Engilbjört Auðunsdóttir fæddist 5. júlí 1972. Hún lést 11. apríl 2019.

Útför Engilbjartar fór fram 2. maí 2019.

Við kveðjum Engilbjörtu með óbærilegum söknuði og sorg í hjarta. Frá því á háskólaárunum höfum við notið vináttu Óla og Engilbjartar í gegnum sterkan vinahóp. Börnin okkar hafa jafnframt orðið miklir vinir. Þrátt fyrir að vera á hvor á sínum leikskóla gátu þeir Guðni og Atli Hrafn myndað góð tengsl með því að kallast á yfir grindverkið sem skildi þá að í Skerjafirðinum og þannig skipulagt leiktíma eftir skóla. Þeir urðu bekkjarbræður í Melaskóla og hafa verið bestu vinir allar götur síðan. Ásthildur og Kári voru einnig saman í bekk í Melaskóla og hafa haldið sameiginlegan vinahóp með öðrum góðum krökkum. Fráfall Engilbjartar snertir okkur því öll á Sólvallagötunni.

Við vonumst til að geta með einhverju móti stutt þá feðga í þeirri sorg og missi sem þeir standa nú frami fyrir. Sameiginleg vinátta okkar við þá feðga mun lifa áfram.

Minningin um einstaklega hlýja, skemmtilega og góða konu mun ylja okkur um hjartarætur um ókomna tíð.

Andri, Auður, Atli,

Ásthildur og Edda.