Þriðji geirinn Björgunarstarf hér á landi er að stórum hluta unnið í sjálfboðavinnu. Það hefur gífurlega þýðingu fyrir íslenskt samfélag. Hér eru félagar í Landsbjörg á æfingu við Gufuskála fyrir nokkrum árum. Björgunsveitirnar eru ekki aðilar að samtökunum Almannaheill.
Þriðji geirinn Björgunarstarf hér á landi er að stórum hluta unnið í sjálfboðavinnu. Það hefur gífurlega þýðingu fyrir íslenskt samfélag. Hér eru félagar í Landsbjörg á æfingu við Gufuskála fyrir nokkrum árum. Björgunsveitirnar eru ekki aðilar að samtökunum Almannaheill. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Aukinn áhugi er á þriðja geiranum svokallaða og birtist það meðal annars í stjórnarfrumvarpi um félög til almannaheilla, nefndarstarfi þar sem skattalegar ívilnanir eru til skoðunar og námskeiði fyrir stjórnendur á þessu sviði í Háskólanum í Reykjavík. Með þriðja geiranum er átt við félög og stofnanir sem starfa í almannaþágu án hagnaðarsjónarmiða og tilheyra hvorki opinberum rekstri né einkarekstri. Umfang þessarar starfsemi og fjárhagsleg velta virðist hafa stóraukist bæði hér á landi og erlendis á undanförnum árum, en upplýsingar skortir til að leggja nákvæmt mat á framlag þriðja geirans til þjóðlífsins og efnahagsstarfseminnar hér.

Umfang geirans mikið

Tveir prófessor við háskóla Íslands, Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir, hafa á undanförnum árum kannað ýmsa þætti þriðja geirans hér á landi. Þau segja að erfitt sé að meta umfang hans, en benda á að samkvæmt gögnum Hagstofunnar hafi tæplega 900 félagasamtök og sjálfseignarstofnanir verið starfandi hér á landi árið 2017. Miðað er við aðila sem greitt höfðu einhver laun á því ári og voru þeir 1.500 þetta ár.Yfirleitt eru samtök af þessu tagi með fáa launaða starfsmenn og sum enga. Undantekning frá því er sjálfseignarstofnanir í velferðarþjónustu þar sem nokkur dæmi eru um að starfsmenn séu fleiri en eitt hundrað.

Í nýlegu riti The Third Sector as a Renewable Resource for Europe eftir Lester M. Salamon og Wojciech Sokolowski segir að starfsemi af þessu tagi sé gífurlega sterkur þáttur í evrópsku hagkerfi, sterkari en margar hefðbundnar atvinnugreinar. Tölur sem höfundarnir birta um umfangið eru frá 2014 og miðast við lönd Evrópusambandsins og Noreg. Þær sýna að innan þriðja geirans starfa rúmlega 28 milljónir manna, ýmis í launuðu starfi eða sjálfboðavinnu. Þetta eru 13% af öllu vinnuafli í Evrópu. Ólaunuðu sjálfboðaliðarnir eru 55% hópsins, um 15 milljónir manna.

Erlendar rannsóknir sýna að framlag þriðja geirans til vergrar landsframleiðslu er allt 0,8%. Ómar og Steinunn segja að erfitt sé að meta efnahagsleg áhrif þriðja geirans þar sem stór hluti hans felst í ávinningi sem ekki mælist með fjárhagslegum mælistikum. Erlendis hafi menn skoðað veltu félaga og stofnana á þessu sviði og áætlað hvað ólaunuð störf sjálfboðaliða myndu kosta ef þau væru unnin af launuðu starfsfólki. Þessi aðferð mæli hins vegar aldrei nema brot af þeim ávinningi sem felist í samfélagslegum áhrifum félagasamtaka. Vegna heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sé nú meiri áhugi á því að mæla félagslegar framfarir en efnahagslegar. Heimsmarkmiðin kveða sem kunnugt er m.a. á um að stefnt skuli að heimi án fátæktar og hungurs og að tryggja öllum heilsu og vellíðan, menntun og jafnan rétt.

Almannaheill

Könnun sem gerð var hér á landi fyrir um áratug leiddi í ljós að um þriðjungur Íslendinga 18 ára og eldri tók þátt í sjálfboðastörfum og 75% voru í einhverjum félögum. Flestir unnu fyrir íþrótta- og tómstundafélög og þau voru einnig fjölmennust frjálsra félaga. Algengara er að fólk eldri en 50 ára sinni sjálfboðastörfum en yngra fólk, sérstaklega fyrir velferðarfélög.

Rúmur áratugur er síðan Almannaheill, samtök þriðja geirans, voru stofnuð til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa í almannaþágu. Jafnframt vinna þau að sem hagfelldustu starfsumhverfi fyrir þessa aðila, styrkja ímynd þeirra, efla stöðu þriðja geirans í samfélaginu og koma fram fyrir hönd hans gagnvart opinberum aðilum og fjölmiðlum. Innan Almannaheilla eru nú 33 aðildarfélög, þar á meðal stór samtök eins og Bandalag íslenskra skáta, Landssamband eldri borgara, Öryrkjabandalagið og Neytendasamtökin. Meðal annarra aðildarfélaga má nefna Barnaheill, Blindrafélagið, Heimili og skóla, Hjartavernd, Kvenfélagasambandið, Landvernd, Geðhjálp og Þroskahjálp.

Uatn Almannaheilla stendur enn mikill fjöldi félaga innan þriðja geirans, þ.ám. björgunarsveitirnar og ýmsir aðilar sem leggja til mikið fjármagn í formi styrkja og gjafa, eins og Lions, Kiwanis, Rotary, Frímúrarar, Oddfellowar og fleiri slík félög og samtök. Framlög Oddfellowa á ári til ýmissa samtaka og stofnana nema t.d. um 150 milljónum króna.

Að sögn Ketils B. Magnússonar, formanns Almannaheilla, er allt starf samtakanna unnið af stjórnarfólki í sjálfboðastarfi. Enginn stjórnarmaður fær greitt fyrir vinnu sína og enginn starfsmaður er á launum hjá félaginu. Ketill segir að af verkefnum á næstunni beri einna hæst kynningu á skattlausum erfðafjárgjöfum til almannaheillafélaga. Nýverið varð að lögum eitt af baráttumálum samtakanna um að fella niður skatt af erfðafjárgjöfum til almannaheillafélaga.

Ketill segir að Almannaheill muni áfram beita sér fyrir bættu rekstrarumhverfi almannaheillafélaga. Skattaumhverfið sé ennþá óhagstætt þó svo að skilningur yfirvalda sé að aukast. Almannaheill vilji auka skattafslátt sem fyrirtæki fá fyrir styrki til almannaheillafélaga. „Eins viljum við að einstaklingar sem gefa fé til almannaheillafélaga geti fengið dregið það framlag frá í skattaframtali sínu upp að ákveðnu marki eins og víða má sjá í öðrum löndum,“ segir Ketill.

Löggjöf og skattaívilnanir

Fyrir Alþingi liggur nú stjórnarfrumvarp um félög til almannaheilla þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur félaga sem kjósa að vera á fyrirhugaðri almannaheillaskrá ríkisskattstjóra. Hugmyndin er að tryggja að félög af þessu tagi viðhafi lýðræðislega starfshætti og að faglega og á vandaðan hátt sé haldið utan um fjármál og önnur gæði sem félögunum eru fengin. Skiptar skoðanir hafa verið um ýmis efnisatriði frumvarpsins meðal frjálsra félagasamtaka, en við það var þó miðað við gerð þess að löggjöfin yrði ekki íþyngjandi og möguleiki félaganna til að ákvarða innra skipulag sitt yrði ekki þrengdur.

Sex manna starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er nú að skoða hvort skattalegar ívilnanir geti hvatt einstaklinga og fyrirtæki til að styrkja félög sem falla undir þriðja geirann. Dæmi um félög sem gætu notið góðs af mögulegum breytingum eru björgunarsveitir, íþróttafélög og mannúðarsamtök. Annað markmið með vinnunni er að stuðla að auknu samræmi starfseminnar við sambærilega starfsemi í nágrannaríkjum okkar. Innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur farið fram grunnskoðun á þessum þætti. Komið hefur í ljós að í ákveðnum tilvikum eru skattundanþágur víðtækari fyrir starfsemi sem fellur undir þriðja geirann í nágrannaríkjum okkar heldur en hér á landi. Sem dæmi má nefna að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru undanþágur til staðar vegna fjármagnstekna og gjafa frá einstaklingum til góðgerðarfélaga. Þá liggur jafnframt fyrir að regluverk er varðar skattlagningu á starfsemi sem fellur undir þriðja geirann hefur í grunninn staðið óbreytt í langan tíma.

Við það er miðað að starfshópurinn skili tillögum sínum fyrir 15. júní næstkomandi.

Stjórnendanám í HR

Í haust býður Háskólinn í Reykjavík upp á nám fyrir stjórnendur í þriðja geiranum. Námslínan hóf göngu sína haustið 2017 og er nú haldin í annað sinn. Linda Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri hjá HR, segir að námið hafi heppnast vel og mælst vel fyrir hjá þátttakendum sem allir voru stjórnendur innan þriðja geirans, ýmist frá stórum eða litlum félögum.

„Það sem þeim þótti ekki síst verðmætt var tengslamyndunin á meðan á náminu stóð, auk þess sem þau voru sammála okkur um að þörf væri fyrir svona sérhæft stjórnendanám,“ segir Linda. Hún segir námið henta stjórnendum félaga- og sjálfseignarstofnana, bæði nýjum og þeim reyndari, jafnt frá smáum sem stórum félögum. Kennslan byggist að miklu leyti á hagnýtum verkefnum úr þriðja geiranum. Áhersla er lögð á persónulega þróun þátttakenda með það að leiðarljósi að efla og styrkja stjórnendur til að takast á við áskoranir sem oft eru ólíkar þeim sem stjórnendur á almennum vinnumarkaði standa frammi fyrir.

Frumkvæði að náminu kom frá Almannaheillum í því skyni að efla starf félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða. Samtökin telja ýmsar áskoranir felast í að stjórna slíkum félögum sem ekki finnast í hagnaðardrifnum fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Til að mynda er fjármögnun með öðrum hætti, viðskiptavinir eru aðrir og það að stýra hópi sjálfboðaliða kallar á annars konar mannauðsstjórnun.

Fundið að frumvarpi

Umsagnir sem borist hafa Alþingi vegna frumvarps um félög til almannaheilla eru yfirleitt jákvæðar, en flestir gera þó einhverjar efnislegar athugasemdir. Umsögn SÍBS sker sig úr. Það vill að frumvarpið verði dregið til baka og fari til gagngerrar endurskoðunar í ráðuneytinu. SÍBS telur sérstök lög af þessu tagi óþörf, íþyngjandi og yfirstýrandi og til þess fallin að bregða fæti fyrir starfsemi félaga sem ekki ráða við strangar formkröfur laganna. Þá kemur fram í umsögn SÍBS að félagið Almannaheill tali ekki fyrir þann yfirgnæfandi meirihluta frjálsra félagasamtaka sem ekki eru aðilar að Almannaheillum.