Jean-Claude Arnault
Jean-Claude Arnault
Hæstiréttur Svíþjóðar ákvað í vikunni að synja Jean-Claude Arnault um áfrýjunarheimild vegna dóms sem hann hlaut á síðasta ári.
Hæstiréttur Svíþjóðar ákvað í vikunni að synja Jean-Claude Arnault um áfrýjunarheimild vegna dóms sem hann hlaut á síðasta ári. Arnault, sem kvæntur er Katarinu Frostenson sem um árabil sat í Sænsku akademíunni, var í október dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Hann áfrýjaði þeim dómi til Hirðréttarins í Svíþjóð (sambærilegur við Landsrétt hérlendis) sem í desember þyngdi dóminn í tvö og hálft ár. Í tilkynningu frá réttinum, sem Sænska ríkisútvarpi greinir frá, kemur fram að Hæstiréttur hafi yfirfarið öll gögn málsins og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru nein lagaleg álitaefni sem gæfu tilefni til áfrýjunarheimildar. Synjun Hæstaréttar þýðir að dómur Hirðréttarins er endanlegur. Sama dag og niðurstaða Hæstaréttar var opinberuð upplýsti Expressen að Karl XVI. Gústaf Svíakonungur, hefði ákveðið að svipta Arnault Norðurstjörnuorðunni sem hann hlaut 2015, en orðan er virðulegasta heiðursmerki sem erlendum ríkisborgara getur hlotnast í Svíþjóð. Ríkismarskálkur staðfestir að Arnault hafi verið sviptur orðunni vegna nauðgunardómsins.