Bréfritari hefur að líkindum ekki verið mikið í poppinu fyrir hálfri öld.
Bréfritari hefur að líkindum ekki verið mikið í poppinu fyrir hálfri öld. — Morgunblaðið/Þorkell
„Hvað þetta pop eða popp þýðir, veit ég ekki,“ segir Halldór Pétursson í bréfi til Velvakanda í maí 1969 en tilefnið virðist hafa verið svokallaðar poppmessur sem þá voru farnar að tíðkast.

„Hvað þetta pop eða popp þýðir, veit ég ekki,“ segir Halldór Pétursson í bréfi til Velvakanda í maí 1969 en tilefnið virðist hafa verið svokallaðar poppmessur sem þá voru farnar að tíðkast. „Nú síðan velmegun okkar breyttist í ládeyðu hafa börn og unglingar keypt svonefnt popp í stað sælgætis. Þetta er í rauninni hænsnamatur, en ekki má skilja þetta svo að nýr Hænsna-Þórir sé risinn meðal vor í kennimannastétt,“ hélt Halldór áfram og skipti nokkuð um gír.

Og áfram reit hann : „Heyrzt hefur að þessi popalda sé að einhverju runnin frá hópi þeirra sem sendir eru til Ameríku í stórum stíl til að skipta um skyn í þeim. Þetta er samstofna við það að ekki má nú leggja vegarspotta nema skipta um jarðveg og ekki einungis það, heldur og klöpp. Ég geng þess ekki dulinn að við getum margt gott lært af Ameríkönum, en komi til þess að alveg þurfi að skipta um skyn í okkur þá verðum við líka að taka til athugunar okkar gamla og góða orð skynskiptingur.“

Loks fengu klerkar kaldar kveðjur:

„Sjái einhverjir prestar ekki aðra leið til sáluhjálpar en bumbur, merkisspjöld eða bítlaskræki, þá held ég að þeir ættu að skipta um starf.“