Auðvelt er að breyta rafvespum en það getur verið afdrifaríkt

Borið hefur á því að átt hafi verið við létt bifhjól til þess að auka kraft þeirra. Það getur verið hættulegur leikur og leiðir auk þess til að notendur þeirra njóta ekki trygginga.

Aka má rafmagnsvespum, sem hraðast eiga að ná 25 km hraða á klukkustund, frá 13 ára aldri og er ekki gerð krafa um bifhjólapróf. Slík farartæki eru hvorki skráningar- né tryggingarskyld frekar en reiðhjól, þótt til standi að breyta því.

Ef búnaður, sem takmarkar hámarkshraðann, er hins vegar fjarlægður færist farartækið upp um flokk og er ekki lengur tryggt. Akstur slíkra tækja er takmarkaður við 15 ára lágmarksaldur og krefst bifhjólaprófs. Það getur því verið afdrifaríkt komi til árekstrar. Þess utan er býður það hættunni heim nái farartæki hraða, sem óreyndur ökumaður ræður ekki við. Vinsældir rafvespa fara vaxandi og það getur verið freistandi að fjarlægja búnaðinn, sem takmarkar hraðann, auk þess sem það mun ekki vera erfitt. Það er hins vegar varasamt og þurfa foreldrar og forráðamenn barna á slíkum hjólum að hafa sérstaka aðgát.