Vapen Meðal sýninga í Safnasafni eru málverk eftir Valdimar Bjarnfreðsson (1932-2018) sem kallaði sig Vapen.
Vapen Meðal sýninga í Safnasafni eru málverk eftir Valdimar Bjarnfreðsson (1932-2018) sem kallaði sig Vapen.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumarsýningar safnasafnsins í Eyjafirði verða opnaðar í dag, laugardag, klukkan 14. Safnið stendur við þjóðveginn fyrir ofan Svalbarðseyri og tekur tignarlegur rúmlega fimm metra hár bláklæddur safnvörður þar á móti gestum og vísar veginn inn á safnið.

Sumarsýningar safnasafnsins í Eyjafirði verða opnaðar í dag, laugardag, klukkan 14. Safnið stendur við þjóðveginn fyrir ofan Svalbarðseyri og tekur tignarlegur rúmlega fimm metra hár bláklæddur safnvörður þar á móti gestum og vísar veginn inn á safnið. Innan dyra eru björt og falleg rými þar sem gestir geta notið listsýninga eftir lærða og leika listamenn; þar fléttast saman nútímalist, alþýðulist og handverk.

Stofnendur Safnasafnsins, Níels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir, hafa í rúm 30 ár safnað af ástríðu verkum helstu alþýðulistamanna landsins, listamanna sem af ýmsum ástæðum hafa verið á jaðrinum eða utanveltu við meginstrauma, stundum kallaðir næfir eða einfarar í myndlistinni, en eru í reynd beintengdir sköpunarverkinu; sannir, óspilltir og frjálsir.

Kíkó Korríró-stofan

Nú eru tólf ár síðan Safnasafnið var opnað í núverandi mynd en tuttugu og fjögur ár síðan það var stofnað. Auk hinna árlegu sumarsýninga sem nú verða opnaðar koma í sumar út þrjú rit á vegum safnsins. Eitt er um Þórð Valdimarsson eða Kíkó Korriró sem var listamannsnafn hans en svokölluð Kíkó Korriró-stofa var stofnuð á safninu eftir að safnið fékk 120.000 verk eftir Þórð „sem bjó lengi í Hollywood og var þar í kreðsum með Hollywood-stjörnum og litríku mannlífi“, eins og segir í tilkynningu frá safninu.

Í tengslum við sýninguna Fuglar sem er sýning á 360 fuglum í eigu safnsins hefur Safnasafnið gefið út nýja sýnisbók úr safneign, Sýnisbók III , þar sem sjá má úrval verka frá sýningunni og úr safneign. Þriðja útgáfan byggist á erindum og hugleiðingum þátttakenda í málþinginu „Frá jaðri að miðju: Þróun íslenskrar alþýðulistar og staða hennar í dag“.

Ólíkar sýningar

Fjöldi starfandi listamanna sýnir eða á verk í safninu í ár, auk verka eftir lista- og handverksmenn sem fallnir eru frá. Meðal sýnenda eru Eygló Harðardóttir, sem nýverið var valin Myndlistarmaður ársins, og Atli Már Indriðason, listamaður Listar án landamæra 2019.

Sýndar verða klippimyndir eftir Kíkó Korriró og ljósmyndir sem voru teknar af Þórði þegar hann dvaldi ungur maður í Los Angeles og hitti nokkrar af þekktustu kvikmyndastjörnum þess tíma. Sýnd verða málverk eftir Valdimar Bjarnfreðsson sem kallaði sig Vapen, var óvenjulegur myndlistarmaður og lést fyrir skömmu. Við myndsköpun sína beitti hann sömu aðferðum og þegar spáð er í bolla. Hann hélt yfir tug málverkasýninga og bar ein þeirra heitið „Kaffibollinn er mitt Internet“.

Magnhildur Sigurðardóttir sýnir upphlut sem hún saumaði samkvæmt hugmynd sem Sigurður Guðmundsson málari kynnti árið 1870. Rúna Þorkelsdóttir sýnir fataefni sem unnið var í samvinnu við hönnuðinn Tao Kurihara hjá tískuhúsinu Comme des Garcons en efnin eru unnin út frá bókverkinu Paperflowers eftir Rúnu og þá verða sýnd leirverk eftir ókunna höfunda, gerð á vinnustofu Kleppsspítala á árunum 1980 til 1983.

Myndlistarmennirnir Auður Lóa Guðnadóttir og Steingrímur Eyfjörð hafa líka sett upp sýningar.

Safnasafnið er opið alla daga í sumar, til 1. september.