Þau bestu Helena Sverrisdóttir og Kristófer Acox með verðlaunagripina.
Þau bestu Helena Sverrisdóttir og Kristófer Acox með verðlaunagripina. — Morgunblaðið/Gummi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Annað árið í röð urðu þau Helena Sverrisdóttir og Kristófer Acox fyrir valinu sem bestu leikmenn úrvalsdeildanna í körfubolta.

Körfubolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Annað árið í röð urðu þau Helena Sverrisdóttir og Kristófer Acox fyrir valinu sem bestu leikmenn úrvalsdeildanna í körfubolta. Tilkynnt var um kjörið á verðlaunahófi KKÍ í gær en atkvæðisrétt hafa þjálfari, fyrirliði og formaður hvers félags. Rétt er að taka fram að kjörið fer fram að úrslitakeppni lokinni og tekur til alls tímabilsins, en ekki bara deildakeppninnar eins og fyrirkomulagið var fyrir nokkrum árum.

Helena er annar leikmaðurinn í sögu Vals sem verður fyrir valinu sem sú besta í úrvalsdeildinni, en í ár vann liðið fyrstu þrjá titla sína. Signý Hermannsdóttir var valin árið 2009. Þetta er í sjötta sinn sem Helena er valin best en hin fimm skiptin var hún leikmaður Hauka.

Kristófer hlýtur nú nafnbótina í annað sinn og er þetta þriðja árið í röð þar sem sá besti kemur úr röðum KR. Jón Arnór Stefánsson var valinn 2017. Alls hafa KR-ingar 13 sinnum orðið fyrir valinu frá árinu 1968 þegar fyrst var ákveðið að veita viðurkenningu þeim leikmanni sem staðið hefði upp úr í deildinni.

Kristófer er að sjálfsögðu í úrvalsliði Dominos-deildar karla en þar er hann eini fulltrúinn úr Íslandsmeistaraliði KR. Erlendir leikmenn koma ekki til greina í lið ársins en besti erlendi leikmaðurinn var kjörinn Julian Boyd úr KR. Matthías Orri Sigurðarson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson úr ÍR eru með Kristófer í úrvalsliðinu, sem og Stjörnumennirnir Ægir Þór Steinarsson og Hlynur Bæringsson. Hlynur hefur nú tíu sinnum verið valinn í úrvalslið ársins á Íslandi, þrátt fyrir að hafa spilað í Svíþjóð árin 2010-2016. Besti þjálfarinn var valinn Borche Ilievski sem óvænt stýrði ÍR í úrslitaeinvígið. Ægir var valinn besti varnarmaður sem og prúðasti leikmaðurinn.

Í úrvalsliði Dominos-deildar kvenna er Helena eini fulltrúi meistara Vals. Með henni eru þær Þóra Kristín Jónsdóttir úr Haukum, Gunnhildur Gunnarsdóttir úr Snæfelli, Bríet Sif Hinriksdóttir úr Stjörnunni og Bryndís Guðmundsdóttir úr Keflavík. Bryndís hefur sjö sinnum áður verið í úrvalsliðinu, Helena fimm sinnum, Gunnhildur tvisvar og Þóra einu sinni, en þetta er í fyrsta sinn sem Bríet er valin.

Brittanny Dinkins úr Keflavík var valin besti erlendi leikmaðurinn og Auður Íris Ólafsdóttir úr Stjörnunni var valin besti varnarmaðurinn. Besti þjálfarinn var valinn Benedikt Guðmundsson sem stýrði nýliðum KR inn í úrslitakeppnina þar sem liðið féll út í undanúrslitum gegn meisturum Vals, 3:1. Þóra Kristín var valin prúðasti leikmaðurinn.

Bestu ungu leikmenn deildanna voru þau Birna Valgerður Benónýsdóttir úr Keflavík og Hilmar Smári Henningsson úr Haukum. Í því vali komu til greina leikmenn sem fæddir eru árið 2000 eða síðar. Þess má til gamans geta að Birna var einnig valin besti ungi leikmaðurinn fyrir tveimur árum, en hún er 18 ára gömul líkt og Hilmar.

Besti dómari deildanna var valinn Sigmundur Már Herbertsson, fimmta árið í röð, en hann hefur nú hlotið nafnbótina alls 13 sinnum.