Verðlaunahafar Andri Freyr og Helgi Seljan.
Verðlaunahafar Andri Freyr og Helgi Seljan. — Morgunblaðið/Kristinn
Það eru liðin allt of mörg ár síðan Íslendingar voru af alvöru með í Eurovisionpartýi á fögru laugardagsvorkvöldi.

Það eru liðin allt of mörg ár síðan Íslendingar voru af alvöru með í Eurovisionpartýi á fögru laugardagsvorkvöldi. Ég treysti Hataraliðum fullkomlega til að bæta úr þessu á þriðjudag og syngja sig inn í hjörtu fólks um alla Evrópu, eins og þeir hafa heillað jafnt leikskólabörn sem gamalmenni um allt land.

Síðustu ár hefur eini fulltrúi Íslands á aðalkvöldi keppninnar verið sá aðili sem sér um að lesa upp stigin sem við gefum. Ég veit ekki hver fær þetta hlutverk í ár en ég veit að RÚV á innan sinna raða fullkominn kandídat í verkið. Ég er að sjálfsögðu að tala um Andra Frey Hilmarsson, stjörnusjónvarpsmann úr Með okkar augum , gangandi alfræðiorðabók um Eurovision og mikinn aðdáanda keppninnar, annálaðan húmorista og mann sem nýtur sín vel í sviðsljósinu.

Ég skora á Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra að sýna Andra þann heiður að velja hann, ef ekki nú, þá á næsta ári. Ég er þess handviss að Andri væri rétt val. Ég þekki hann og hef fengið að kynnast þekkingu hans og ástríðu fyrir Eurovision frá fyrstu hendi. Ef ég vil til dæmis vita hvaða þjóðir gáfu Íslandi 12 stig í keppninni árið 1990 þá get ég bara spurt Andra. Ef ég vil hins vegar vita hvaða land hann telur að vinni keppnina í ár þá fæ ég eflaust sama svar og öll önnur ár; Ísland. Hver veit nema Andri hafi að þessu sinni rétt fyrir sér hvað þetta varðar?

Sindri Sverrisson