Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson: "Ekki hægt að skilja skrifin öðruvísi en að verið sé að horfa á málið frá sjónarhorni ESB, þ.e. Evrópulöndin þurfi hreina orku frá Íslandi. Því eigi þau, en ekki aðeins Ísland, að nýta þá orku."

Þá er það byrjað. Samstillt átak fyrir innleiðingu 3. orkupakka Evrópusambandsins. Í gær birtu átta forsprakkar samtaka atvinnurekenda sameiginlega grein í Morgunblaðinu. Greinin gekk út á að lofa dásemdir glóbalismans í viðskiptum og stjórnmálum. Undirliggjandi var hin hefðbundna viðvörun við því að Íslendingar verji eigin rétt og hagsmuni umfram það sem sé alþjóðakerfinu þóknanlegt. Allt er þetta mjög kunnuglegt.

Með fyrirvaralausri lofgjörð um EES-samninginn og áminningu um hversu lítið Ísland sé er tekið undir meginstef stuðningsmanna orkupakkans. Þ.e. að við megum ekki gerast svo djörf að nýta heimildir samningsins til að senda mál aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fara fram á undanþágur þar. Með slíku sé samningnum stefnt í hættu.

Ólíkt mörgum öðrum stuðningsmönnum orkupakkans segja greinarhöfundar þetta þó ekki berum orðum. Þeim til hróss er hættutalið mjög hófstillt samanborið við málflutning utanríkisráðherrans og ekkert er fjallað um Kúbu norðursins. Reyndar er nálgun greinarhöfunda í grundvallaratriðum ólík þeirri mynd sem ríkisstjórnin hefur haldið að okkur og fyrir vikið eru skrifin mjög upplýsandi.

Þar er ekkert tal um mikilvægi heimatilbúnu fyrirvaranna. Þess í stað er látið eins og þeir séu ekki til (eðlilega). Höfundarnir lofsama þvert á móti afleiðingar orkupakkans og biðja um meira af því sama. Þó er því haldið fram að EES-samstarfið nái ekki til nýtingar auðlinda. Það megi sjá af því að Norðmenn ráði sjálfir hvernig þeir nýti olíu- og gaslindir sínar og Finnar og Svíar ákveði hvernig skuli höggva skóga. Vissulega rétt. Enda er ekki búið að innleiða olíu- og gaspakka eða skógarpakka með samevrópskri stofnun til að stýra framboði, samkeppni og jafnvel verðlagi á þeim sviðum. Hætt er við að fyrrnefndar þjóðir tækju slíku tiltölulega illa.

EES-samstarfið átti vissulega ekki að ná til nýtingar auðlinda en nú er ESB jafnt og þétt að færa sig upp á skaftið hvað það varðar og tekur risastórt skref í þeim efnum með 3. orkupakkanum. Áfram verður svo haldið með þeim 4. og 5. og ekki annað að sjá en áttmenningarnir telji það hið besta mál.

EES-samstarfið átti heldur ekki að ná yfir landbúnað og sjávarútveg. Á því byggði Ísland varnir sínar gagnvart kröfum um aukinn innflutning landbúnaðarafurða. Hvar stóðu greinarhöfundarnir þá? Beittu ekki a.m.k. sumir þeirra sér fyrir málstað ESB/ESA og gegn afstöðu Íslands í málinu? Nú horfum við upp á stjórnvöld reyna að innleiða löggjöf til að mæta kröfum ESB í þeim efnum þrátt fyrir að málin hafi aldrei átt að heyra undir EES-samstarfið og niðurstaðan hafi verið „röng“ eins og Stefán Már Stefánsson, sérfræðingur í Evrópurétti, orðaði það.

Áttmenningarnir vísa líka í þau erlendu rök að með orkupakkanum standi til að auka samkeppni. Hvernig verður það nú gert? Jú, með því að tengja saman raforkukerfi og brjóta upp fyrirtæki sem teljast of stór á sínu sviði. En einnig, eins sérkennilegt og það er, með því að setja alla orku í einn pott og selja úr þeim potti á því verði sem ESB heimilar en alls ekki lægra verði en það.

Þessi rök snúast upp í andhverfu sína þegar litið er til íslenskra hagsmuna. Hér höfum við notið góðs af því að vera með eitt stórt og öflugt fyrirtæki í almannaeigu sem framleitt getur raforku á mun betra verði en því sem ESB heimilar.

Loks inniheldur greinin óljóst tal um að við þurfum að leggja okkar af mörkum í baráttu við loftslagsbreytingar með þátttöku í 3. orkupakkanum. Það gerum við auðvitað nú þegar og ekki hægt að skilja skrifin öðruvísi en að verið sé að horfa á málið frá sjónarhorni ESB, þ.e. Evrópulöndin þurfi hreina orku frá Íslandi. Því eigi þau, en ekki aðeins Ísland, að nýta þá orku.

Ljóst er að rökstuðningur áttmenninganna mun ekki síður eiga við þegar og ef kemur að því að afgreiða 4. og 5. orkupakkann og hann mun svo sannarlega eiga við þegar knúið verður á um lagningu sæstrengs. Þá munum við enn á ný opna blöðin og lesa sama rökstuðninginn og einhverjir ráðherrar, eða aðrir sem segjast vera boðberar nútímans, munu útskýra að þeir sem þvælist fyrir slíku séu einangrunar- og afturhaldssinnar sem stefni EES-samningnum í hættu.

Höfundur er formaður Miðflokksins.