Fyrrverandi forstjóri Englandsbanka segir ríki evrusvæðisins milli steins og sleggju

Þegar evran varð til var pólitíkin látin ráða för og efnahagslegur veruleiki mætti afgangi. Þetta hefur í raun blasað við frá upphafi þótt reynt hafi verið að horfa fram hjá því eins og oft er þegar óþægilegt er að gangast við hinu augljósa.

Sumir eru þó tilbúnir að segja hlutina eins og þeir eru. Það á við um Mervyn King, fyrrverandi bankastjóra Englandsbanka, sem í fyrradag kom fram á fundi viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og Samtaka sparifjáreigenda og sagði að tilurð evrusvæðisins hefði verið algerlega ótímabær.

Þar sagði King eins og fram kom í frásögn Morgunblaðsins af fundinum í gær að hann þekkti ekki nein dæmi í sögunni um myntbandalag sem hefði lifað af án þess að hafa orðið að einu ríki og bætti við að væri ekki vilji til að taka það skref væri betur heima setið.

King sagði enn fremur að áhrifafólk í Evrópusambandinu hefði gert sér fulla grein fyrir að evrusvæðið væri ávísun á vandamál. Þau myndu á endanum leiða til efnahagskreppu, sem hins vegar myndi neyða ráðamenn innan sambandsins til að fara alla leið og breyta því í eitt ríki.

„Þeir trúa þessu ennþá, þeir trúa því enn að Þýskaland verði aldrei reiðubúið til að láta myntbandalagið hrynja og að lokum muni þýskir kjósendur neyðast til þess að niðurgreiða skuldir [evru-]ríkja í suðrinu,“ var haft eftir King í fréttinni. Bætti King við að það hefði verið ábyrgðarlaust að setja myntbandalag á laggirnar án sameiginlegra ríkisfjármála.

Síðan segir í endursögninni af máli Kings: „Þetta hefði meðal annars leitt til þeirra efnahaglegu erfiðleika sem Grikkir hefðu þurft að takast á við, sem hefðu verið jafnvel verri en efnahagskreppan á fjórða áratug síðustu aldar. Það væri hneyksli að hans áliti. Ríki evrusvæðisins væru á milli steins og sleggju. Þau legðu ekki í að yfirgefa evrusvæðið, þótt það væri misheppnað, og ekki væri heldur nægur vilji til þess að taka skrefið í átt að sameiginlegum fjármálum. „Þau eru algerlega föst þar sem þau eru.“

King sagði ekki hægt að fara út í „ævintýri“ eins og evrusvæðið án þess að vera heiðarlegur við kjósendur og tjá þeim hvað því myndi fylgja. Ekki hefði verið heiðarlegt að segja kjósendum að ekkert neikvætt fylgdi evrusvæðinu og ekki þyrfti að hafa neinar áhyggjur.“

Það er óvenjulegt að svo tæpitungulaust sé talað um evruna og pólitíkina á bak við hana. Sú spurning vaknar hvers vegna hér á landi finnast enn stjórnmálamenn, sem tilbúnir eru að fara út í „ævintýri“ eins og evrusvæðið án þess að vera heiðarlegir við kjósendur og tjá þeim hvað því myndi fylgja.