Hjálmar Magnússon
Hjálmar Magnússon
Eftir Hjálmar Magnússon: "Því ekki að fá einhverja af okkar mikilhæfu verkfræðingum til að skoða og athuga þessar aðstæður."

Enn á ný er þessi dýra og þarfa framkvæmd sem Landeyjahöfn er þjóðinni að tefja samgöngur við eyjarnar. Ekki það að ég sjái eftir þessari framkvæmd fyrir Vestmannaeyinga, heldur eru það mikil vonbrigði að þessi mikla framkvæmd skili ekki því sem ætlast var til af henni, en ein stærsta ástæðan er sú að dýpkun gengur ekki nógu vel.

Af hverju ekki að reyna það sem nærtækast er, og líklega þegar til lengri tíma er litið það ódýrasta og öruggasta, það er að láta náttúruöflin sjá að mestu sjálf um hreinsun hafnarinnar sem þá yrði um leið framkvæmd sem ekki kallaði á kolefnisbrennslu við dýpkun og þess háttar og Vestmannaeyinga með miklu öruggari samgöngur. En það er að láta Markarfljótið sjá um verkið.

Alveg mætti hugsa sér að gerðir væru garðar og mannvirki uppi á Markarfljótsaurum sem væru sérhönnuð til að geta tekið mátulegan hluta af fljótinu og stýra svo mátulegu rennsli að og í gegnum höfnina sem sæi um að halda henni ætíð hreinni þannig að ekki þurfi dælingar við nema kannski á nokkurra ára fresti og þá aðeins lítilsháttar hreinsun úr hornum eða stöðum sem einhver sandur safnaðist fyrir.

Það verða sjálfsagt margir sem segja ómögulegt. En bíðið bara við, við þurfum ekki að leita langt til að finna framkvæmd sem unnin var snemma á öldinni sem leið og var þar við svipaðar aðstæður að glíma og við Markarfljótið, nefnilega Flóaáveituna. Þar gerðu menn stíflu í jökulána og gátu stjórnað rennsli þar í gegn, sem kom ekki bara Flóamönnum heldur öllum landsmönnum að góðu gagni og með bættum afkomumöguleikum fyrir bændur í öllu héraðinu. Hugsið ykkur, þetta var fyrir um hundrað árum en Flóaáveitan var byggð á árunum1918 til 1927.

Við áttum verkfræðinga sem höfðu góða verkþekkingu til að ráðast í og beisla jökulána og voru þó öll tæki og tól til framkvæmdanna ákaflega frumstæð miðað við það sem við höfum í dag. Sem betur fer eigum við mikið af vel menntuðum verkfræðingum og gott úrval tækja og tóla og hæfra manna, þannig að eftir hverju bíðum við.

Við viljum og þurfum góðar samgöngur við þessa stóru og miklu verstöð sem Vestmannaeyiarnar eru. Sem ferðamaður er yndislegt að koma þangað og að sigla inn í höfnina með Heimaey á aðra höndina og bæinn og eldfjöllin á hina er stórkostleg sjón.

Í alvöru, því ekki að fá einhverja af okkar mikilhæfu verkfræðingum til að skoða og athuga þessar aðstæður og meta hvort þetta er raunhæf hugmynd.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri. borgarvirki@simnet.is