Eiður Smári eftir leik með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi árið 2016.
Eiður Smári eftir leik með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi árið 2016. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Fjölmiðlamótið í knattspyrnu fer fram með pomp og prakt um helgina

Mikið verður um dýrðir á gervigrasvelli Fram í Safamýrinni í dag, laugardag, þegar Fjölmiðlamótið í knattspyrnu fer fram. Ríkjandi meistarar, Sjónvarp Símans, hafa ekki setið auðum höndum milli móta en liðinu bættist góður liðsauki á dögunum, þegar Eiður Smári Guðjohnsen, réð sig í vinnu hjá fyrirtækinu sem sérfræðingur við umfjöllun um ensku knattspyrnuna næsta vetur og er hann í leikmannahópnum í dag. Hvort Eiður Smári kemst í byrjunarliðið kemur svo í ljós þegar flautað verður til leiks stundvíslega klukkan 14.10.

Auk Sjónvarps Símans taka Ríkisútvarpið, Fótbolti.net, Áttan Miðlar, Morgunblaðið og Mbl.is þátt í mótinu. Allir leika við alla og stendur hver leikur í tólf mínútur. Efstu tvö liðin leika svo hreinan úrslitaleik um sjálfan fjölmiðlabikarinn.

Aðgangur að mótinu er ókeypis og allir velkomnir. Framarar komu meira að segja fyrir nýrri áhorfendastúku við völlinn á dögunum. Hvort sú framkvæmd tengist mótinu skal þó ósagt látið.