Mervyn King
Mervyn King
Sigurður Már Jónsson blaðamaður nefnir í pistli sínum á mbl.is nokkur dæmi um það sem fram kom í máli Mervyns King í heimsókn hans til landsins.

Sigurður Már Jónsson blaðamaður nefnir í pistli sínum á mbl.is nokkur dæmi um það sem fram kom í máli Mervyns King í heimsókn hans til landsins. King hefði til dæmis gagnrýnt evrusvæðið harkalega og nefnt að hann þekkti engin dæmi í sögunni um myntbandalag sem hefði lifað af án þess að hafa orðið að einu ríki. Ef ekki væri vilji til að taka það skref væri betur heima setið.

Þetta vita áhrifamenn í Evrópusambandinu og löndum þess en hafa ekki viljað segja það upphátt. Þeir stíga hins vegar öll þau skref í þessa átt sem þeir komast upp með og hefur sú tilhneiging valdið óánægju og ólgu innan sambandsins.

Annað sem Sigurður Már vitnar til að King hafi sagt snýst um Brexit, sem hefði „til þessa fyrst og fremst skapað pólitíska krísu en ekki efnahagslega. Hann benti á að stjórnmálamenn hefðu lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit, hún hefði verið haldin en að lokum hefði stjórnmálastéttinni verið fyrirmunað að framfylgja niðurstöðunni. Þar liggur vandinn að mati King. Hann virtist ekki hafa áhyggjur af áhrifum Brexit á viðskiptalífið breska. Þar væri til dæmis rangt að tala um krísu, eins og sannarlega mætti sjá í stjórnmálunum. Þvert á móti virtist hann telja tækifæri felast í Brexit fyrir breskt efnahagslíf, sem í sumum tilvikum yrði að aðlagast nýju umhverfi og leita sér viðskipta á nýjum stöðum. Hann virtist ekki líta á það sem vandamál.“

Furðulegt er hve óttinn ræður miklu í umræðum um ESB og óskandi að fleiri tækju svipaða afstöðu og King.