Höskuldur Sveinsson fæddist 26. júlí 1954. Hann lést 25. apríl 2019.

Útför Höskuldar fór fram 10. maí 2019.

Í dag kveðjum við kæran vin okkar, Höskuld Sveinsson, sem er látinn eftir erfið veikindi.

Knattspyrnufélagið Valur naut krafta Höskuldar um langt árabil, en fyrir utan þátttöku í almennu foreldrastarfi var hann virkur sjálfboðaliði um árabil og starfaði m.a. á vettvangi barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar félagsins þar sem hann sinnti starfi gjaldkera í um áratug.

Höskuldur var mjög nákvæmur í öllum sínum verkum og því hentaði honum vel að vera gjaldkeri og stýra fjáröflun unglingaráðsins eins og rækjusölu og 17. júní-sölu sem hann sinnti alla tíð af alúð og mikilli samviskusemi og skilaði miklum tekjum sem nýttist vel til að efla starf yngri flokka.

Síðar annaðist hann um tíma öryggisgæslu á heimaleikjum meistaraflokks karla og kvenna í knattspyrnu og öðrum tilfallandi verkefnum við þá framkvæmd og naut sín vel á Hlíðarenda með ýmsum góðum félögum og vinum.

Hann kaus að taka ekki að sér fleiri verkefni en hægt væri að sinna með góðu móti og var hann ákaflega traustur í því sem hann tók sér fyrir hendur og allt sem hann tók að sér vann hann vel og óaðfinnanlega.

Margs er að minnast frá þessum árum og alltaf var stutt í grínið hjá Höskuldi og jákvæðni. Hann var gæddur mörgum góðum kostum, var traustur, nákvæmur, ákveðinn og fylginn sér. Hann hlustaði af athygli á sjónarmið annarra og tók mið af þeim.

Fótbolti átti hug hans allan og var Valur alltaf liðið hans og auk þess var hann mikill stuðningsmaður Manchester United.

Höskuldur og eiginkona hans, Helena Þórðardóttir, hafa búið um árabil búið í Hlíðunum í Reykjavík, nánar tiltekið á fallegu heimili sem þau bjuggu fjölskyldu sinni í Suðurhlíðum. Börnin þeirra tvö, Sveinn Skorri Höskuldsson og Sólveig Lóa Höskuldsdóttir, byrjuðu ung að sækja æfingar hjá Knattspyrnufélaginu

Val, tóku þau hjónin strax virkan þátt í foreldrastarfi og ýmsu sem tengist íþróttaiðkun barna og unglinga. Sveinn Skorri æfði aðallega knattspyrnu með yngri flokkum en Sólveig Lóa hafði mestan áhuga á handbolta og hefur leikið með öllum yngri flokkum, ungmennaliðinu og meistaraflokki kvenna hjá Val í handbolta.

Helena hefur á undanförnum árum verið virkur sjálfboðaliði á Hlíðarenda og hefur hún einkum staðið vaktina í miðasölu á heimaleikjum ásamt góðum og samhentum hópi og vonandi á félagið eftir að njóta krafta hennar áfram.

Á sorgarstund er okkur þakklæti efst í huga. Fyrir hönd knattspyrnudeildar Vals eru Höskuldi færðar alúðar þakkir fyrir tryggð hans og störf á vettvangi félagsins.

Við vottum Helenu Þórðardóttur, eftirlifandi eiginkonu hans, innilega samúð og einnig börnum þeirra, Sveini Skorra og Sólveigu Lóu. Minning um góðan mann og félaga lifir.

Fyrir hönd Knattspyrnufélagsins Vals,

Guðni

Olgeirsson

og Jón

Höskuldsson.

Daglegt amstur tekur á. Við látum smámuni vefjast fyrir okkur. Fjas og þras út af engu. Þegar tekist er á við stóru málin, líf og dauða, kærleik og ást, sést hvað öllu máli skiptir: Fjölskyldan og traustir vinir.

Höskuldur vinur minn var mikil hetja. Hann greindist með MND-sjúkdóminn árið 2012 en hafði líklega fengið fyrstu einkenni árið 2009. Hann tókst á við baráttuna af æðruleysi og hélt ætíð sínu jafnaðargeði, staðfestu og gráglettnum húmor.

Við Höski kynntumst í MH. Hann var þremur árum eldri, það skipti engu máli. Höski átti fádæma gott plötusafn og það var unun að fá einkadiskótek heima hjá honum þar sem hann kynnti mér jafn ólíka músíkanta og Ink Spots og Doors. Hann lék með frábæru skólaliði MH í körfubolta sem burstaði skólamótin. Leikgleði og barátta einkenndi hann.

Að afloknu námi Höskuldar í arkitektúr í Svíþjóð urðum við nágrannar í Drápuhlíðinni og Magga mín vann fyrir Húsnæðisstofnun þar sem Höski starfaði um langa hríð. Með börnunum tókst vinátta í Hlíðaskóla og Val og þar unnu þau Helena og Höskuldur mikið sjálfboðastarf. Starf þeirra Helenu og Möggu fyrir Göngum saman hnýtti enn fastar hnútana.

Með veikindum Höska breyttist allt. Við Höski og vinur okkar Gulli Halldórs gengum til rjúpna haustið 2011. Erfitt var að komast um í snjónum og við hlógum að bjargarleysi okkar. En Höski stóð ekki upp. Við Gulli tosuðum hann á fætur; okkur var brugðið. Fljótlega upp úr þessu nefndi Höski máttleysi í fótum. Síðan tók við löng þrautaganga og margir ósigrar. Handrið var komið, þá þurfti hjólastól. Lyftan var komin, hún bar ekki rafmagnsstól.

Bíll með stýripinna var kominn, þá þvarr máttur í höndum. Við tveir stunduðum Grensáslaug í nokkur ár og þar fékk Höski frábæra aðstoð og þjálfun. Þar varð einnig að segja stopp.

Styrkur Höskuldar var stórkostleg hæfni hans til að nýta sér stafræna tækni við að stjórna tölvu með augunum.

Hann skrifaði texta hraðar en ég geri. Hann stýrði íslenskum og sænskum sjónvarpsrásum, tók upp plötu- og geisladiskalagerinn á tölvuna. Fylgdist með ferðum okkar Gulla um heiminn, skráði öll skilaboð og myndbrot niður. Skráði allar heimsóknir umönnunaraðila og gaf einkunnir!

Síðustu misserin var nánast enginn máttur eftir, hann gat þó alltaf talað skýrt. Síðasta vetrardag horfði hann á fótbolta og var ekki sáttur með sína menn. Sendi mér SMS og sagðist skipta um stöð.

Það sama kvöld vildi hann ljúka við að afrita síðustu plötuna í safninu í tölvuna. Eftir nætursvefn lagði hann sig og vaknaði aldrei meir.

Sumardaginn fyrsta kvaddi Höskuldur Sveinsson þetta líf, heima hjá fjölskyldunni.

Nú er vinur minn frjáls úr líkama sínum. Hann var traustur fjölskyldufaðir og sá ekki sólina fyrir Helenu, Skorra og Lóu. Við eigum minningu um mikinn gleðigjafa og traustan vin. Hann glataði aldrei sjálfsvirðingu sinni og hélt reisn til hinsta dags.

Blessuð sé minning Höskuldar Sveinssonar.

Þórólfur Árnason.

Takk fyrir frábæra samfylgd síðustu þrjú árin þar sem við fórum í ca. 99 ferðalög saman. Ég á fartinni með góðan síma með stóran gagnapakka, sendandi myndir, vídeó og skilaboð á gamlan vin í Reykjavík.

Höskuldur við tölvuna á Skype, fylgdist með í öllu sem fram fór og skipti sér af. Við ferðuðumst á þennan máta um nær öll lönd Evrópu, fimm borgir í Rússlandi, fjórar borgir í USA og til Toronto í Kanada. Saman skoðuðum við Rauða torgið og Kreml svæðið í Moskvu mjög vandlega, CN turninn í Toronto, Seattle Center, Istanbúl og Konya i Tyrklandi, Auschwitz-safnið í Póllandi og að sjálfsögðu allar helstu borgir Evrópu. Fríhafnir hér og þar voru skoðaðar og gjarnan vildi Höskuldur fá myndir af fallegustu flugfreyjunum.

Það var engin hindrun að Höskuldur væri með MND á svo háu stigi og í vonlausri stöðu og gæti eingöngu stjórnað skjánum með augunum. Hans góði húmor gerði okkur kleift að halda þessu ferðalagi endalaust áfram allt fram á síðasta dag.

Að lokum fylgdi Höskuldur mér til Alsír, en þar var staðar numið. Dánartilkynningin kom að morgni 25. apríl. Kvöldið áður horfðum við á fótbolta saman frá Englandi. Höskuldur bundinn við hjólastól í Reykjavík og ég á hóteli í Alsír.

Næsta ferð og sú fyrsta án ferðafélaga míns síðustu árin er að fara til Íslands til að vera viðstaddur útförina. Kem til með að sakna hans því hann var frábær ferðafélagi og mikil ánægja fyrir mig að vera í sambandi. Það verður einmanalegt fyrir mig að halda áfram í vinnuferðum um heiminn án hans.

Hvíldu vel, Höskuldur Sveinsson. Þín verður minnst lengi sem drengsins sem neitaði að leggjast í þunglyndi þrátt fyrir erfið og langdregin örlög.

Gunnlaugur Halldórsson.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Ég sendi Helenu, Sveini Skorra og Sólveigu Lóu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þórdís Gunnarsdóttir.

Vináttan er á meðal eftirsóknarverðustu gæða lífsins. Í gegnum góð tengsl við okkur sjálf og annað fólk verðum við hamingjusöm. Því er fyrir mikið að þakka að hafa frá menntaskólaárunum og til friðsældar efri áranna verið svo heppinn að njóta vináttu Höskuldar, sem við kveðjum í dag. Skyndilega var ég orðinn einn af fjölskyldunni og heimili þeirra mér alltaf opið. Ef þau skruppu af bæ var ég oft með í för og jafnvel þegar fjölskyldan fór til Portúgal fylgdi ég með. Höskuldur fór í öll hlutverk, var fróður fararstjóri og ók um bæi landsins eins og heimamaður. Börnin ólust upp við að ég væri meira og minna á heimilinu alla tíð. Það er því þrautin þyngri að minnast nú Höskuldar, sem var svo stór hluti af sjálfum mér. Einn lærdómur verður mér samskipa inn í framtíðina; að sönn vinátta er öllum veraldarauði dýrmætari.

Engin forskrift er til fyrir því hverjir verða vinir. Við Höskuldur vorum eins ólíkir og hægt var að vera. Tvennt tengdi okkur þó sterkum böndum, annars vegar skopskynið og hins vegar áhugi okkar á boltaíþróttum. Skopskyn Höskuldar var alltaf tvírætt, en hin síðari ár líka kaldhæðnislegt. Um síðustu páska hafði hann samband við mann sem leiddist mikið fábreytileiki þessara daga og vissi ekkert hvað hann átti af sér að gera. Þá stóð ekki á svari Höskuldar: „Af hverju læturðu ekki bara krossfesta þig?“

Þótt við hefðum ekki sama skopskyn kunnum við að meta húmor hvor annars og svo þróaðist með tímanum einkahúmor okkar, afkvæmi aðferða okkar við að sjá fremur hinar spaugilegu hliðar lífsins.

Höskuldur var hagleiksmaður. Allt lék í höndum hans. Þess naut heimili þeirra Helenu. Þegar ég keypti íbúð í Lönguhlíðinni, sem þarfnaðist mikilla lagfæringa, standsetti hann hana. Sjálfur þurfti ég ekkert að gera nema vera handlangari, en þó aðallega gæta þess að vera ekki fyrir honum til að verkið gengi hratt og örugglega fyrir sig.

Þegar Höskuldur greindist með alvarlegan sjúkdóm töluðum við bara einu sinni um þann vágest. Við vorum sammála um að maður veldi sér ekki sjúkdóm og að það væri ekki skynsamlegt að gefa honum ráðandi hlut í lífi sínu, afstaðan gagnvart honum skipti öllu og að sætta sig við það sem ekki yrði breytt. Dauðinn er okkur öllum leyndardómur, sumum vágestur. Höskuldi var hann líkn.

Heimili er hreiður þar sem við leyfum okkur að njóta öryggis. Þar getum við fellt allar varnir og verið við sjálf. Þar sá ég annan Höskuld en þann töffara sem hann hafði verið á yngri árum. Hann var fyrirmyndarheimilisfaðir og undi sér hvergi betur en þar, hjálplegur, ósérhlífinn og framtakssamur um allt sem laut að viðhaldi og umbótum. Hann lifði einföldu en innihaldsríku lífi og lagðist snemma til hvíldar til að geta vaknað fyrir allar aldir. Umhyggja Helenu og gott samfélag við krakkana varð til þess að hann sótti í að vera sem flestum stundum í návígi við þau. Hann uppskar líka samheldna og ástríka fjölskyldu. Helena og börnin eru búin að standa sig frábærlega vel. Hún er einstök kona, sterk, traust og yfirburða dugleg. Hún vann fullan vinnudag utan heimilis og aðra fulla vinnu þegar heim var komið. Það létti þeim Höskuldi lífið að börnin skyldu búa heima. Hugur okkar allra er nú hjá þeim og Helenu.

Hvíl í friði, elsku vinur.

Páll Þór Bergsson.

Ég var staddur í Skorradalnum þegar mér bárust fréttir af andláti Höskuldar Sveinssonar. Sumardagurinn fyrsti bar aldrei þessu vant nafn með rentu, fuglasöngur fyllti loftið, sól og blíða.

Ég man fyrst eftir Höska þegar hann nýfluttur heim frá Svíþjóð kom inn á í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í fjórða flokki í körfubolta. Ég var í KFR (seinna körfuknattleiksdeild Vals) og þetta var á Hálogalandi. Fullt hús og mikill hávaði í áhorfendum, sem börðu veggi og stöppuðu fótum, svo bergmálaði í bragganum. Höski mætti of seint en þjálfari KR hafði sett hann á leikskýrslu. Hann jafnaði leikinn og þá var framlengt. KFR var komið í villuvandræði og þurfti að reiða sig á minni spámenn eins og mig og Höski sá um að rúlla okkur upp. Á næstu árum áttu þessi lið oft eftir að slást um titla í mótum yngri flokka og vinna á víxl. Höski var skapmikill keppnismaður og sást ekki alltaf fyrir, þótti sumum nóg um á stundum. Hann var hávaxinn og brúneygur og stelpunum í Hagaskóla þótti hann agalega sætur. Það hef ég frá fyrstu hendi.

Seinna vorum við bekkjarbræður í 1-A í MH. Við vorum síðasti árgangurinn í bekkjarkerfi en í áfangakerfinu urðum við svo brautryðjendur og hálfgerð tilraunadýr. Á þessum árum vorum við mikið saman og brölluðum ýmislegt. Foreldrahús Höska í Grænuhlíðinni voru algengur samkomustaður, þar var oft glaumur og gleði, ekki síst þegar Haraldur Bessason var í heimsókn hjá Sveini Skorra og Vigdísi, enda höfðingjar heim að sækja. Við vorum í hópi fyrstu jólagæsanna haustið 1974, þ.e. fyrstu stúdentanna sem útskrifuðust um jól. Svolítið ráðvilltur hópur enda engar hefðir eða siðir fyrirliggjandi. Næstu mánuði vorum við því með annan fótinn áfram í MH milli þess sem við sinntum skemmtanalífinu af ákefð. Klúbburinn á fimmtudögum og Sigtún um helgar. Þetta var árið sem Stuðmenn gáfu út Sumar á Sýrlandi og Höska þótti góð hugmynd að fara út á stoppistöð og sækja strætóskilti til að geta hlustað með meiri innlifun. Löggunni þótti það ekki eins góð hugmynd.

Um haustið fór Höski til Svíþjóðar til náms í arkitektúr. Ég fór svo í humátt á eftir til Köben ári seinna, en var mikið hjá Höska í Lundi, enda hann altalandi á tungumálinu og meiri Svíi en flestir. Ég flutti heim tveim árum síðar en Höski lauk námi og Helena kom til sögunnar. Eftir þetta skildi leiðir svolítið. Við sinntum hvor sínu. Hann starfaði sem arkitekt og kom upp fallegu húsi og fallegri fjölskyldu. Það var helst að við hittumst í kringum Blúsbandið, bílskúrssveit úr MH til 40 ára. Höski var oftar en einu sinni leynigestur á aðalfundum okkar og hljómburðarmaður í Flatey, þar sem bandið heldur stundum böll. Þar var hann manna skemmtilegastur og hrókur alls fagnaðar. Ekki get ég stært mig af því að hafa lagt lið í langri glímu hans við MND-sjúkdóminn og ekkert sérlega stoltur af því.

Hef úr fjarlægð dáðst að hetjulegri framgöngu Helenu við þessar erfiðu aðstæður. Veit að vinur hans Þórólfur hefur þar verið betri en enginn og á þakkir skildar.

Innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar frá okkur Maríu.

Kjartan Jóhannesson.