Í Chromo Sapiens Sýningarstjórinn Birta Guðjónsdóttir og listakonan Hrafnhildur Arnardóttir í innsetningunni.
Í Chromo Sapiens Sýningarstjórinn Birta Guðjónsdóttir og listakonan Hrafnhildur Arnardóttir í innsetningunni. — Ljósmynd/Elísabet Davíðsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eiar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Ég er rosalega ánægð með þetta! Mér hefur tekist að raungera þá sýn sem hefur búið í höfðinu á mér síðasta árið, nákvæmlega eins og ég sá sýninguna fyrir mér.

Eiar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Ég er rosalega ánægð með þetta! Mér hefur tekist að raungera þá sýn sem hefur búið í höfðinu á mér síðasta árið, nákvæmlega eins og ég sá sýninguna fyrir mér. Ég gæti ekki verið þakklátari fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og er montin af því að vera hér fulltrúi Íslands,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir og kallar svo glaðlega: „HÁRfram Ísland!“

Hrafnhildur er þekkt undir listamannsnafninu Shoplifter og í kvöld verður opnuð í íslenska skálanum í Feneyjum sýningin sem kalla má hátind á hennar ferli – og hefur hún þó notið sívaxandi athygli og sett upp viðamiklar innsetningar á athyglisverðum og virtum sýningarstöðum.

Ég á símafund með Hrafnhildi og sýningarstjórann Birtu Guðjónsdóttur, sem hefur unnið markvisst með henni að sýningarverkefninu undanfarið ár, eða síðan tilkynnt var í júní í fyrra að Hrafnhildur yrði fulltrúi Íslands á 58. Feneyjatvíæringnum. Margra mánaða undirbúningi og vinnu við skipulagningu og uppsetningu sýningarinnar er lokið og síðustu tvo daga hafa fjölmiðlamenn og safnafólk allsstaðar að fengið að skoða sýningarskála hinna ýmsu þjóða í Feneyjum. Þegar ég ræði við Hrafnhildi og Birtu, þar sem þær eru staddar í loðnum heimi listakonunnar, er fyrri blaðamannadagurinn nýhafinn og látlaus straumur gesta er á sýninguna og fjölmörg viðtöl hafa verið bókuð.

Verkið „alveg geðveikt“

Þegar spurt er hvort tekist hafi að ljúka flókinni uppsetningu verksins í tíma svarar Hrafnhildur að endalaust sé hægt að laga eitthvað þegar um hárgreiðslu er að ræða. „Það er alltaf hægt að greiða eitt hár til. En við erum með æðislegt teymi hérna og það hefur mikið gengið á og verið mikið fjör.“ Hún þagnar og bætir svo stolt við: „En ég verð að segja að mér finnst verkið alveg geðveikt!“

Þær Birta segja flókna uppsetningu verksins hafa byggst á mjög nákvæmri skipulagningu. „Og verkið lítur út eins og við lögðum upp með, okkar A-plan er orðið að veruleika,“ segir Birta. Hrafnhildur og aðstoðarfólk hennar er líka í góðri æfingu við uppsetningu flókinna verka; þetta er þriðja innsetningin sem Hrafnhildur setur upp á árinu, hinar fóru upp í samtímasafninu Kiasma í Finnlandi og í tengslum við sýningu tískuhússins Moncler í Mílanó. „Ég er því „on a roll“,“ segir Hrafnhildur og hlær. „Efnið er farið að leika í höndunum á mér og ég veit nákvæmlega hvernig það hagar sér og hvað ég get gert með það. Svo hefur mér tekist að finna gott og hæfileikaríkt fólk sem hjálpar mér við að koma sýn minni í raunverulegt form og þau hef ég þjálfað í að undirbúa efniviðinn og setja hann saman á þann hátt sem ég vil. Við höfum til að mynda þurft að undirbúa hár í marglitum knippum fyrir innsetninguna; þetta er eiginlega 500 fermetra loðið málverk og handtökin óteljandi. Ég hef hér með mér margar hendur og heila sem eru einskonar framlenging af mér.“

Birta segir að með þeim í Feneyjum sé fólk sem hefur unnið með Hrafnhildi í mörg ár á vinnustofu hennar í Brooklyn og eru öll listamenn. Þá hafi Hrafnhildur einnig þjálfað starfsnema sem hafi tekið þátt í gerð verksins. Og Hrafnhildur skýtur inní að marglit hárknippin séu fest á net frá Hampiðjunni og það finnst þeim fallega viðeigandi. „Frá HAMpiðjunni,“ endurtekur Hrafnhildur og vísar í hljómsveitina sem vann með henni að verkinu.

Hangir nánast á engu

Á undanförnum árum hefur Hrafnhildur unnið að röð innsetninga sem hún kallar Taugafold , Nervescape á ensku, og hefur Birta verið sýningarstjóri þriggja, þeirra sem voru settar upp í Listamiðstöðinni í Boden í Svíþjóð, á Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist í Moss í Noregi og í Listasafni Íslands. Þær innsetnignar hafa allar farið inn í safnaumhverfi en nú er verkið Chromo Sapiens í hrárri vöruskemmu. Hver er munurinn?

„Þetta hér er pop-up sýning í hráu, gömlu rými þar sem ekki má negla einn einasta nagla í vegg,“ svarar Hrafnhildur. „Við höfum því sett verkið upp með hálfgerðum töfratólum og það hangir á nánast engu! Þetta hefur verið mikil áskorun, við útfærðum það strax í byrjun ásamt Guðna Valberg arkitekt og svo manninum mínum sem er verkfræðingur og það hefur alveg gengið upp.“ Og hún ítrekar að þar hafi skipt sköpum að vinna einnig með góðum arkitekt í Feneyjum, svo og sérvöldum úrlausnasnillingum. Birta bætir við að hvað verkfræðilausnir og uppsetningu varði hafði þær „blikkað Leonardo da Vinci aðeins hvað varðar að verkið er sett upp eins og bygging inni í byggingu sem hún snertir varla.“

Ýkt ofur-náttúra

Þátttaka á Feneyjatvíæringi er eina tækifærið sem íslenskum myndlistarmönnum gefst til að vera formlega fulltrúi þjóðarinnar. Hvernig er sú reynsla?

„Það er geggjaður heiður!“ svarar Hrafnhildur. „Mig hefur lengi langað til að spreyta mig í þessu hlutverki. Nú hef ég verið búsett í New York í 25 ár, helming ævinnar, og ég er samt alltaf fyrst og fremst Íslendingur. Ég er ekki mikið fyrir þjóðernisrembing, slíkt getur verið þreytandi og jafnvel hættulegt, en ég er mjög íslensk og verkin mín eru undir mjög miklum áhrifum frá Íslandi; frá klisjunni um náttúru Íslands. Ég hef búið hér til ýkta ofur-náttúru úr öllu þessu gerviefni, litrík hellagöng. Þetta er einskonar ofur-raunsætt expressjónískt landlagsmálverk, og eins og að ganga inn í barnabók eftir Dr. Seuss.“

Birta segir að þótt þær Hrafnhildi hafi lengi dreymt um að taka þátt í tvíæringnum sé þetta rétti tíminn fyrir hana. „Þetta verk hér er í rökréttu framhaldi af verkum hennar undanfarin ár. Þau hafa verið að stækka og breytast og hér tekst Hrafnhildur á við umhverfi þar sem hún vinnur ekki aðeins á staðbundinn hátt með rými heldur skapar algjörlega sitt eigið. Það er nýtt í hennar verkum. Undanfarna tvo áratugi hefur Hrafnhildur skapað og mótað feril sem hefur verið á línulegri uppleið – nú er rétti tíminn fyrir hana til að sýna hér í íslenska skálanum, með þeirri athygli alþjóðlega listheimsins sem því getur fylgt.“

Og Hrafnhildur bætir við: „Já, þetta gerist á réttum tíma. Ég hef þráð að geta gert svona stóra innsetningu þar sem gestir eru umvafðir hárinu. Þetta hefur verið óhemju vinna, að koma saman þessum pönkvefnaði – þetta er pönktextíll! Ég er ofboðslega hamingjusöm yfir því að hafa einmit núna, á Feneyjatvíæringnum, tekið þetta alla leið. Þetta er sannkallað lúxusverkefni. Og ég get ekki beðið eftir því sjá gesti upplifa listaverkið og litadýrðina.“

Innyflanudd og víbrasjón

Íslenskir plötusnúðar munu skemmta gestum við opnun íslenska skálans í kvöld en í mörg ár hefur það verið umtalað meðal safnafólks og listunnenda sem sækja opnun tvíæringsins að einhver skemmtilegustu partýin séu við íslensku opnunina. Þá mun hin goðsagnakennda sveit HAM troða upp en hún samdi tónverk fyrir verk Hrafnhildar. „Þeir hafa venjulega samið um þriggja mínútna löng rokklög, sem við höfum endurskilgreint sem „hairy mental“ og hafa ómað í vinnustofunni minni til margra ára. Ég pantaði hjá þeim ópus, hljóðverk fyrir innsetninguna og allt sem hún snýst um. Hljóðheimur HAM hæfir fullkomnlega, er svo stórkostlega „præmal“ og hljóðbylgjutengdur, gefur innyflanudd og víbrasjón, og ég vissi að þetta myndi passa saman. Og þeir voru spenntir fyrir áskoruninni,“ segir hún um samstarfið við HAM en tónlistin var tekin upp í hljóðveri Lees Ranaldo, eins meðlima hljómsveitarinnar Sonic Youth, undir stjórn Skúla Sverrissonar.

Hún segir verk HAM hljóma úr þeim háruga ham sem innsetningin sé. „Hellarnir þrír í Chromo Sapiens heita „Primal Opus“, myrkvuð göng í litasamsetningum eldglæringa sem eru tileinkuð HAM; þá kemur „Astral Gloria“ sem er sækadelísk og trippí litadýrð; og loks er það „Opium Natura“ þar sem eru flöktandi og dúnmjúkir litatónar og saklaus sjónræn alsæla,“ segir Hrafnhildur.

Tónverkið sem HAM samdi og hljóðritaði er um 20 mínútur og er gefið út á LP-plötu sem er hluti af sýningarskránni; hún kemur út í 1000 eintökum, er hönnuð af grafíska hönnunarteyminu karlssonwilker og hver plata er einstök, glær vínylplata með hárlufsum úr verki Hrafnhildar pressuðum inn í hverja plötu. Texta í sýningarskrána skrifa Birta, Hilton Als, JenDeNike, Oddný Eir Ævarsdóttir og Timothy Morton, og þá er birt samtal Hrafnhildar og Alönnu Heiss.

Svakalegt ferli en skemmtilegt

Erlendir fjölmiðlamenn hafa safnast saman í íslenska skálanum meðan við spjöllum og vilja ná tali af þeim Hrafnhildi og Birtu. Sú síðarnefnda segir loftið vera orðið rafmagnað í Feneyjum og mikil spenna sé greinilega fyrir íslenska skálanum sem einhverjir fjölmiðlar hafa va lið meðal þeirra mest spennandi.

„Verkið vekur áhuga fólks á svo breiðu sviði. Við höfum hitt blaðamenn frá myndlistar-, hönnunar- og lífsstílsmiðlum. List Hrafnhildar spannar vítt svið og nær til margra.“

Og þær viðurkenna að vera lúnar.

„Þetta hefur verið svakalegt ferli, en skemmtilegt. Eftir opnunina ætlum við hjónin að sigla frá Feneyjum á skútu vinar okkar með krakkana inn í sólarlagið til Króatíu. Þá nær maður loksins að anda,“ segir Hrafnhildur að lokum.

Innsetning Hrafnhildar

Sýning Hrafnhildar Arnardóttur, sem kallar sig Shoplifter, verður opnuð í íslenska skálanum á 58. Feneyjatvíæringnum í kvöld en skálinn er í gömlu vöruhúsi á eyjunni Giudecca. Um er að ræða viðamikla innsetningu úr einkennisefni Hrafnhildar, hári, og nefnist hún Chromo Sapiens. „Litir hljóð og aðlaðandi áferð leiða gesti í gegnum þrjú ólík rými sem umlykja þá í myndrænum og hljóðrænum samruna,“ segir í tilkynningu.

Hljómsveitin HAM hefur samið tónverk fyrir Chromo Sapiens og hljómar það um hinn loðna heim listakonunnar. Hljómsveitin kemur fram við opnunina. Birta Guðjónsdóttir er sýningarstjóri verkefnisins sem fjöldi manns hefur unnið að.