kaupa bát sem átti að þjóna ferðamönnum til skemmtisiglinga, hvalaskoðunar og sjóstangaveiði, má þar segja að hann hafi verið frumkvöðull að hvalaskoðun á Íslandi og langt á undan sinni samtíð. Það fór svo að hann keypti bát í Danmörku og hann ásamt Hermanni og Sveinbirni (svili hans og mágur minn) og ég, við fjórir sigldum bátnum frá Danmörku til Íslands.

Sú ferð var ævintýraleg og er efni í heila bók. En það voru fáir túristar í þá daga og fyrirtækið gekk ekki.

Hebbi og Maddý skildu nokkru seinna og fluttist hann síðan til Bandaríkjanna. Þar fór hann fljótlega á sjóinn og tók skipstjórnarréttindi þar. Þegar synirnir fullorðnuðust fór þeir í ævintýraleit til pabba síns til Seattle, honum til mikillar gleði. Þar tók Gísli skipstjórnarpróf og vann á skipum í Alaska og Sölvi setti á stofn sitt eigið fyrirtæki sem hann rekur enn.

Það var mikil gleði hjá honum þegar hann eignaðist barnabörn en Gísli eignaðist tvær stúlkur, Elenu og Alexis. Eftir að Gísli skildi við barnsmóður sína fluttist hann ásamt stúlkunum til Hebba þar sem þau bjuggu upp frá því. Sölvi giftist Michelle en þau eiga ekki börn en fjölskyldan er mjög náin og stúlkurnar litlu dvöldust löngum hjá Sölva og Michelle þegar faðir þeirra og afi voru á sjónum. Þá var líka gott að hafa ömmu sína en Maddý fluttist til Bandaríkjanna og tók sér íbúð rétt hjá til að geta rétt hjálparhönd og tekið þátt í uppeldi barnanna.

Ég reyndi að heimsækja fjölskylduna reglulega og var alltaf tekið opnum örmum. Hebbi lánaði mér Lincolninn sinn en ég dvaldist yfirleitt hjá Maddý systur því hún hafði leigt íbúð nálægt þeim með aukaherbergi og eins og ég sagði oft bara fyrir mig. Stundum fórum við í ferðalag, keyrðum til Kanada eða um sveitir og bæi í nágrenni við Seattle, þá var mikið fjör.

Hans verður sárt saknað.

Axel Sölvason.