Menning Guðrún Nordal afhendir stjórnendum Skógræktarfélagsins trjáplöntur úr grunni Húss íslenskunnar.
Menning Guðrún Nordal afhendir stjórnendum Skógræktarfélagsins trjáplöntur úr grunni Húss íslenskunnar. — Morgunblaðið/Hari
Í lok ársfundar Árnastofnunar í gær afhenti Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunarinnar, formanni og framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, Jóhannesi Benediktssyni og Helga Gíslasyni, plöntur sem skotið hafa rótum í grunni Húss íslenskra fræða...

Í lok ársfundar Árnastofnunar í gær afhenti Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunarinnar, formanni og framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, Jóhannesi Benediktssyni og Helga Gíslasyni, plöntur sem skotið hafa rótum í grunni Húss íslenskra fræða (eða Húss íslenskunnar eins og það mun heita) frá því að hann var grafinn fyrir sex árum. Lét Guðrún þess getið að um leið væri búið að kolefnisjafna fyrir ársfundinn þar sem dreift var t.a.m. prentaðri ársskýrslu. Skógræktarmenn veittu framtíðarskóginum viðtöku og sögðust mundu sjá til þess að ræktaður yrði upp trjálundur sem minnti á auðlegðina sem felst í íslenskum fræðum.

Stærsta trjáplantan sem þeir höfðu á brott með sér var um 2,5 m á hæð og hafði skotið djúpum rótum í grunninum. Lítið rask hefur verið á svæðinu frá því að skóflustungan var tekin í mars 2013 og gróður því getað skotið rótum óáreittur um árabil. Samtals hafa starfsmenn Árnastofnunar tekið upp 100 sjálfsáðar plöntur og sett í pott, en nóg er enn eftir af trjáplöntum í grunninum.

Framkvæmdir við Hús íslenskunnar eru nú að hefjast eftir að ákveðið var að taka lægsta tilboðinu þótt það væri yfir kostnaðaráætlun. Húsið verður á þremur hæðum, auk kjallara undir hluta þess, samtals 6.500 fermetrar. Byggingin er sporöskjulaga og er formið brotið upp með útskotum og inngörðum. Að utan er byggingin klædd opnum málmhjúp. Húsið mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. gudmundur@mbl.is