[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhannes Nordal fæddist 11. maí 1924 í Reykjavík og ólst upp á Baldursgötu og var alltaf í sveit á sumrin, lengst af á Torfastöðum í Biskupstungum og Eyjólfsstöðum í Vatnsdal.

Jóhannes Nordal fæddist 11. maí 1924 í Reykjavík og ólst upp á Baldursgötu og var alltaf í sveit á sumrin, lengst af á Torfastöðum í Biskupstungum og Eyjólfsstöðum í Vatnsdal.

Jóhannes lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og var inspector scholae síðasta árið. Hann fór til náms til Englands og lauk BS-prófi í hagfræði 1950 frá London School of Economics og doktorsprófi frá sama skóla árið 1953. Doktorsritgerð hans fjallaði um þjóðfélagsþróun á Íslandi frá 18. öld til nútímans.

Þegar Jóhannes kom aftur til Íslands að námi loknu fór hann beint í Landsbankann sem þá var bæði viðskiptabanki og seðlabanki. „Ég vann eingöngu að málum sem tengdust seðlabankahlutverkinu. En auðvitað kynntist maður ýmsu sem sneri að viðskiptabankanum, enda í sömu stofnun. Svo var ég í tvö ár settur bankastjóri í Landsbankanum.“

Jóhannes varð einn af seðlabankastjórum í upphafi þegar bankinn var stofnaður 1961 og varð formaður bankastjórnar árið 1964. Hann gegndi því embætti til ársins 1993 og varð nokkurs konar ímynd Seðlabankans á þeim tíma. Á þessum langa tíma sátu hér tíu forsætisráðherrar og íslenskt efnahagslíf og samfélag tók stórtækum breytingum.

Jóhannes segir að stofnun Seðlabankans hafi verið beint framhald af þeirri stefnubreytingu sem kom með Viðreisnarstjórninni. „Við Jónas Haralz vorum ráðgjafar ríkisstjórnainnar fyrir undirbúning og framkvæmd stefnunnar, og markmið hennar var að koma á jafnvægi í íslenskum efnahagsmálum og gera henni kleift að afnema höftin og endurreisa lánstraust Íslendinga erlendis. Þetta voru skörp skil í efnahagssögu Íslands á 20. öldinni, þegar tókst endanlega að skilja við innflutningshöftin sem voru sett fyrst 1931.“

Jóhannes varð formaður í stóriðjunefnd árið 1961 sem sá um byggingu Búrfellsvirkjunar og samninga um stofnun álbræðslunnar í Straumsvík. Hann var stjórnarformaður Landsvirkjunar frá upphafi, 1965 til 1994.

Jóhannes hefur þó ekki einvörðungu sinnt efnahagsmálum á ævi sinni. Hann var lengi formaður vísindadeildar Vísindaráðs og síðar Vísindaráðs. Hann var forseti Hins íslenska fornritafélags 1969-2018 og var áður fyrr í bókmenntaráði Almenna bókafélagsins. Einnig stóð hann að heildarútgáfu á verkum föður síns, Sigurðar Nordal. Hann kom að stofnun tímaritsins Nýtt Helgafell og var ritstjóri 1956-1959. Starf hans fyrir tímaritið varð þó að víkja fyrir efnahagsmálunum eftir því sem hlutverk Jóhannesar hjá Seðlabankanum jókst.

„Af hjáverkum mínum hefur mér fundist einna mest gaman að sinna fornritafélaginu, ekki síst af því að þar er ég að fylgja að vissu leyti í fótspor föður míns, sem var einn af frumkvöðlum þess að félagið var stofnað og útgáfustjóri þess í mörg ár.“ Jóhannes gat jafnframt í hlutverki seðlabankastjórans stuðlað að því að Skarðsbók var keypt til landsins en hún er nú í safni Árna Magnússonar, en faðir Jóhannesar vann mikið að því að semja við Dani um að skila handritunum. „Það er einn merkasti samningur sem gerður hefur verið í veröldinni.“

Jóhannes er enn við góða heilsu og fylgist vel með því sem gerist hér heima og erlendis.

Fjölskylda

Eiginkona Jóhannesar var Dóra Guðjónsdóttir Nordal, f. 28.3. 1928, d. 26.5. 2017, húsmóðir og píanóleikari. Foreldrar hennar voru hjónin Guðjón Ólafur Guðjónsson, f. 13.8. 1901, d. 17.7. 1992, bókaútgefandi, og Marta Magnúsdóttir, f. 30.3. 1900, d. 7.2. 1990, húsmóðir.

Börn Jóhannesar og Dóru: 1) Bera Nordal, f. 25.9. 1954, fyrrv. safnstjóri Listasafns Íslands og nú forstöðumaður Norræna vatnslitasafnsins í Svíþjóð. Börn hennar eru Sigurður Ármann og Ásdís (faðir þeirra: Sigurður Ármann Snævarr), börn Ásdísar og Gunnars Sigurðssonar eru Bera og Gunnar Ármann; 2) Sigurður Nordal, f. 19.2. 1956, rekstrarfræðingur í Kanada. Eiginkona hans er Snæbjörg Jónsdóttir. Börn hans eru Jóhannes (móðir: Ragnheiður Ásta Þórisdóttir), Dóra, Anna og Guðjón Ólafur; 3) Guðrún Nordal, f. 27.9. 1960, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, búsett í Reykjavík. Eiginmaður hennar er Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt. Dóttir þeirra er Kristín; 4) Salvör Nordal, f. 21.11. 1962, umboðsmaður barna, búsett í Reykjavík. Synir hennar eru Páll og Jóhannes (faðir þeirra: Eggert Pálsson); 5) Ólöf Nordal, f. 3.12. 1966, d. 8.2. 2017, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Eiginmaður hennar: Tómas Már Sigurðsson, forstjóri hjá Alcoa. Börn þeirra eru Sigurður, Jóhannes, Herdís og Dóra. 6) Marta Nordal, f. 12.3. 1970, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, búsett á Akureyri. Maður hennar er Kristján Garðarsson arkitekt. Börn þeirra eru Hjördís og Sigurður.

Systkini Jóhannesar: Jón Nordal, f. 6.3. 1926, tónskáld og fyrrverandi skólastjóri, og Bera Nordal, f. 15.3. 1923, d. 10.10. 1927.

Foreldrar Jóhannesar voru hjónin Sigurður Nordal, f. 14.6. 1886, d. 21.9. 1974, prófessor, og Ólöf Jónsdóttir Nordal, f. 20.12. 1896, d. 18.3. 1973, húsmóðir. Þau voru búsett í Reykjavík.