Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að miklar annir séu hjá nefndinni þessa dagana en nefndin stefni að því að ljúka vinnu við ríkisfjármálaáætlun fyrir 17. þessa mánaðar.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að miklar annir séu hjá nefndinni þessa dagana en nefndin stefni að því að ljúka vinnu við ríkisfjármálaáætlun fyrir 17. þessa mánaðar.

„Umsagnir eru byrjaðar að berast og við í fjárlaganefnd erum bara á fullu að yfirfara þær en frestur til þess að skila inn umsögnum rennur út nú um helgina. Við erum að byrja að taka á móti gestum sem búnir eru að senda umsagnir og því erum við búin að hlaða inn fundum,“ sagði Willum Þór við blaðið í gær.

„Svo er náttúrlega stóra málið sem við erum að bíða eftir sem er endurskoðuð þjóðhagsspá,“ sagði Willum. Hann segir að fjárlaganefnd muni eiga fund með Hagstofunni á morgun, föstudag, þar sem fulltrúar Hagstofunnar muni kynna nefndinni spána.

„Þegar það liggur fyrir má segja að stóru línurnar liggi fyrir um það hvernig þarf að bregðast við svo sem með tekjuafgang og fleira.“

Willum segir að nefndin hafi sett sér skýra áætlun um það hvenær þessu starfi ljúki og lögð hafi verið drög að nefndaráliti og sé miðað við dagsetninguna 17. maí.

„Við höldum okkur við þá áætlun, en það hefur sett aðeins strik í reikninginn að þessar tölur í endurskoðaðri þjóðhagsspá liggja ekki fyrir og þá er ég að vísa til þessara óvissuþátta sem er flaggað í áætluninni sjálfri, eins og um ferðaþjónustuna, Wow Air og loðnubrestinn. Nú hefur þeirri óvissu að mestu verið eytt, Wow Air er fallið og fyrir liggur að það verður engin loðna. Hagstofan er því að setja nýjar tölur hvað þetta varðar inn í reiknilíkanið við endurskoðun sína til að sjá áhrifin á landsframleiðsluna og tekjuöflun ríkissjóðs. Þannig munum við hafa í höndum upplýsingar til þess að áætla hvaða útgjöld eru möguleg og hversu miklum tekjuafgangi verður hægt að skila,“ sagði Willum Þór.