Plæging Vélar Þórarins Þórarinssonar verktaka eru notaðar til að plægja háspennustreng og ljósleiðararör niður í jörðina hjá Leirulæk.
Plæging Vélar Þórarins Þórarinssonar verktaka eru notaðar til að plægja háspennustreng og ljósleiðararör niður í jörðina hjá Leirulæk. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Rekstraröryggið eykst til stórra muna og kostnaður við aðföng minnkar,“ segir Halldór J. Gunnlaugsson, kúabóndi á Hundastapa á Mýrum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Rekstraröryggið eykst til stórra muna og kostnaður við aðföng minnkar,“ segir Halldór J. Gunnlaugsson, kúabóndi á Hundastapa á Mýrum. Hann var fulltrúi Búnaðarsambands Mýramanna í starfshópi sem gerði áætlun um lagningu háspennustrengs fyrir þriggja fasa rafmagn um Mýrarnar. Vinna við fyrsta áfanga er hafin, lagning háspennustrengs til þriggja kúabúa í gamla Álftaneshreppi, og er búist við að strengurinn verði kominn að býlunum í næstu viku. Um leið eru lögð rör fyrir ljósleiðara.

Starfshópurinn og Rarik gerðu greiningu á því hvar brýnast væri að tengja þriggja fasa rafmagn. Bæir með stór kúabú, róbóta og aðra nútímatækni eru þar í forgangi ásamt öðrum býlum með mikla atvinnustarfsemi.

Halldór segir að raflínurnar á hluta svæðisins séu gamlar og rafmagn slái oft út. Því sé komið að endurnýjun. Þá séu kúabúin rekin með dýrum bráðabirgðalausnum.

Flýtifé á fjárlögum

Lagning þriggja fasa rafmagns um sveitahreppana vestan Borgarness var ekki á áætlun hjá Rarik fyrr en um miðjan fjórða áratug þessarar aldar. Sveitarstjórn Borgarbyggðar, Búnaðarfélag Mýramanna og einstakir bændur hafa þrýst á um að fyrr yrði ráðist í úrbætur. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra beitti sér fyrir því að flýtifé fengist á fjárlögum og fjármálaáætlun ríkisins, bæði fyrir Mýrarnar og Skaftárhrepp. Mýrarnar eru í þessu efni skilgreindar vítt, það er að segja svæðið frá Hvítárósum, vestur Mýrar og um Kolbeinsstaðahrepp hinn forna og Eyja- og Miklaholtshrepp. Áætlun um lagningu ljósleiðara ýtti á eftir enda hagkvæmt að leggja báða strengina í einu.

Vinna við fyrsta áfanga stendur yfir. Þórarinn Þórarinsson verktaki er að plægja í jörð strengi að Leirulæk, Leirulækjarseli og Lambastöðum í Álftaneshreppi hinum forna. Eftir tvö ár stendur til að leggja að nokkrum bæjum í Hraunhreppi hinum forna og Kolbeinsstaðahreppi og síðasti áfanginn er áætlaður árið 2022.

Halldór segir að með þessum framkvæmdum sé komin grind fyrir stofnlagnir um þessar sveitir og auðveldara að tengja fleiri bæi við bæði rafmagn og ljósleiðara.