Fjölskyldan Nói Sær, Guðmundur, Embla, Birna Guðrún og Auðbjörg Helga fyrir utan Mosfellskirkju í Grímsnesi við fermingu Emblu Lífar í fyrra.
Fjölskyldan Nói Sær, Guðmundur, Embla, Birna Guðrún og Auðbjörg Helga fyrir utan Mosfellskirkju í Grímsnesi við fermingu Emblu Lífar í fyrra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Ármann Pétursson fæddist 9. maí 1969 í Reykjavík og bjó í Vogahverfinu, Sólheimum og Álfheimum nánar tiltekið. „Foreldrar mínir kaupa Húsið á Eyrarbakka árið 1979 og hefjast handa við lagfæringar á því og endurbætur. Ég flyt síðan á Eyrarbakka árið 1982 ásamt móður minni og bróður og þangað er ég fluttur á ný ásamt konu minni og börnum.“

Guðmundur Ármann Pétursson fæddist 9. maí 1969 í Reykjavík og bjó í Vogahverfinu, Sólheimum og Álfheimum nánar tiltekið. „Foreldrar mínir kaupa Húsið á Eyrarbakka árið 1979 og hefjast handa við lagfæringar á því og endurbætur. Ég flyt síðan á Eyrarbakka árið 1982 ásamt móður minni og bróður og þangað er ég fluttur á ný ásamt konu minni og börnum.“

Guðmundur gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraháskóla Íslands og frá árinu 1982 í Barnaskólann á Eyrarbakka. Hann var skiptinemi í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum 1985-1986. Hann lauk námi í frumgreinadeild Háskólans á Bifröst 1989 og varð rekstrarfræðingur frá sama skóla 1991. Hann fór síðan í nám við Emerson College í lífefldri ræktun 2003 og lauk MSc-námi í arkitektúr, orku- og umhverfismálum við University of East London 2004.

Guðmundur byrjaði ungur að vinna, s.s. í fiskvinnslu, við brúarsmíði, sem verkamaður, á Litla Hrauni og á réttargeðdeildinni á Sogni. „Á Sólheimum starfaði ég með hléum frá árinu 1988 til ársins 2017, hafði á þeim tíma unnið í lengri eða skemmri tíma nánast öll störf í fjölbreyttum rekstri þess samfélags, þar af framkvæmdastjóri í rétt tæp 15 ár.“

Guðmundur var kjörinn í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps árið 2010 og á ný árið 2014 og sat til ársins 2018. Hann byrjaði ungur í skátahreyfingunni í skátafélaginu Skjöldungum og var þar virkur um árabil. Fór á tvö alheimsmót skáta í Kanada og Ástralíu, lauk Gilwell-þjálfun, hlaut forsetamerki, var formaður Skátasambands Suðurlands og sat um tíma í stjórn Bandalags íslenskra skáta.

„Ég kom að því að endurvekja skátastarf á Selfossi með skátafélaginu Fossbúum ásamt góðu fólki og starfaði í félaginu um nokkurt skeið. Sonur minn er með Downs heilkenni og læt ég mig hagsmuni einstaklinga með Downs mjög varða, sat um tíma í stjórn Félags áhugafólks um Downs heilkennið og sit í stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi.“

Síðustu misseri hefur Guðmundur ásamt konu sinni verið að vinna að og þróa tvö nýsköpunarverkefni. „Það er heilsutengd ferðaþjónusta þar sem hafið er nýtt til ánægju og heilsueflingar og hitt er að vinna hágæðaafurð úr broddmjólk kúa.“ Við fjölskyldan höfum keypt okkur fallegt hús á Eyrarbakka sem við erum að lagfæra og breyta og hlökkum mikið til að flytja inn og að koma okkur vel fyrir. Eyrarbakki á stóran sess í hjarta mínu og ég hef einlægan áhuga á að leggja gott til samfélagsins. Hafið og fjaran heillar mig ávallt og togar í með spennandi verkefni sem mig langar einnig að vinna að í náinni framtíð.

Ég hef ákveðið að hrinda í framkvæmd hugmynd sem lætur mig ekki í friði en það er setja af stað kvikmyndahátíð. Sé fyrir mér að hátíðin verði árlegur viðburður og mun hún heita BRIM kvikmyndahátíð. Markmiðið er að sýna myndir sem tengjast sjávarbyggðum og/eða hafinu. Á þessari fyrstu hátíð verða myndirnar um plast í hafinu. Ég hef náð samstarfi við erlend samtök sem vinna með markvissum og upplýsandi hætti gegn plastnotkun og hreinsun á plasti úr hafinu.

Ég mun kynna þetta verkefni fyrir Eyrbekkingum á næstunni og á ekki von á öðru en það verði vel tekið í hugmyndina.“

Fjölskylda

Sambýliskona Guðmundar er Birna Guðrún Ásbjörnsdóttir, f. 28. apríl 1971, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum. Foreldrar hennar eru hjónin Ásbjörn Kristófersson, f. 9. ágúst 1933, fv. kaupmaður, og Sigríður Guðmannsdóttir, f. 18. október 1932, vann á Landakoti. Þau eru bús. í Reykjavík.

Börn: 1) Auðbjörg Helga, f. 23. mars 1996, nemi; 2) Embla Líf, f. 24. ágúst 2004, og 3) Nói Sær, f. 22. febrúar 2010.

Bróðir Guðmundar er Eggert Pétursson, f. 18. júlí 1973, lagerstjóri í Norrköping í Svíþjóð.

Foreldrar Guðmundar eru Auðbjörg Guðmundsdóttir, f. 27. janúar 1944, leikskólakennari, bús. á Eyrarbakka, og Pétur Sveinbjarnarson, f. 23. ágúst 1945, fv. framkvæmdastjóri, bús. í Reykjavík.