Ég spilaði bumbubolta í gær við Púlara sem var nýkominn heim frá Anfield – og söng ennþá fullum hálsi.

Í 131 árs sögu ensku knattspyrnunnar hafa margar vikur verið sögulegar en sú sem nú er að líða hlýtur að vera með þeim allra sögulegustu, ef ekki hreinlega sú sögulegasta. Eftir rússíbanareið sem ekki einu sinni meistari háspennunnar, Sir Alfred Hitchcock, hefði getað lagt á ráðin um eru fjögur ensk lið komin í úrslit á Evrópumótunum tveimur, í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni. Það þýðir, fyrir ykkur sem eruð sæmileg í reikningi, að ekkert lið frá öðru landi kemst að í þessum risaleikjum að þessu sinni. Segið svo að Bretar kunni ekki að slíta sig frá Evrópu! Og það í miðjum maí! Réttið upp hönd ef þið náðuð þessum!

Af liðunum fjórum kaus aðeins eitt, Arsenal, að fara öruggu leiðina. Vann andstæðing sinn, Valencia frá Spáni, 7:3 í tveimur leikjum. Andstæðingur Arsenal í úrslitaleik Evrópudeildarinnar, Chelsea, vildi meiri spennu og þvældist með spútniklið Eintracht Frankfurt alla leið í vítaspyrnukeppni. En lifði af.

Hvar á maður síðan að byrja á undanúrslitaleikjunum í Meistaradeildinni? Ég kófsvitna bara við tilhugsunina. Liverpool vann auðvitað eitt fræknasta afrek sparksögunnar. Punktur, basta. Snéri við 0:3 stöðu gegn sjálfum Börsungum. Ég spilaði bumbubolta í gær við Púlara sem var nýkominn heim frá Anfield – og söng ennþá fullum hálsi. Á leið frá búningsklefa inn í sal lék hann fyrir okkur upptökur úr stúkunni úr snjallsíma sínum. Í fullum herklæðum. Það mega þeir eiga, Púlarar, að þeir eiga auðveldara með að gleðjast en annað fólk. Og að þessu sinni áttu þeir það svo sannarlega skilið. Maður lifandi!

Sigurmarkið er svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig; þurfa ekki vísindamenn að bregða mælistikum sínum á þennan pilt, Trent Alexander-Arnold? Slíka sparkgreind kaupa menn ekki í Melabúðinni.

Hafi maður haldið að leikir gætu ekki orðið meira spennandi en þetta undur á Anfield þá hlóð Tottenham Hotspur, af öllum liðum, í eina lygilegustu endurkomu sparksögunnar kvöldið eftir, á Kræfvöllum í Amsterdam. Jesús, María og Jósep! Og svo halda menn að „Mórar“ séu bara til í íslenskum þjóðsögum. Þetta var Lúkasarguðpjall í sinni tærustu og fallegustu mynd.

Þetta verður eitthvað í Madríd 1. júní. Uss! Og Guð veri með vini mínum sem heldur með tveimur liðum í þessu lífi, Tottenham Hotspur og liðinu sem hverju sinni er að spila gegn Liverpool. Mikið verður á hann lagt.