Une Misére Sveitin sigraði í Wacken Metal Battle þegar keppnin var síðast haldin. Hún gerði það gott í Þýskalandi og landaði tveimur samningum.
Une Misére Sveitin sigraði í Wacken Metal Battle þegar keppnin var síðast haldin. Hún gerði það gott í Þýskalandi og landaði tveimur samningum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þungarokkshljómsveitakeppnin Wacken Metal Battle fer fram á tónleikastaðnum Húrra í Reykjavík í kvöld og mun sigurvegarinn koma fram á Wacken Open Air-þungarokkshátíðinni í Þýskalandi í ágúst en hún er sú umfangsmesta og fjölmennasta sinnar tegundar í...

Þungarokkshljómsveitakeppnin Wacken Metal Battle fer fram á tónleikastaðnum Húrra í Reykjavík í kvöld og mun sigurvegarinn koma fram á Wacken Open Air-þungarokkshátíðinni í Þýskalandi í ágúst en hún er sú umfangsmesta og fjölmennasta sinnar tegundar í heiminum.

Sex hljómsveitir keppa í úrslitum en 13 sóttust eftir því að komast í keppnina. Fjölskipuð alþjóðleg dómnefnd mun, auk gesta, velja eina að lokum til þess að koma fram á hátíðinni í Þýskalandi og leika þar fyrir mörg þúsund gesti. Mun hún jafnframt taka þátt í lokakeppni Wacken Metal Battle auk sveita frá 29 löndum. Efstu fimm sveitirnar hljóta svo glæsileg og vegleg verðlaun.

Húsið verður opnað kl. 19 í kvöld og Blóðmör, sigurvegari Músíktilrauna í ár, hefur leik kl. 19.30. Síðan mun hver sveitin stíga á svið á fætur annarri en þær sem keppa í ár eru Alchemia, Keelrider, Morpholith, Paladin, Thrill of Confusion og Úlfúð.

Bókunar- og útgáfusamningar

Hljómsveitin Une Misère leikur líka fyrir gesti en hún fór með sigur af hólmi í keppninni þegar hún var haldin síðast hér á landi. Une Misére landaði fjórða sæti í keppninni árið 2017 og gerði í kjölfarið bókunarsamning við eitt virtasta bókunarfyrirtæki heims í þungarokki, Doomstar Booking. Í fyrra gerði sveitin svo útgáfusamning við eitt umfangsmesta, óháða útgáfufyrirtæki heims í þungarokkinu, Nuclear Blast. Það getur því verið til mikils að vinna í Wacken Metal Battle.

Fjölbreytt í ár

Skipuleggjandi keppninnar hér á landi, Þorsteinn Kolbeinsson, segir úrvalið í ár, hljómsveitirnar sex, heldur fjölbreyttara en áður hefur verið.

„Það hefur verið mikið af dauðarokki og harðara þungarokkinu en núna er kannski eitt band sem fellur í þann flokk og svo erum við með eitt „power metal„ band, „stoner“ og blúsað rokk þannig að ég myndi segja að breiddin væri að aukast miðað við fyrri ár. Og það sá ég líka bara í umsóknunum,“ segir Þorsteinn. Umsóknirnar voru 13 og er það svipaður fjöldi og hefur verið hin síðustu ár, að sögn Þorsteins.

Ásamt dómnefnd hafa áhorfendur einnig atkvæðisrétt, sem fyrr segir og hvetur Þorsteinn þá til að mæta snemma og styðja sína sveit en atkvæðaseðlar verða afhentir við inngang.

Styrktaraðilar keppninnar eru Rás 2 og einnig Hljóðfærahúsið, Tónastöðin, Studio Hljómur, Studio Hljóðverk og Merkismenn, sem gefa vinninga í keppninni á Íslandi.