Michael Mann
Michael Mann
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Michael Mann, Håkan Juholt, Graham Paul, Herbert Beck, Ann-Sofie Stude og Gerard Pokruszyn´ski: "Evrópa er einstök þegar hún tryggir að kostir okkar félagslega markaðshagkerfis nái til allra borgara hennar."

Ríkisborgarar 28 landa Evrópusambandsins, yfir hálfur milljarður manna, halda Evrópudaginn hátíðlegan í dag. Á þessum degi minnumst við yfirlýsingar franska utanríkisráðherrans, Robert Schuman, frá því í maí 1950, sem lagði grunninn að því sem við þekkjum í dag sem Evrópusambandið.

Evrópa var enn í sárum eftir tvær hræðilegar styrjaldir á aðeins þriggja áratuga skeiði. Schuman gerði sér grein fyrir þörfinni á því að skapa sterkt samband milli fyrrverandi stríðandi fylkinga svo að slíkar hörmungar myndu aldrei endurtaka sig. Af þessari litlu rót, sem byrjaði sem Kol- og stálbandalagið, hefur vaxið ríkjabandalag sem engin fordæmi eru fyrir í mannkynssögunni.

Eins og Schuman sjálfur orðaði það: „Evrópa verður ekki byggð á einum degi, eða samkvæmt einhverri einni áætlun. Hún verður byggð með áþreifanlegum afrekum sem verða grundvöllur raunverulegrar samstöðu.“ Schuman væri yfir sig ánægður að sjá Evrópusambandið sem við höfum búið til. Saga Sambandsins er ótrúleg saga velgengi, sem í meira en 70 ár hefur stuðlað að friði og velmegun á meginlandi sem áður var sundurtætt af átökum.

Sameinuð í fjölbreytileika

Í Evrópusambandinu starfa saman 28 aðildarríki sem jafningjar og með góðum árangri. Löndin deila fullveldi sínu þegar og á þeim sviðum sem þau telja að séu þeim til hagsbóta. Um leið erum við öll stolt af sögu, hefðum, menningu og tungu okkar eigin landa. Enda eru einkennisorð okkar: „Sameinuð í fjölbreytileika.“ Evrópusambandið er byggt á sameiginlegum gildum; mannlegri reisn, frelsi, lýðræði, jafnrétti, réttarríkinu og mannréttindum. Evrópusambandið stendur einarðlega með þessum gildum, þrátt fyrir hávær áköll um sterka foringja og aukinn sýnileika þjóðernishyggju.

Sameiginleg saga okkar gerir okkur kleift að standa þétt saman gegn slíkum áskorunum. Þetta er hinn viðvarandi styrkleiki evrópskrar samvinnu og gerir okkar fordæmi einstakt og þess virði að verja það. Enda fékk Evrópusambandið friðarverðlaun Nóbels árið 2012 fyrir að stuðla að friði, sáttum, lýðræði og mannréttindum í Evrópu.

Bjart framundan

Og nú, árið 2019, er Evrópa að reisa sig við eftir árabil af kreppu. Í Evrópu eru nú 240 milljónir manna í vinnu – fleiri en nokkru sinni fyrr. Neytendur og fyrirtæki njóta góðs af innri markaði Evrópusambandsins, sem veitir þeim meira val og lægra verð. Sameiginlegur gjaldmiðill okkar verndar okkur gegn fjárhagslegum óstöðuleika. Evrópa er einstök þegar hún tryggir að kostir okkar félagslega markaðshagkerfis nái til allra borgara hennar.

Evrópa vinnur að því að tryggja öryggi íbúa sinna – meiri árangur hefur unnist í innflytjendamálum, landamæraeftirliti og í öryggismálum almennt á síðustu fjórum árum heldur en á tveimur áratugum þar á undan. Þá er Evrópa ábyrgur alþjóðlegur áhrifavaldur, sem tekur forystu í að takast á við loftslagsbreytingar, er talsmaður friðar og sjálfbærrar þróunar á heimsvísu, stuðlar að frjálsum og sanngjörnum viðskiptaháttum og setur staðla í mannréttindum, aðstæðum á vinnustöðum, matvælaöryggi og gagnavernd.

Samstaða er lífsnauðsynleg

Svo að Evrópa blómstri, verða lönd Evrópusambandsins að vinna saman. Þau verða að vinna saman ef þau vilja vernda evrópska lifnaðarhætti, viðhalda jörðinni okkar, og styrkja áhrif okkar á alþjóðavísu. Aðeins með því að finna þann styrk sem felst í einingu, mun Evrópa geta haft áhrif á framvindu alþjóðamála. Því er mikilvægt að við horfum til framtíðar, lærum af mistökunum og byggjum á velgengni okkar.

Í dag hittast leiðtogar Evrópusambandsins í Sibiu í Rúmeníu, til þess að ræða pólitískar væntingar Sambandsins og undirbúa aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Þessi fundur á sér stað í aðdraganda Evrópukosninganna, þar sem yfir 400 milljón Evrópubúar kjósa í stærstu lýðræðislegu fjölþjóðakosningu heims. Þessi fundur á sér stað þrjátíu árum eftir endalok kommúnismans og fall Berlínarmúrsins, og fimmtán árum eftir fordæmalausa stækkun Sambandsins, sem markaði endalok sorglegs klofnings meginlandsins okkar. Umræður leiðtoganna munu leggja grunnstoðirnar að næsta kafla evrópskrar samvinnu.

Til að fagna öllu þessu höldum við Evrópudaginn hátíðlegan í dag klukkan 17, í Ráðhúsi Reykjavíkur, með matar og menningarhátið. Veislan er opin öllum.

Michael Mann er sendiherra Evrópusambandsins, Håkan Juholt er sendiherra Svíþjóðar, Graham Paul er sendiherra Frakklands, Herbert Beck er sendiherra Þýskalands, Ann-Sofie Stude er sendiherra Finnlands, Gerard Pokruszyn´ski er sendiherra Póllands.

Höf.: Michael Mann, Håkan Juholt, Graham Paul, Herbert Beck, Ann-Sofie Stude, Gerard Pokruszyn´ski