Christina Applegate og Linda Cardellini eiga í óvenjulegu vinkonusambandi í Dead to Me.
Christina Applegate og Linda Cardellini eiga í óvenjulegu vinkonusambandi í Dead to Me. — Netflix
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í hinu biksvarta spédrama Dead to Me stofna tvær konur til vináttu á óvenjulegum og stórhættulegum forsendum. Önnur veit svolítið voðalegt sem hin má alls ekki komast að. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Hvað tekur maður til bragðs ef maður ekur óvart yfir mann og verður honum að bana? Jú, vingast strax að útför lokinni við ekkjuna og flytur svo inn til hennar til að liðsinna henni og veita henni sáluhjálp. Án þess að hana gruni nokkurn skapaðan hlut. Tja, alltént ef veruleikinn er bandaríska spédramað Dead to Me, sem kom inn á efnisveituna Netflix fyrr í mánuðinum.

Judy verður fyrir þeirri ógæfu á biksvörtu síðkvöldi að aka yfir bláókunnugan mann. Hann deyr en í stað þess að gera lögreglu viðvart láta Judy og unnusti hennar, Steve, sig hverfa af vettvangi og koma löskuðum bílnum fyrir í geymslu.

Samband þeirra þolir ekki álagið og samviskan nagar Judy með þeim afleiðingum að hún sólgleraugar sig upp og mætir í útför fórnarlambsins. Því næst nálgast hún ekkjuna; Jen, í gegnum stuðningshóp fyrir syrgjendur. Villir raunar á sér heimildir til að byrja með; kveðst líka hafa misst eiginmann sinn fyrir skemmstu. Jen afhjúpar þá lygi fljótt en er áfram í myrkrinu varðandi dauða ástkærs eiginmanns síns. Judy á hins vegar nokkur fósturlát að baki og fyrir vikið kennir Jen í brjósti um hana. Þrátt fyrir að bjóða sinni nýju vinkonu að búa hjá sér, en hún er á hrakhólum eftir að lagaspaðinn Steve henti henni út, er Jen kaldhæðin og hrjúf á yfirborðinu og þráir ekkert heitar en að ganga milli bols og höfuðs á manneskjunni sem varð bónda hennar að bana. Hann reynist þó ekki hafa verið allur þar sem hann var séður sem er vatn á myllu Judy enda býður henni í grun að farið hafi fé betra.

Inn í söguna fléttast líka tveir ungir synir Jen, téður Steve, samkynhneigður samstarfsmaður Jen í fasteignabransanum og tengdamóðir hennar en eins og lög gera ráð fyrir eiga þær alls ekki skap saman. Vægt til orða tekið.

Höfundur þáttanna er Liz Feldman, sem meðal annars er þekkt fyrir gamanleik og uppistand, og hún framleiðir þá einnig, ásamt Will Ferrell og fleirum.

Samband sem hreyfir við manni

Með aðalhlutverkin fara Christina Applegate, sem leikur Jen, og Linda Cardellini, sem leikur Judy. James Marsden leikur Steve, Valerie Mahaffey túlkar tengdamóðurina og gamla kempan Ed Asner leikur mann á elliheimilinu sem Judy starfar á sem ber hagsmuni hennar fyrir brjósti. Hann verður níræður í haust, kappinn. Af aukaleikurum má nefna Steve Howey, sem þekktur er fyrir túlkun sína á Kevin í öðru spédrama, Shameless.

Þátturinn hefur gegnumsneitt fengið góða dóma. „Dead to Me rís ekki alltaf undir gálgahúmornum sem þátturinn lofar en hið magnaða tvíeyki Christina Applegate og Linda Cardellini lyftir þáttunum. Samband þeirra, sem byggist á sameiginlegri sorg, hreyfir virkilega við manni,“ segir í umsögn Rotten Tomatoes.