Greifinn Eiríkur Ingi Lárusson er kominn í samstarf við Ungverja.
Greifinn Eiríkur Ingi Lárusson er kominn í samstarf við Ungverja.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Hárskerinn Eiríkur Ingi Lárusson hefur unnið við iðnina í tæplega aldarfjórðung og er með traustan viðskiptamannahóp.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hárskerinn Eiríkur Ingi Lárusson hefur unnið við iðnina í tæplega aldarfjórðung og er með traustan viðskiptamannahóp. Hann keypti hársnyrtistofuna Greifann á Hringbraut 119, vestast í Vesturbæ Reykjavíkur, fyrir nokkrum árum, hefur síðan leiðbeint og aðstoðað fólk í sambandi við hártoppa og er nú kominn í samstarf við ungversku hárígræðslustöðina La Porta-Hair í Búdapest.

„Ég sérsníð hártoppa á þunnhært fólk og sérpanta þá svo að utan,“ segir Eiríkur og bendir á að samstarfið við Ungverjana sé eðlileg viðbót við þjónustuna. Hann útskýrir að hártoppar séu fyrir einstaklinga sem hafa misst allt hárið en hárígræðsla sé góð lausn fyrir þá sem eru með há kollvik og þunnt hár í hvirflinum. Stundum sé báðum aðferðum beitt; hártoppur á einum stað og hárígræðsla á öðrum. Ennfremur veiti hann aðstoð við skeggígræðslu. „Ég met stöðu hvers einstaklings, hvernig hárið þynnist og hvað sé hægt að gera. Í stuttu máli er ég með alhliða lausnir vegna hárloss.“

Sérfræðingar og staðlar

Eiríkur segir að svokallað FUE2-hárígræðslukerfi sé það nýjasta í þessum fræðum. Það sé upprunnið í Bandaríkjunum og ungverska stöðin sé í samstarfi við frumkvöðlana vestra. Hársekkir séu teknir úr hnakkanum eða hliðunum, þar sem hárið sé þykkast, og græddir í hársvörðinn, þar sem hárið vantar. Vegna sérstakrar meðferðar aðlagi þeir sig nýja svæðinu, verði þar eðlilegir og vaxi sem fyrr.

„Sérfræðingar í læknastétt, skurðlæknar og fleiri, vinna á stöðinni í Búdapest og fylgja evrópskum stöðlum,“ segir Eiríkur. „Eftir að ég hef fengið upplýsingar um hárlos í ætt viðkomandi einstaklings og metið hárlos hans sendi ég myndir af hársverði hans til sérfræðinganna ytra. Þeir setja upp aðgerðaáætlun og áætla kostnað. Hægt er að komast að hjá þeim eftir um það bil mánuð, aðgerðin tekur einn til tvo daga og gisting er innifalin í pakkanum.“

Eiríkur segir að sem betur fer þurfi menn ekki að skammast sín lengur fyrir að vera með þunnt hár eða skalla, þótt hárlos hafi alltaf einhver áhrif á sálarlífið. „Ég er með yfir 200 fasta viðskiptavini í hártoppum og hárígræðsla er í eðli sínu af sama meiði, bara önnur lausn.“

Verðið fer eftir því hvað aðgerðin er mikil, fjölda hársekkja. „Pakkinn ytra getur kostað frá um 300.000 krónum upp í eina og hálfa milljón. En þetta er spurning um val og útlit. Fólk vill gjarnan viðhalda æskuljómanum og það er það sem ég reyni að aðstoða það við, enda hef ég alltaf haft gaman af útliti og tísku.“