[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er nýbúinn með bókina Hinir útvöldu eftir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing, fróðlega lesningu um baráttu íslensku þjóðarinnar til sjálfstæðis.

Ég er nýbúinn með bókina Hinir útvöldu eftir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing, fróðlega lesningu um baráttu íslensku þjóðarinnar til sjálfstæðis. Þar er áhugaverð innsýn í stjórnmál og mannlíf hér fyrir 100 árum og hægt að spá í hvað sé líkt og ólíkt með fólki við breyttar aðstæður nú miðað við þá. Þetta minnir á þungan róður við að öðlast sjálfstæði sem kannski gæti svo auðveldlega glatast.

Ég er að lesa Hornauga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur, sem er framhald Tvísögu um flækjur í ættum hennar. Ásdís leitar og finnur svör við áleitnum spurningum og sviptir hulu af fjölskylduleyndarmálum. Þetta er skýr og lærdómsrík frásögn af mannlegum samskiptum þar sem höfundur hlífir hvorki sjálfri sér né öðrum við sannleiksást sinni en reynir samt að gæta sanngirni.

Svo er ég að stúdera klíníska dáleiðslu í bókunum Transwork; Taking Hypnosis to the Next Level ; og Treating Depression with Hypnosis eftir hinn meistarann og Íslandsvininn dr. Michael Yapko sálfræðing. Klínísk dáleiðsla heillar mig og sérstaklega það hvernig hún virkar á ýmsan vanda, t.d. þunglyndi, áfallastreitu, svefnleysi og líkamlega verki. Þetta tæki hjálpar fólki að ná sérstakri einbeitingu sem gerir því kleift að breyta minningum sínum og líðan til hins betra. Í þeim efnum getur ýmislegt komið á óvart.