— Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Íbúar á Norðausturlandi vöknuðu upp við slyddu og gráa jörð í gærmorgun. Hálka var á fjallvegum og hömluðu snjór og hálka för þeirra sem komnir eru á sumardekk. Snjóinn tók upp þegar sólin skein og var horfinn af láglendi upp úr hádegi.

Íbúar á Norðausturlandi vöknuðu upp við slyddu og gráa jörð í gærmorgun. Hálka var á fjallvegum og hömluðu snjór og hálka för þeirra sem komnir eru á sumardekk.

Snjóinn tók upp þegar sólin skein og var horfinn af láglendi upp úr hádegi.

Veðurstofan spáir því að él gangi yfir Norður- og Austurland á næstu dögum. Veðurfræðingur varaði þá sem sett hafa sumardekk undir bíla sína við hálku á heiðum og fjallvegum.

Ökumenn á Norðausturlandi áttu að vera búnir að skipta út vetrardekkjum fyrir sumardekk fyrir miðjan apríl. Menn á þeim slóðum fara sér þó að engu óðslega og huga að þróun veðurs og færðar. Karl Ásberg Steinsson á verkstæðinu Mótorhaus á Þórshöfn segir að um helmingur bílanna sé kominn á sumardekk. Þeir sem búnir eru að skipta aki aðeins innanbæjar og taki frekar bílaleigubíl á nöglum ef þeir fari í langferð. „Þetta bjargast allt saman,“ segir Karl.

helgi@mbl.is