Ásmundur Einar Daðason
Ásmundur Einar Daðason
Tillögur eru gerðar um verulegar breytingar á núgildandi greiðslukerfi almannatrygginga og nýjar tegundir greiðslna, í skýrslu samráðshóps um breytingar á framfærslukerfinu, en þær kynnti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, á...

Tillögur eru gerðar um verulegar breytingar á núgildandi greiðslukerfi almannatrygginga og nýjar tegundir greiðslna, í skýrslu samráðshóps um breytingar á framfærslukerfinu, en þær kynnti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, á ríkisstjórnarfundi í gær. Hópurinn hafði það hlutverk að móta framfærslukerfi sem styður við það markmið starfsgetumatsins að sem flestir geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Ráðherrann hefur, með hliðsjón af framangreindum skýrslum og fleiru, ákveðið að leggja strax til nokkrar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, sem fyrsta skref í átt að nýju örorkulífeyriskerfi í almannatryggingum. Með þeim verði dregið úr áhrifum annarra tekna örorkulífeyrisþega á sérstaka uppbót vegna framfærslu og svokölluð ,,krónu á móti krónu“ skerðing afnumin. Tillögur um þessar breytingar verða væntanlega lagðar fyrir Alþingi næsta haust, skv. upplýsingum frá Arnari Þór Sævarssyni, aðstoðarmanni ráðherrans.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu segir að nýgengi örorku hér á landi hafi aukist jafnt og þétt í öllum aldurshópum á síðustu árum en á árinu 2016 var það í fyrsta sinn meira en náttúrleg fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði. Við því þurfi að bregðast. „Það er mikill vilji innan ríkisstjórnarinnar að efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku,“ segir ráðherrann.

Samráðshópurinn leggur til að greiðslur almannatrygginga skiptist í sjúkra-, endurhæfingar- og virknigreiðslur og örorkulífeyri. Þá verði tekin upp sveigjanleg hlutastörf fyrir fólk með skerta starfsgetu. Skapa á aukna hvata til atvinnuþátttöku um leið og tryggð er örugg framfærsla. sbs@mbl.is