Á veitingahúsi Margir kunna að meta reyktan, íslenskan ál sem hefur endrum og sinnum verið í boði.
Á veitingahúsi Margir kunna að meta reyktan, íslenskan ál sem hefur endrum og sinnum verið í boði. — Morgunblaðið/Heiddi
Reglugerð um bann við veiðum á öllum tegundum áls hér á landi tók gildi í byrjun vikunnar.

Reglugerð um bann við veiðum á öllum tegundum áls hér á landi tók gildi í byrjun vikunnar. Allar álaveiðar eru óheimilar í sjó, ám og vötnum nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu til álaveiða til eigin neyslu, sem getur veitt leyfi til takmarkaðra veiða. Ef áll veiðist í lax- eða silungsveiði er skylt að sleppa honum. Sala á íslenskum ál og afurðum áls er bönnuð.

Lög um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði voru samþykkt á Alþingi fyrir rúmu ári síðan. Inn í eldri lög var bætt málsgrein þar sem segir að ráðherra geti með reglugerð sett reglur um álaveiðar, m.a. um að banna eða takmarka álaveiðar um allt land eða á tilteknum svæðum ef það sé talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ál frá því í júní í fyrra kemur fram m.a. að álastofninn sé í hættu og þoli illa veiðar. Meðan svo er sé það ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að bann verði sett á allar álaveiðar hér á landi.

Markmið með setningu reglugerðar nú er að vernda álastofninn hér á landi gegn ofveiði en samkvæmt reglugerðinni er gert ráð fyrir að allar álaveiðar verði óheimilar hér á landi, með tilteknum undantekningum þar sem gert er ráð fyrir að hægt verði að veita leyfi til veiða á áli til eigin neyslu. Í þeim tilvikum verði afli og sókn nákvæmlega skráð, en með því móti fáist upplýsingar um fjölda þeirra sem hafa stundað álaveiðar, afla á sóknareiningu, landsvæði og mögulega sýni af veiddum fiskum til rannsókna. aij@mbl.is