Fjölmenningarráð hefur lagt fram tillögur um málefni innflytjenda fyrir borgarstjórn. Myndin er frá árlegri fjölmenningargöngu í Reykjavík.
Fjölmenningarráð hefur lagt fram tillögur um málefni innflytjenda fyrir borgarstjórn. Myndin er frá árlegri fjölmenningargöngu í Reykjavík. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Frístundakortið þarf að kynna betur fyrir foreldrum af erlendum uppruna og fjölga ætti brúarsmiðum í grunnskólum, að því er fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar leggur til. Eyrún Magnúsdóttir eyrun@mbl.is

Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar hitti borgarstjórn á fundi þann 30. apríl og lagði þar fram fimm tillögur sem varða málefni innflytjenda. Tillögurnar voru allar sendar áfram innan borgarkerfisins, ýmist beint til borgarráðs eða til frekari umfjöllunar og greiningar í ráðum borgarinnar.

Að sögn Sabine Leskopf, formanns fjölmenningarráðs, hafa tillögurnar, sem allar miða að því að bæta hag borgarbúa sem hafa annað móðurmál en íslensku, fengið jákvæð viðbrögð nú þegar.

Þetta er í fyrsta sinn sem fjölmenningarráð leggur fram tillögur með þessum hætti á fundi með borgarstjórn en hún telur að það fyrirkomulag sé gott. „Við undirbjuggum þessar tillögur vel og höfum átt samtöl við fólk á ýmsum sviðum borgarinnar. Tillögunum var vel tekið og þeim hefur nú verið vísað áfram í fagráð,“ segir Sabine.

Valdeflandi starf

Fulltrúar grasrótarhreyfinga sem vinna að hagsmunum innflytjenda eiga sæti í fjölmenningarráði auk þeirra sem borgarstjórn tilnefnir. Sabine segir það mjög jákvætt að hafa fulltrúa grasrótarhreyfinga í ráðinu. „Þetta er mjög valdeflandi því fulltrúar grasrótarinnar eru í mjög virku hlutverki í fjölmenningarráðinu og það skilar sér í fjölbreyttum áherslum ráðsins.“

Fimm tillögur voru lagðar fram að þessu sinni sem allar miða að því að bæta hag borgarbúa sem hafa annað móðurmál en íslensku. Meðal þess sem ráðið leggur til er að ráðist verði í auglýsingaherferð á mörgum tungumálum þar sem frístundakort er kynnt, en að sögn Sabine hefur það lengi verið þannig að foreldrar barna af erlendum uppruna eru ólíklegri til að nýta frístundastyrkinn. Þá er lagt til að svonefndum brúarsmiðum verði fjölgað í grunnskólum borgarinnar en þeir veita ráðgjöf og fræðslu til foreldra og kennara og eru stuðningur við börn af erlendum uppruna. Þá leggur ráðið til að farið verði í átak gegn fordómum, rafræn gátt verði stofnuð til að veita innflytjendum upplýsingar og starfsmenn borgarinnar af erlendum uppruna fái menntun sína viðurkennda.

„Við höfum nú þegar fengið jákvæð viðbrögð við þessum tillögum og ég geri ráð fyrir að við fylgjum þeim eftir með frekari kynningum innan fagráðanna,“ segir Sabine um næstu skref fjölmenningarráðs.