Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson
Eftir Sturlu Böðvarsson: "Það er óforsvaranlegt að samþykkja þriðja orkupakkann án þess að það liggi fyrir hvað gerist á orkumarkaði á Íslandi þegar sæstrengur hefur verið lagður og orkusalan hefst."

Á fyrsta kjörtímabili mínu sem alþingismaður tók ég þátt í að fjalla um og samþykkja EES-samninginn og þá löggjöf sem honum fylgdi og var afgreidd árið 1993. Í lögunum segir m.a.: Samningsaðilar; eru sannfærðir um að Evrópskt efnahagssvæði muni stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda.

Strax í upphafi hafði ég sterka sannfæringu fyrir því að þetta samstarf væri okkur Íslendingum mikilvægt. Og í ljósi þess að við héldum fullkomnum yfirráðum yfir auðlindum hafsins innan fiskveiðilögsögu okkar var enginn vafi í mínum huga að samstarfið við þessar vinaþjóðir okkar væri besti kostur okkar. Betri kostur en aðild að Evrópusambandinu sem vissulega hefur komið í ljós.

Þróunin innan Evrópusamstarfsins hefur valdið vorbrigðum og væntanleg útganga Breta kallar fram spurningar og veldur mikilli tortryggni gagnvart Evrópusamstarfinu. Ofurvald stórþjóðanna svo sem Þjóðverja og Frakka innan EES gagnvart fámennari þjóðunum virðist ganga úr hófi.

Umræðan á Alþingi og um allt samfélagið síðustu vikur um svokallaðan þriðja orkupakka hefur verið mögnuð. Þessi þriðji orkupakki leggur tilteknar skyldur á okkar herðar og færir okkur vonandi einhver réttindi í samstarfi þjóðanna. En þessi umfjöllun hefur magnað upp óánægju sem ekki sér fyrir endann á. Það hefur ekki auðveldað jákvæða afstöðu til málsins af minni hálfu að verða þess var að forsvarsmenn Samfylkingar og Viðreisnar leggja ofuráherslu á að samþykkja þriðja orkupakkann án nokkurs fyrirvara. Þeir flokkar stefna bæði leynt og ljóst að inngöngu í Evrópusambandið gefist færi til þess. Það er því rík ástæða til þess að fara að öllu með gát og tryggja hagsmuni okkar svo sem var gert svo vel árið 1993 og þá ekki síst hvað varðar fiskveiðar og sjávarauðlindina sem við eigum og ráðum yfir.

Nýting orkulinda okkar hefur gefist vel og er okkur mikilvæg. Orkupakkanum er ætlað að setja okkur reglur hvað varðar vinnslu og dreifingu raforku og þá væntanlega í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni neytenda á grundvelli hins frjálsa markaðar.

Ef okkur tekst að halda áfram að byggja upp orkufyrirtækin og þá einkum hjá Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða með virkjun vatnsafls, virkjun jarðvarma, virkjun vindorku og virkjun sjávarfalla munu líkurnar aukast á því að það verði okkur hagfellt að selja raforkuna um sæstreng til nálægra landa. Því er það mikilvægast fyrir okkur að tryggja hagsmuni okkar þegar sæstrengur hefur verið lagður. Það er óforsvaranlegt að samþykkja þriðja orkupakkann án þess að það liggi fyrir hvað gerist á orkumarkaði á Íslandi þegar sæstrengur hefur verið lagður og orkusalan hefst. Það hefur eitt og sér engan tilgang að við ráðum því hvort sæstrengur verði lagður ef orkumarkaðsmálin verða um leið tekin úr okkar höndum þegar sala hefst um sæstreng. Þessari spurningu verða ráðherrar að svara áður en lengra verður haldið enda virðist Landsvirkjun gera ráð fyrir lagningu sæstrengs svo sem sjá má á heimasíðu félagsins.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður, ráðherra, forseti Alþingis og bæjarstjóri sturla@sturla.is