Íris Björk Hlöðversdóttir fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1973. Hún lést 29. apríl síðastliðinn.

Foreldrar hennar: hjónin Sveinbjörg Hermannsdóttir, f. 25.12. 1946, d. 14.12. 2001, og Hlöðver Kjartansson, f. 16.8. 1948. Systkini Írisar Bjarkar eru þau Hulda Kristín Hlöðversdóttir, f. 18.8. 1975, sambúðarkona hennar er Brynja Dröfn Ísfjörð Ingadóttir, f. 1.11. 1980; Kjartan Arnald Hlöðversson, f. 12.2. 1980, dóttir hans og fyrrverandi sambúðarkonu hans, Eyglóar Scheving, f. 4.11. 1983, er Sveinbjörg Júlía Scheving Kjartansdóttir, f. 11.7. 2004; Pálmar Þór Hlöðversson, f. 27.12. 1984, sambúðarmaður hans er David Anthony Noble, f. 19.3. 1986.

Íris Björk var gift Ægi Finnbogasyni, f. 8.9. 1970. Þau skildu. Áttu þau saman börnin Finnboga Erni Ægisson, f. 18.1. 1996, og Emilíu Karen Ægisdóttur, f. 16.4. 1998.

Seinni eiginmaður Írisar Bjarkar var Jóhannes Ólafur Ellingsen, f. 23.10. 1972. Þau slitu samvistum.

Íris Björk ólst upp í Reykjavík og síðar Hafnarfirði. Hún gekk í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og stundaði nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Hún lauk námi í tækniteiknun frá Tækniskólanum.

Um ævina vann Íris Björk hin ýmsu störf en lengst af sem húsmóðir.

Útför Írisar Bjarkar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 9. maí 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er sorglegt að minnast þegar fólk deyr á miðjum aldri. Íris Björk, systurdóttir okkar, hefur nú hafið ferð inn í eilífðina til Guðs og góðra engla.

Við minnumst hennar sem barns innan um börnin okkar, frá fyrstu sporum í leik og vellíðan, afmælum sem útilegum.

Ekki var annað að sjá en þau ungu hjörtu sem léku svo glatt ættu hina björtu framtíð fyrir sér.

Við fylgdumst öll að, æskusporin, en svo eins og gengur þroskast fólk og fjarlægist, eftir að fullorðinsárin koma yfir eitt af öðru og nýjar fjölskyldur myndast hjá því sjálfu og um nóg verður að hugsa hjá hverju og einu. Samverustundunum fækkar og leiðir skilja.

Svo koma slæmar fréttir og veikindi er oft erfitt að ráða við.

Við þökkum fyrir samfylgdina svo langt sem hún náði og vottum ykkur, elsku börn hennar, Finnbogi Ernir og Emelía Karen, samúð okkar, svo og föður, systkinum og öðrum ættingjum.

Hvíl í friði, elsku Íris Björk.

Sólrún, Herdís,

Guðmundur, Halldór og fjölskyldur.

Regnbogi glitrar um himin,

þvílíkt undur sem það nú er.

Líkt og vinátta sem maður öðlast og varðveitir

um alla eilífð í hjarta sér.

Á enda hvers regnboga er gullið góða

maður finnur það ef vel er að gáð

maður getur fundið slíka gersemi í vináttu

sérstaklega ef vel í byrjun er sáð

Þó er sú staðreynd að regnbogar dofna

og eftir verður minningin ein

um þá liti, það undur og þá fegurð

sem virtist vera svo hrein.

Vinátta getur því sannarlega dofnað,

sérstaklega ef vinur í burtu fer.

Minningar verða því einungis eftir

fyrir þann sem eftir er.

Um hlátrasköllin góðu,

þau skemmtilegu spjallkvöld,

tryggðin, trúin og traustið

og hvað gleðin tók oft öll völd.

Þó gerist oft það undur

að regnbogi birtist á ný

og vinir aftur hittast

líkt og ekkert hafi farið fyrir bí.

Því ef vonleysið mann ei gleypir,

heldur ætíð í þá trú

að regnbogi muni aftur birtast

og sá regnbogi gæti verið þú.

Það skiptir því ekki svo miklu

hvar á jarðarkringlunni maður er

því ætíð mun maður sjá aftur

regnbogann birtast sér.

Alltaf mun ég því halda

mínum kæra vin nær.

Allavega í mínu hjarta

öruggan stað þar hann fær.

(Katrín Ruth)

Una Ýr Jörundsdóttir.

Hér sit ég dofin, illt í hjartanu og hugsa til fallegu Írisar minnar sem nú er látin.

Íris var stelpa sem fór ekki fram hjá nokkurri manneskju. Þvílíka sjarmatröllið eða drottningin sem hún var, gullfalleg með fallega brosið sitt, útgeislunina og lífsgleðina sína. Íris hafði lag á því að sjá hið fallega í hverri manneskju, hverjum hlut, hverju augnabliki, fegurð jarðlífsins var henni hugleikin.

Ef mér leið eitthvað illa var ekkert betra en að hitta eða spjalla við Írisi mína og það var á við besta þerapíutíma. Hún hafði svo mikið að gefa. Vildi öllum vel. Hún var gjafmild á hrós og gullhamra og fólki leið vel í hennar návist.

Heimilið hennar bar ávallt vott um að þar byggi mikil smekkmanneskja og hún naut þess að skapa sér og sínum fallegt umhverfi og sjá hið fagra í kringum sig.

Við systurnar eins og við kölluðum okkur stundum kynntumst fyrir tilstilli mömmu minnar árið 2012. Mamma hafði kynnst Írisi í gegnum MS-samtökin. Einhvern veginn fannst mömmu minni við bara verða að kynnast hvor annarri. Við værum nefnilega svolítið líkar.

Það varð ekkert aftur snúið eftir fyrsta heimboðið í Mosó til mín. Íris kom í kaffi og eftir stutta stund var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Við gátum tengt við svo ótalmargt og áttum svo margt sameiginlegt. Við vorum báðar í nýjum samböndum, áttum börn á svipuðum aldri, vorum að mynda stjúpfjölskyldu, elskuðum hunda og lífið sjálft. Við treystum fljótt hvor annarri fyrir okkar dýpstu leyndarmálum, líðan og tilfinningum og leituðum í reynslubanka hinnar þegar þörf var á.

Árin liðu, ég flutti út á land með eiginmanni mínum og það dró úr samskiptum milli okkar. Við hittumst mun sjaldnar en héldum þó alltaf sambandi á fésbókinni. Síðastliðið ár var Írisi minni afar erfitt. Hún leitaði til mín í haust og ég studdi hana eins og ég best gat eftir mínum veika mætti. Það var sárt að fylgjast með því í vetur þegar erfiðleikar og veikindi þín tóku af þér öll völd, elsku vinkona.

Ég er óskaplega þakklát fyrir okkar síðasta fund þegar við hittumst og áttum saman góða stund um miðjan apríl síðastliðinn, borðuðum og spjölluðum lengi saman. Mér fannst Íris mín vera komin til baka. Þú varst viðkvæm og brothætt en samt svo sterk og ætlaðir þér að komast í gegnum þetta allt saman. Þú áttir þér þá ósk heitasta að fjölskyldan þín myndi fyrirgefa þér og að börnunum þínum liði vel.

Það var erfitt að kveðja þig, við knúsuðumst þrisvar sinnum og ég átti erfitt með að sleppa þér. Ég sé núna af hverju. Þetta var okkar hinsta vinkvennastund.

„Be a rainbow in someone else's cloud“ var setning sem þér var kær. Þú sannarlega lífgaðir upp tilveru allra þeirra sem þér kynntust. Hvíldu í friði, elsku Íris mín. Minning um stórkostlega manneskju og vinkonu mun lifa. Gullmolunum þínum þeim Finnboga Erni og Emilíu Karen sem og fjölskyldunni þinni allri sem þú varst svo stolt af að tilheyra og elskaðir svo heitt sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þín vinkona

Bjarnþóra Pálsdóttir.