Kristófer Acox vonast til að spila körfubolta eins lengi og líkaminn leyfir.
Kristófer Acox vonast til að spila körfubolta eins lengi og líkaminn leyfir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni, segir máltækið. Það var þó alls ekki sjálfgefið að Kristófer Acox legði fyrir sig körfubolta eins og faðir hans, Terry, enda hafði hann lengi vel mun meiri áhuga á knattspyrnu.

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni, segir máltækið. Það var þó alls ekki sjálfgefið að Kristófer Acox legði fyrir sig körfubolta eins og faðir hans, Terry, enda hafði hann lengi vel mun meiri áhuga á knattspyrnu.

KR-ingar sáu þó möguleikana og Kristófer sér ekki eftir að hafa valið körfuna. Hann ólst upp í góðu yfirlæti hjá móður sinni og ömmu í Vesturbænum og hitti föður sinn ekki fyrr en hann var á fimmtánda ári. Hlýtt er milli þeirra feðga í dag. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Kristófer Acox er afslappaður þegar hann gengur í átt að kaffihúsinu, þar sem við höfum mælt okkur mót, og svei mér ef sólin fylgir honum ekki alla leið inn á gólfið. Skyldi engan undra; hann er nýbúinn að fagna enn einum Íslandsmeistaratitlinum í körfuknattleik með KR og kominn í sumarfrí. Skammt er þó stórra högga á milli. „Við erum komnir í frí frá æfingum hjá KR og náðum að fagna aðeins eftir langa og stranga törn á laugardagskvöldið. Það þýðir þó ekki að maður geti tekið það rólega; á sumrin taka venjulega við verkefni með landsliðinu,“ upplýsir hann og tekur niður sólgleraugun.

Talið berst að vonum fyrst að Íslandsmeistaratitlinum, þeim þriðja í röð hjá Kristófer og sjötta í röð hjá KR. Spurður hvort þessi sé sá sætasti svarar hann: „Fyrir mig persónulega verður erfitt að toppa titilinn í fyrra en þá var ég með allt tímabilið og gekk mjög vel. Núna kom ég heim á miðju tímabili eftir að hafa verið til skamms tíma hjá liði í Frakklandi. Liðið var svolítið breytt frá fyrra ári og allir á móti okkur; við áttum ekki að vinna þennan titil. Það eru bara KR-ingar sem halda með KR og margir eflaust orðnir þreyttir á því að horfa alltaf á sama liðið vinna. Lengi vel leit líka fátt út fyrir að við myndum vinna; við vorum í basli í vetur og önnur lið að spila betur í deildarkeppninni. En úrslitakeppnin er annað mót og við vitum alltaf að við eigum séns þegar byrjar að vora. Þá kikkar KR-gírinn venjulega inn. Þess vegna var þetta auðvitað voðalega ljúft.“

Gerist varla aftur í bráð

Þess má geta að sex titlar í röð er met í körfubolta á Íslandi en metið í boltaíþrótt á kvennalið Fram í handbolta sem varð Íslandsmeistari sjö ár í röð frá 1984 til 1990. Kristófer er meðvitaður um að árangur liðsins er einstakur. „Ég held að þetta muni ekki gerast aftur, að sama liðið vinni sex ár í röð. Alla vega ekki næstu áratugina. Þetta er rosalegt afrek og ég held að fáir hafi látið sig dreyma um þetta síðasta haust.“

Að sögn Kristófers er sérstaklega ánægjulegt að liðið sé nær eingöngu skipað KR-ingum, fyrir utan erlendu leikmennina. Sama máli gegni um þjálfara og aðra í kringum liðið. „Það getur enginn haldið því fram að þetta sé aðkeypt lið eins og stundum þegar góður árangur næst. Það eyddu mörg lið peningum í vetur til að freista þess að velta okkur úr sessi – en án árangurs.“

Tímabilið var um margt óvenjulegt; KR hafnaði í fimmta sæti í deildarkeppninni og mætti ÍR, sem lenti í sjöunda sæti, í úrslitum. „Þrátt fyrir að lenda í fimmta sæti vorum við með heimaleikjaréttinn bæði í undanúrslitunum og úrslitunum sem við hefðum aldrei þorað að vona. Þökk sé óvæntum árangri ÍR og Þórs Þorlákshöfn. Þetta var algjört öskubuskuævintýri hjá ÍR og við þurftum að hafa verulega mikið fyrir sigrinum; þeir unnu okkur til dæmis tvisvar á heimavelli. ÍR-ingarnir fóru mjög erfiða leið í úrslit, gegnum bæði Njarðvík og Stjörnuna, sem margir spáðu titlinum. Þeir geta verið mjög stoltir af sinni frammistöðu. Á endanum var það góður andi og sterk liðsheild sem skilaði okkur alla leið. Þetta er ótrúlega þéttur og samheldinn hópur hjá KR. Við erum flestir mjög góðir vinir.“

Vináttan gleymist á vellinum

Og Kristófer á vini víðar en einn af lykilmönnum ÍR, Matthías Orri Sigurðarson, er æskuvinur hans og fyrrverandi samherji úr KR. „Það var gaman að sjá hvað Matti stóð sig vel í vetur eftir að hafa náð sér af erfiðum meiðslum. Hann er algjör lykilmaður í ÍR-liðinu og ég er mjög stoltur af honum. Meðan á leikjunum stendur gleymist sú vinátta hins vegar um stund; allt sem kemst að er að vinna.“

Hann brosir.

Fyrsti þjálfari Kristófers í körfubolta var raunar faðir Matthíasar Orra, Sigurður Hjörleifsson. „Ég byrjaði seint í körfunni, fór ekki að æfa af neinni alvöru fyrr en ég var orðinn fjórtán eða fimmtán ára og þá var það Siggi Hjörleifs sem þjálfaði mig. Það má segja að hann og Ingi Þór [Steinþórsson, núverandi þjálfari meistaraflokks KR] hafi dregið mig yfir í körfuna úr fótboltanum sem átti hug minn og hjarta fram að því. Ég hafði miklu meiri áhuga á fótbolta og þar voru vinir mínir; ég þekkti engan sem æfði körfubolta.“

Í eitt til tvö ár var Kristófer á fullu í bæði fótbolta og körfubolta en að því kom að hann þurfti að velja á milli greinanna. „Æfingaálagið er það mikið að það er vonlaust að vera í báðum greinum til lengri tíma. Valið var erfitt enda var ég á sama tíma í landsliðsúrtaki bæði í körfu og fótbolta. Ég var valinn í lokahóp í körfunni fyrir U-15 og ætli það hafi ekki gert útslagið. Þá áttaði ég mig á því að möguleikarnir á að ná langt væru líklega meiri í körfunni. Ég sé ekki eftir því vali.“

– Hvaða stöðu spilaðir þú í fótbolta?

„Ég var sóknarmaður.“

– Target senter?

„Já, eða meira svona sláni. Ég var ofboðslega langur og mjór á þessum tíma, svona Peter Crouch-týpa.“

Hann skellir upp úr.

„Það hefði auðvitað verið gaman að láta á það reyna hversu langt ég hefði getað komist í fótboltanum en það þýðir ekkert að velta sér upp úr því. Ég hef ennþá mjög gaman af því að spila fótbolta og fer mikið í bumbubolta með félögunum á sumrin, þegar ég er í fríi frá körfunni. Ég á hins vegar erfiðara með að horfa á fótbolta. Ég er Chelsea-maður en horfi sjaldan á leiki með þeim; það eru helst stórmótin, HM og EM, sem höfða til mín.“

Ólst upp hjá einstæðri móður

Faðir Kristófers, Terry Acox, var körfuboltamaður sem lék um tíma hér á landi með ÍA og það var einmitt á Akranesi sem hann kynntist móður Kristófers, Ednu Maríu Jacobsen. „Mamma var við nám í framhaldsskólanum á Akranesi og þau pabbi voru til skamms tíma par. Hann var hins vegar farinn að spila erlendis þegar ég fæddist og þau hætt saman. Mamma sá hins vegar alltaf til þess að hann fylgdist með mér, sendi honum myndir og annað slíkt, en að öðru leyti hafði ég ekkert af honum að segja fyrstu árin.“

Kristófer er einkabarn móður sinnar og hvíldi uppeldið á henni og ömmu hans. „Samband okkar mömmu er ofboðslega náið og sama máli gegnir um ömmu sem bjó um tíma hjá okkur. Þær bera alla ábyrgð á uppeldi mínu. Ég hafði það mjög gott í æsku og er þeim óendanlega þakklátur.“

– Þannig að konur hafa haft mikil áhrif á þig?

„Já, það er óhætt að segja það. Og það til góðs. Þegar ég var að byrja í fótboltanum hafði ég meira að segja kvenkyns þjálfara um tíma. Þannig að ég er mótaður heilmikið af konum.“

– Skorti þig aldrei föðurímynd?

„Nei, ég get ekki sagt það. Ég man alla vega ekki eftir að hafa pælt sérstaklega í því fyrstu árin og svo kom pabbi auðvitað inn í líf mitt þegar ég var unglingur. Mér leið vel og fannst ekkert vanta.“

Stál í stál

Kristófer var á fimmtánda ári þegar hann hitti föður sinn fyrst. Hann fór þá í körfuboltabúðir í Boston í Bandaríkjunum ásamt Matthíasi Orra vini sínum og hélt að því loknu til Norður-Karólínu, þar sem fjölskylda Matthíasar ætlaði að dveljast í fríi „Pabbi býr í Suður-Karólínu og ákveðið var að hann kæmi að sækja mig. Hann mætti með alla familíuna og þau tóku á móti mér með blöðrum og látum. Ógleymanleg stund.“

Terry á fjórar dætur, tvær með núverandi eiginkonu sinni og tvær af fyrri samböndum; allar nema ein eru þær yngri en Kristófer. „Ég er ekki í miklu sambandi við systur mínar en hitti þær þegar ég er í Bandaríkjunum.“

Feðgarnir náðu strax vel saman og árið 2010 fór Kristófer utan og bjó í heilan vetur hjá föður sínum og stundaði nám í „high school“. Það var athyglisverð reynsla. „Amma hafði svolitlar áhyggjur af þessu en mamma var rólegri; var mjög spennt fyrir því að ég fengi tækifæri til að kynnast pabba almennilega. Þetta byrjaði svo sem ágætlega en fljótlega kom babb í bátinn. Við erum svipaðar týpur, feðgarnir, báðir þrjóskir og þetta varð eiginlega bara stál í stál. Pabbi hafði aðrar hugmyndir um uppeldi en mamma og amma og mér gekk illa að laga mig að því sem hann vildi. Ekki bætti úr skák að ég var þarna á erfiðum aldri, sautján ára. Ég kláraði veturinn úti en eftir það fór ég aftur heim til Íslands. Pabbi var ósáttur við það, vildi hafa mig áfram hjá sér, og í einhverja mánuði var lítið samband okkar á milli. Við tókum þó fljótlega upp þráðinn aftur og eigum í mjög góðu sambandi í dag. Ætli við höfum ekki báðir haft gott af þessu. Þessi dvöl gerði alla vega helling fyrir mig; ég hefði ekki viljað hafa sleppt þessu.“

Stökkkrafturinn frá pabba

Heima á Íslandi kláraði Kristófer Kvennaskólann og steig sín fyrstu skref með meistaraflokki KR. Spurður hvort hann hafi verið borinn saman við föður sinn á velli svarar Kristófer: „Margir vissu hver pabbi er og hvað hann var þekktur fyrir. Til að byrja með fannst mér ég stundum tekinn inn á þeim forsendum að ég væri sonur hans en það breyttist eftir því sem mér fór fram. Pabbi var svakalegur íþróttamaður og ég er með öll íþróttagenin og stökkkraftinn frá honum. Ég sá hann auðvitað aldrei spila en hef séð myndbönd og heyrt sögur og það er margt líkt með okkur; hvað líkamstjáningu varðar er ég til dæmis eins og spegilmynd af pabba.“

– Eruð þið jafnháir?

„Pabbi er aðeins hærri en ég. Annars er hann orðinn fimmtugur, karlinn, og byrjaður að vaxa í vitlausa átt. Ég er mjög duglegur að minna hann á það.“

Hann hlær.

Að stúdentsprófi loknu hélt Kristófer aftur vestur um haf í nám við Furman-háskóla í Suður-Karólínu, þar sem hann lék körfubolta og lagði stund á nám í heilsuvísindum. „Þetta var mjög skemmtilegur tími og ekki spillti fyrir að skólinn var ekki nema í klukkutíma fjarlægð frá pabba og fjölskyldu hans. Við hittumst því oft og hann mætti á alla heimaleiki hjá mér. Það var mjög góð tilfinning að hafa hann á pöllunum.“

– Hefurðu alltaf litið öðrum þræði á þig sem Bandaríkjamann?

„Ég hef alltaf verið meðvitaður um það að ég er hálfur Bandaríkjamaður og átt auðvelt með að laga mig að samfélaginu þar. Mér finnst ég vera heima bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Það hjálpaði mér mikið meðan ég var í háskólanáminu. Þess utan hef ég mjög gaman af því að kynnast nýju fólki og ólíkum menningarheimum.“

Einu sinni orðið fyrir fordómum

Talið berst að fordómum en mikla athygli vakti í vetur þegar Kristófer varð fyrir kynþáttaníði meðan hann var að spila leik með KR á Sauðárkróki. Ætli hann sé vanur slíku?

„Nei, öðru nær. Þetta er í fyrsta og eina skiptið sem ég hef orðið fyrir kynþáttafordómum. Einmitt þess vegna brá mér og sá ástæðu til að vekja athygli á þessu. Ég átti mjög góða vini og slapp við allt svona vesen í æsku og finnst við ekki eiga að sætta okkur við þetta. Forsvarsmenn Tindastóls tóku vel á málinu; gerðu allt sem í þeirra valdi stóð og það hvarflar ekki að mér að dæma heilt bæjarfélag fyrir bullið í einum manni. Ég fékk líka mikinn stuðning frá Sauðárkróki í kjölfarið og er þakklátur fyrir það. Það er mjög mikilvægt að að kæfa níð af þessu tagi í fæðingu.“

Hitt er annað mál að fólk heldur stundum að hann sé útlendingur, þeirra á meðal forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, en fræg er „good luck“-kveðjan sem hann kastaði á Kristófer fyrir landsleik í Laugardalshöll.

Hann hlær þegar þetta ber á góma. „Guðni varð alveg miður sín þegar hann áttaði sig á þessu og bað mig auðmjúklega afsökunar. Mig minnir að það hafi verið eitt af fyrstu embættisverkum hans að vera heiðursgestur á þessum landsleik og þetta vakti mikla athygli. Ég tók þetta alls ekki nærri mér og við Guðni eru góðir félagar í dag. Ég er svo sem alvanur því að vera ávarpaður á ensku, ekki síst þegar ég er að fljúga til og frá landinu. Það truflar mig ekki neitt.“

Mældist 197,7 sentimetrar

Kristófer hefur í tvígang leikið erlendis. Haustið 2017 gerði hann skammtímasamning við Star Hotshots á Filippseyjum. „Þetta var beint eftir EM í Finnlandi; mér bauðst að vera þar í nokkrar vikur og klásúla í samningi mínum við KR gerði mér það kleift. Þetta var mjög skemmtileg lífsreynsla,“ segir hann.

Reglurnar í deildinni sem Kristófer lék í kveða á um að menn megi ekki vera hærri en 198 cm á hæð og allir eru hæðarmældir í tvígang til öryggis. „Það eru til allskonar aðferðir til að koma sér niður fyrir þessi mörk, svo sem að herða magavöðvana. Ég rétt slapp, held ég hafi mælst 197,7 cm í seinna skiptið,“ rifjar hann brosandi upp.

Seinni dvölin í útlöndum var ekki eins ánægjuleg en síðasta haust samdi Kristófer við franska liðið Denain ásamt félaga sínum úr landsliðinu, Elvari Má Friðrikssyni. Honum líkaði ekki vistin og vildi losna frá félaginu áður en félagaskiptaglugganum væri lokað á Íslandi í nóvember. Í samtali við Morgunblaðið gat Kristófer þess meðal annars að lítið væri um að vera í bænum sem hann bjó í og fáir töluðu ensku. „Þetta spurðist út til Frakklands og fór öfugt í forsvarsmenn félagsins. Ég var alls ekki að tala niður til félagsins eða fólksins í bænum, heldur bara greina frá því hvernig mér leið. Ætli þeir hafi ekki sett þetta í Google translate og fengið þessa vitleysu út? Nema hvað, þeir voru tregir að sleppa mér og komu alls ekki nógu faglega fram í þessu máli. Þeir fundu loks leikmann í minn stað en það hafði þær afleiðingar að samningi við Elvar var einnig rift en hann gat alveg hugsað sér að vera áfram ytra. En málið leystist alla vega og við áttum báðir góðan vetur hér heima, ég með KR og hann í Njarðvík.“

Langar að spila aftur erlendis

Þrátt fyrir þetta bakslag hefur Kristófer áhuga á því að fara aftur í atvinnumennsku í útlöndum. „Mig langar að spila aftur erlendis. Ég er opinn fyrir öllu en meira spenntur fyrir Asíu og Suður-Ameríku en Evrópu eins og staðan er núna. Í vikunni kom meira að segja fyrirspurn frá Kína sem ég hef áhuga á að skoða í rólegheitunum. Það er verst hvað ég flughræddur; er ekki þrettán tíma flug til Kína? Líti þetta vel út læt ég mig samt hafa það að fara og skoða aðstæður. Ég er mjög þakklátur fyrir hvað körfuboltinn hefur leitt mig víða og vona að hann muni gera það áfram.“

Ef ekkert kemur út úr þessum þreifingum er Kristófer meira en sáttur við að vera áfram í KR. „Ég hef það mjög gott hérna heima og það yrði enginn heimsendir kæmist ég ekki í atvinnumennsku. Liðið er mjög gott og gæðin í deildinni alltaf að aukast; það voru alla vega fimm eða sex lið sem áttu raunhæfan möguleika á að verða Íslandsmeistari í vetur sem er mjög óvenjulegt.“

– Hafa menn ekki þegar sett stefnuna á sjöunda titilinn? Sjö er falleg tala!

„Já, sjö er mjög falleg tala,“ segir Kristófer dreyminn á svip. „Ég sagði í viðtali strax eftir úrslitaleikinn að við værum ekki hættir; ef til vill var það bara sigurvíman. Maður veit þó aldrei, núna er til dæmis orðrómur á kreiki þess efnis að til standi að styrkja liðið. Við getum því átt von á mjög sterku KR-liði næsta vetur.“

Kynslóðaskipti í landsliðinu

Kristófer hefur leikið 40 landsleiki fyrir Íslands hönd frá árinu 2015 og segir spennandi tíma framundan hjá liðinu. „Það eru að verða kynslóðaskipti í landsliðinu. Menn sem borið hafa liðið uppi um langt árabil, Jón Arnór Stefánsson, Hlynur Bæringsson, Logi Gunnarsson og fleiri, eru hættir og við yngri mennirnir að taka að okkur stærra hlutverk. Við þurfum smá tíma til að fikra okkur áfram án eldri leikmannanna og það verður líklega erfitt að komast inn á næsta stórmót. Það er ekkert óeðlilegt enda tekur alltaf tíma að slípa nýtt lið saman. En við eigum marga góða og bráðefnilega leikmenn og eigum vonandi eftir að taka þátt í fleiri stórmótum í framtíðinni.“

Að sögn Kristófers eru það forréttindi að hafa fengið tækifæri til að kynnast og spila með leikmönnunum sem nefndir voru hér að ofan. „Allt eru þetta frábærir leikmenn, í hópi þeirra allra bestu sem við höfum átt, og miklir leiðtogar – langt út fyrir völlinn. Ég þekki Jón Arnór auðvitað best, enda samherji minn í KR, og það er frábært að vera með honum, innan vallar sem utan. Það hefur alltaf verið gott að leita til Jóns og hann hefur kennt mér margt. Ég er mjög þakklátur fyrir hans leiðsögn og sama máli gegnir um Hlyn og Loga. Nú er komið að okkur, yngri mönnum, að taka við kyndlinum í landsliðinu og tíminn mun leiða í ljós hvort við komum til með að standast þessum köppum snúning.“

Kristófer verður 26 ára á þessu ári og vonast til að eiga mörg góð ár fyrir höndum í boltanum. „Ég verð eins lengi í körfubolta og líkaminn leyfir. Ég æfi vel og hugsa vel um mig en þetta er líka spurning um heppni, þá er ég auðvitað fyrst og fremst að tala um meiðsli. Sleppi maður við þau er alveg raunhæft að spila langleiðina í fertugt. Það sanna dæmin.“

Fyrsta vinnan á ævinni

Lífið er ekki bara körfubolti. Frá því að Kristófer kom heim frá Frakklandi í nóvember hefur hann unnið í hlutastarfi í World Class, Laugum. „Þegar ég kom heim úr háskólanámi var ég bara að spila körfubolta, ekkert að vinna. Það var fínt til að byrja með en þegar upp var staðið var frítíminn of mikill. Maður freistaðist til að sofa út og þar fram eftir götunum. Þess vegna vildi ég ráða mig í hlutastarf með boltanum þegar ég kom heim frá Frakklandi. Það er mjög fínt að vinna í Laugum en þetta er fyrsta eiginlega starfið mitt á ævinni, fram að því var þetta bara karfa og nám. Það er mjög gaman að upplifa að vera á vinnumarkaði.“

Talandi um nám þá er Kristófer með BA-próf í heilsuvísindum frá Furman. Hann getur vel hugsað sér að fara í frekara nám í framtíðinni enda þótt ekki séu áform um það alveg á næstunni. „Eins og staðan er núna einbeiti ég mér að körfuboltanum en fari ég í frekara nám myndi ég líklega fara í einhverja allt aðra átt; ég hef til dæmis mikinn áhuga á tölvunarfræði.“

Svo mörg voru þau orð. Við kveðjumst og Kristófer setur aftur upp sólgleraugun og heldur út í vorið. Þar sem möguleikarnir búa.