Svanlaug Karlsdóttir Löve fæddist 8. maí 1919 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Jónína Jónsdóttir, saumakona í Reykjavík, og Sophus Carl Löve, skipstjóri og vitavörður á Horni. Svanlaug giftist 22.6. 1946 Gunnari Salómon Péturssyni, f. 16.10.

Svanlaug Karlsdóttir Löve fæddist 8. maí 1919 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Jónína Jónsdóttir, saumakona í Reykjavík, og Sophus Carl Löve, skipstjóri og vitavörður á Horni.

Svanlaug giftist 22.6. 1946 Gunnari Salómon Péturssyni, f. 16.10. 1921 á Ísafirði, d. 19.12. 2004, pípulagningameistara og byggingaverktaka. Svanlaug og Gunnar bjuggu á Reynimel 86 í Reykjavík. Þau voru barnlaus.

Svanlaug lét sig dýraverndunarmál mikið varða alla tíð og var hún aðalhvatamaður að stofnun Kattavinafélags Íslands árið 1976. Hún var formaður félagsins frá upphafi til dauðadags. Var félagatala Kattavinafélagsins orðin 900 þegar Svanlaug lést. Starfsemi félagsins fór öll fram á heimili þeirra Gunnars. Bæði var komið með heimilislausa ketti þangað og eins voru þar geymdir heimiliskettir í takmarkaðan tíma gegn vægu gjaldi.

Ljóst var samt að útvega þyrfti sérhúsnæði undir starfsemina og var hafist handa við að útbúa það í Stangarhyl 2, en Svanlaugu entist ekki aldur til að sjá það verða tilbúið. Kattholt var opnað 1991.

Svanlaug lést 30. apríl 1987.