Jón Halldór Eðvaldsson
Jón Halldór Eðvaldsson
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur ráðið þrjá nýja þjálfara í störf hjá meistaraflokksliðum sínum.

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur ráðið þrjá nýja þjálfara í störf hjá meistaraflokksliðum sínum. Jón Halldór Eðvaldsson, sem síðustu ár hefur starfað sem spekingur í sjónvarpsþættinum Körfuboltakvöldi, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs félagsins að nýju. Hann stýrði Keflavík til Íslandsmeistaratitils árið 2008 og 2011, en Jón tekur við af nafna sínum, Jóni Guðmundssyni sem kom Keflavík í úrslitaeinvígi við Val í vor.

Landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari kvennaliðs Keflavíkur, og verður því Jóni Halldóri til aðstoðar. Hann mun þó að sjálfsögðu spila áfram með karlaliðinu, eins og segir í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Keflavíkur.

Finnur Jónsson, sem síðast þjálfaði karlalið Skallagríms í vetur, hefur svo verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Keflavíkur. Hann verður því Sverri Þór Sverrissyni innan handar en Sverrir verður áfram aðalþjálfari liðsins. Að sögn Keflvíkinga er frétta af leikmannamálum að vænta á allra næstu dögum, nú þegar þjálfaramálin eru í höfn.