Fjölhæfir Terem-kvartettinn nýtur mikilla vinsælda í heimalandinu og spila þeir allrahanda tónlist, á sinn hátt.
Fjölhæfir Terem-kvartettinn nýtur mikilla vinsælda í heimalandinu og spila þeir allrahanda tónlist, á sinn hátt. — Ljósmynd/Daniil Rabovsky
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Hinn víðkunni og virti rússneski Terem-kvartett kemur fram í Hörpu á morgun, sunnudag, kl. 16. Með kvartettinum koma fram gestasöngvararnir kunnu Sigrún Hjálmtýsdóttir – Diddú og Ólafur Kjartan Sigurðarson.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Hinn víðkunni og virti rússneski Terem-kvartett kemur fram í Hörpu á morgun, sunnudag, kl. 16. Með kvartettinum koma fram gestasöngvararnir kunnu Sigrún Hjálmtýsdóttir – Diddú og Ólafur Kjartan Sigurðarson. Tónleikarnir eru á vegum Oddfellowstúku nr. 5, Þórsteins, og rennur allur ágóði óskertur til líknarmála.

Terem-kvartettinn var stofnaður í Pétursborg árið 1986 og hefur síðan komið fram á fjölda tónleika ár hvert, innan Rússlands sem utan. Meðlimirnir bera heiðursnafnbótina „heiðurslistamenn Rússlands“ og eru þekktir fyrir að leika afar fjölbreytilega tónlist listavel. Kvartettinn hefur tvisvar áður komið fram á tónleikum hér á landi, árin 2005 og 2007, við mikið lof tónleikagesta. Á seinni tónleikunum kom Diddú einnig fram og í kjölfarið hljóðritaði hún geisladisk með kvartettinum, Diddú og Terem , og kom hann út árið 2008. Á diskinum eru íslenskar dægurperlur, eins og „Vegir liggja til allra átta“, „Tondeleyó“ og „Dagný“ eftir Sigfús Halldórsson, „Litli tónlistarmaðurinn“ eftir Freymóð Jóhannsson og „Sveitin milli sanda“ eftir Magnús Blöndal Jóhannsson, auk laga eftir Nino Rota. Á tónleikunum munu einhver þessara laga hljóma, auk úrvals laga úr því fjölbreytilega lagasafni sem meðlimir Terem hafa á takteinum.

„Frábærir músíkantar“

„Þessir strákar eru þjóðargersemi Rússa, eru frábærir músíkantar og heilla alla upp úr skónum,“ segir Diddú þegar hún er spurð út í samstarfið við Terem-kvartettinn. Hún kynntist þeim þegar þeir léku fyrst hér á landi, í Salnum árið 2005, og segist hafa fengið einkaáheyrnarprufu hjá þeim.

„Við heilluðumst hvert af öðru og mér var boðið til samstarfs við þá. Við héldum tónleika saman hér á landi næst þegar þeir komu, 2007, og síðan var ákveðið að skella sér í plötuupptöku í Pétursborg. Okkur leið svo vel saman, það var allt í takti hjá okkur.“

Diddú segist hafa haldið til Pétursborgar til móts við kvartettinn á hrunárinu 2008. „Ég var hjá þeim í þrjár vikur, við æfingar og upptökur, og það endaði með tónleikum í Fílmarmóníuhöllinni.

Þessir strákar kynntust í rússneska hernum þar sem þeim voru sem betur fer ekki færð vopn heldur hljóðfæri. Þeir fundu sig svakalega vel í tónlistinni, stofnuðu kvartettinn svo árið 1986 og slógu strax í gegn. Þeir hafa starfað saman síðan.

En platan okkar týndist því miður gjörsamlega í látunum við hrunið.“

Íslensk lög á diski með Diddú

Diddú segir að á tónleikunum muni hún syngja nokkur íslensku laganna sem eru á plötunni en líka einhver rússnesk lög, rétt einsog Ólafur Kjartan mun gera.

„Þeir buðu mér aftur út að syngja með sér og meðal annars komum við í einni ferðinni fram í Kreml-tónlistarhöllinni í Moskvu. Hún tekur mörg þúsund manns og var sneisafull á tónleikunum. Það var dásamlegt ævintýri, ári eftir að diskurinn kom út.“

Þegar Diddú er spurð út í lagavalið á diskinum segist hún hafa sungið ýmis íslensk lög fyrir þá Terem-liða. „Þeir heilluðust gjörsamlega af lögunum eftir Fúsa, fannst hann vera mjög alþjóðlegur lagahöfundur og flottur tónsmiður. Þeir skynjuðu vel dýrðina í lögunum hans,“ segir hún en fimm lög eftir Sigfús Halldórsson eru á diskinum.

„En þessir strákar geta spilað allt milli himins og jarðar og útfæra allt á sinn hátt, á ofboðslega skemmtilegan máta. Þeir spurðu mig mikið út í íslensku textana og vildu lita sínar útsetningar út frá þeim. Þeir spila líka alla klassísku meistarana, rétt eins og ABBA. Og það er allt jafn flott og skemmtilegt, og maður grætur yfir flutningnum, þeir eru svo djúpir í því sem þeir gera. Hvar sem þessir drengir koma fram fellur fólk fyrir þeim,“ segir Diddú.

Terem hefur leikið við setningu Ólympíuleika, við opinberar heimsóknir rétt eins og í tónleikasölum úti um heimsbyggðina. Og nú liggur leið þeirra í Hörpu.