Jón Halldórsson fæddist 14. júní 1950. Hann lést 21. apríl 2019.

Jón var jarðsunginn 3. maí 2019.

Svo lengi sem ég man eftir hef ég vitað af frænda mínum honum Jóni Halldórssyni en í um 50 ár höfum við verið tengdir nánum fjölskylduböndum þar sem eiginkonur okkar eru systur. Ég hef því alltaf vitað hversu vandaður maður Jón var. Hann var einstaklega ljúfur í viðmóti og úrræðagóður. Það lék allt í höndunum á honum, hvort sem það voru rafmagn, vélar, tölvur, fjörugrjót eða íslenskt birki. Hann var stór og sterkbyggður og það voru fáir sem stóðust honum snúning ef tekist var á krók í nettri kraftakeppni.

Það var svo fyrir um 30 árum að Jón fór að vinna fyrir útgerð okkar og óhætt er að segja að það hafi verið mikið gæfuspor fyrir útgerðina að ráða Jón í vinnu. Hann vann hjá útgerðinni sem vélstjóri, útgerðarstjóri og við netavinnu. Einnig kom hann að saltfiskvinnslu í upphafi starfsferils hans hjá okkur. Ekkert verkefni var of erfitt eða of flókið þegar Jón var annars vegar. Hann nálgaðist öll verkefni með opnum huga og leitaði alltaf að lausnum og uppgjöf var ekki til í hans huga.

Þegar núverandi skip útgerðarinnar var nýtt fór Jón með í fyrstu túrana sem vélstjóri. Eins og oft vill verða þegar um ný skip er að ræða koma upp ýmis vandamál en í huga Jóns voru það bara verkefni sem þurfti að leysa. Áhafnarmeðlimir höfðu á orði hvað það væri gott að leita til Jóns varðandi úrlausn allra mála og ennfremur hafði Jón frumkvæði að því að gera alla vinnuaðstöðu sem besta.

Ávallt er Bylgja VE-75 kom til löndunar var Jón okkar mættur um borð reiðubúinn að miðla af þekkingu sinni og reynslu varðandi allt það sem þurfti að gera og lagfæra.

Fjölskyldur okkar tengdust mikið og ferðuðumst við meðal annars saman bæði innanlands og utan og var Jón góður ferðafélagi og alltaf hægt að treysta á ratvísi hans, svo gott áttaskyn hafði hann.

Hans stærsta gæfa í lífinu var eiginkonan og fjölskyldan sem stóð alltaf þétt saman. Hann var einstaklega barngóður og hafði mikla þolinmæði gagnvart börnum og var alltaf til í smá leik með þeim.

Það er með innilegu þakklæti sem við minnumst Jóns, við erum þakklát fyrir að hafa notið samvista við hann og fyrir starfskrafta hans í þágu útgerðarinnar. Nú þegar komið er að kveðjustund viljum við votta Svönu, dætrum og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd útgerðar Bylgju VE-75,

Matthías Óskarsson.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag og ómögulegt er að sjá fyrir hvað hver dagur ber í skauti sér. Ekki áttum við von á þeim fréttum um páskana að Nonni mágur, svili og vinur, væri farinn á vit feðra sinna.

Nonni var einstakur gleðigjafi, barngóður, hjartahlýr og ávallt mjög úrræðagóður. Hann kom öllum í gott skap með glaðværð sinni og ljúfmennsku. Börn löðuðust öll að honum og hann náði oft einstaklega góðum samskiptum við þau.

Við Nonni áttum margar góðar gleðistundir saman. Við ferðuðumst mikið með börnin okkar þegar þau voru yngri, voru það þá ferðalög um landið þvert og endilangt. Það þótti ekkert tiltökumál að skjótast norður, ef veður var þar betra en á Suðurlandi.

Farið var í Vaglaskóg og veðurblíðunnar notið út í ystu æsar. Ef Vesturlandið var tekið, þá var það Húsafell og fleiri góðir staðir. Ef Suðurland varð fyrir valinu þá voru það einna helst Flúðir, Laugarás og jafnvel Kirkjubæjarklaustur.

Það var alltaf glatt á hjalla hjá okkur og hlýjar minningar hrannast upp, m.a. söngur við tjaldsúlur, vísnabækur oftar en ekki „gefnar“ út og skrifaðar, þá annað hvort í minnisbækur eða á sælgætispappír. Danska lagið var oft tekið og sungið hástöfum í mikilli og góðri gleði.

Það var útvarpsþáttur á Bylgjunni á þessum tíma þar sem þáttastjórnendur kölluðu sig Jón & Gulla. Okkur Nonna fannst það mjög skemmtileg nálgun á gríni og glensi að geta tengt okkur við þá félaga, enda afburða skemmtilegir eins og við, að okkur fannst ...

Oftar en ekki var rennt fyrir fisk á þessum árum og fengur dagsins grillaður í lok dags. Var þá enginn betri en Nonni við þá iðju að grilla og var hann iðulega réttum megin við þá græju.

Svo kom golfið til sögunnar og oft á tíðum tekinn hringur, þá annað hvort uppi á landi eða úti í eyjum. Nonni hafði afskaplega gaman af golfi. Komu þau Svana sér fljótt upp góðum græjum og golfbíl til að geta notið þess saman sem allra best.

Við Guðrún höfum átt einstaklega gott samband við Nonna, Svönu og börn. Nonni skilur eftir sig stórt skarð og við hjónin ásamt börnum okkar munum sakna hans mikið. Söknuður okkar bliknar þó í samanburði við missi nánustu aðstandenda.

Orð verða oft fátækleg í þessu sambandi, en minningin um góðan vin sem fór allt of snemma er þeim mun sterkari.

Við Guðrún og fjölskylda viljum senda okkar innilegustu samúðarkveðjur til Svönu og fjölskyldu á þessum þessum erfiðu tímum í þeirra lífi.

Honum Nonna munum við aldrei gleyma og hlýjar minningar um góðan og traustan vin munu ávallt lifa.

Guðlaugur (Gulli),

Guðrún og fjölskylda.