Guðríður Kristjánsdóttir fæddist í Skógarnesi 16. október 1933.

Hún var einkabarn hjónanna Kristjáns Kristjánssonar, f. 1897, d. 1981, og Kristínar Sigrúnar Sigurðardóttur, f. 1893, d. 1981. Eiginmaður hennar var Jakob Trausti Skúlason f. 23. mars 1933, d. 11. júlí 2015. Þau giftust 28. nóvember 1954. Foreldrar Trausta voru Skúli Sveinsson, f. 1895, og Hallfríður Ásgeirsdóttir, f. 1896.

Þau eignuðust fjögur börn, níu barnabörn og 18 barnabarnabörn: 1) Kristín Sigurbjörg, f. 1954. Eiginmaður: Hallgrímur Sigurðsson. Börn þeirra: a) Þórhildur Heba. Eiginmaður: Per Ole Larsen, börn þeirra eru Jónas Valbjörn og Kristín Katla. b) Norma Valdís, sonur hennar er Hallgrímur Hrafn; eiginmaður: Sigurjón Jónasson. Börn þeirra: Kári Steinn, Jónas Jökull og Þórey Sif. 2) Gísli Kristján, f. 1955, d. 2014. Ekkja hans er Sigríður G. Ólafsdóttir. Börn þeirra: a) Svanhildur Heiða, sonur hennar er Sigurður Stefán. Eiginmaður: Michael Weaver. Börn þeirra: Óðinn Kristjón og Ísak Logi. b) Trausti, eiginkona hans er Kristín. Börn þeirra: Aron Fannar, Gísli Kristján og Karen Júlía. c) Bergrós. 3) Hallfríður, f. 1959. Eiginmaður: Sigurþór Ólafsson. Börn þeirra eru a) Ólafur Unnar. Eiginkona hans er Ásdís. Börn þeirra: Alexander Máni, Sigurþór Nökkvi og Unnar Orri. b) Kristín Ósk. Börn hennar eru Sölvi Snær, Adrían Elí og Indía Lind. 4) Elva, f. 1968. Dóttir hennar er a) Eyrún Gyða. Eiginmaður Eyrúnar er Jón Grétar. Maki: Georg Óskarsson. Dóttir þeirra er b) Elísabet Alda.

Guðríður ólst upp í Skógarnesi í Miklaholtshreppi. Þar gekk hún í farskóla. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Reykholtsskóla 1951. Í Reykholti kynntist hún Trausta, eiginmanni sínum. Enn fremur lauk hún námi frá Húsmæðraskólanum Hverabökkum. Trausti og Guðríður hófu búskap í Skógarnesi árið 1954. Framan af bjuggu þau félagsbúi með foreldrum Guðríðar. Trausti og Guðríður stunduðu hefðbundinn búskap í Skógarnesi.

Guðríður var formaður Kvenfélagsins Liljunnar um skeið, sat í sóknarnefnd og var í sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps í nokkur ár. Fyrir nokkrum árum festu þau hjón kaup á íbúð í Borgarnesi. Þar dvöldu þau á veturna en í Skógarnesi á sumrin meðan heilsan leyfði. Guðríður var einnig virk í félagsstarfi þar, sinnti m.a. formennsku í Félagi eldri borgara og tók þátt í starfi Kvenfélags Borgarness. Í vetur dvaldi hún á Dvalarheimilinu Brákarhlíð.

Útför Guðríðar fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 11. maí 2019, klukkan 13.

Nú er elsku besta amma mín komin í faðm afa. En tómarúmið í Skógarnesi og hjarta mínu er sem endalaust. Það sem yljar mér er allar þessar dásamlegu minningar sem ég hef átt með þeim í gegnum árin, hlýjan, hugulsemin, góðmennskan, hnyttnin, þessi opni faðmur og allt sem þau hafa kennt mér.

Amma mín var ekkert venjuleg kona og vissulega ekki gerð úr því sama og við hin, þvílíkur klettur. Það er mikið af ömmu í okkur öllum í ættinni, enda eintómir kvenskörungar þar á ferð, fullir af þrótti og röggsemi. Ég veit það líka að hún amma var alla tíð alveg óskaplega stolt af okkur öllum og þótti óendanlega vænt um okkur, talaði alltaf um hjartagullin sín. Hún kallaði okkur líka hjartadrottningar og hjartakónga. Við héldum flest að hún kallaði engan annan en okkur sjálf þessum nöfnum, en vorum öll hjartakóngarnir og hjartadrottningarnar hennar.

Hvað ég er þakklát fyrir árið sem við mamma bjuggum í Skógarnesi þegar ég var lítil stelpa. Ég fann nokkrar myndir frá þeim tíma og var ég skælbrosandi á hverri einustu þeirra, hjálpandi afa að raka á sér skeggið og sitjandi uppi á eldhúsborði að hjálpa ömmu við bakstur. Á þessum tíma tók ég því sem sjálfsögðum hlut að eiga ömmu og afa í sveitinni, en það er held ég það dýrmætasta sem ég hef nokkurn tímann átt.

Hvíldu í friði, amma mín, minning þín lifir í okkur öllum.

Eyrún Gyða.

Samfélagið í Miklaholtshreppi æsku minnar var dæmalaust gott, andi hjálpsemi og góðra samskipta sveif yfir mýrunum og mótaði okkur á yngri árum. Þegar fólk varð fyrir áföllum eða átti erfitt var lagt í púkk, hjálparhöndin rétt fram og lítið um það talað. Á þessum tíma var búið á flestum bæjum, uppbygging á mörgum sviðum og samvinna milli sveitarfélaga m.a. í skólamálum til fyrirmyndar.

Gott samfélag mótast af fólki og afstöðu þess til annarra og lífsins, fólkið í Miklaholtshreppi sýndi mikla samfélagslega ábyrgð og allir höfðu eitthvað fram að færa. Meðal þeirra sem voru fremstir í hópi jafningja var Guðríður í Skógarnesi, höfðingskona sem lét til sín taka og gott af sér leiða. Guðríður var besta vinkona móður minnar Maríu í Hrísdal, reyndist henni útlendingnum stoð og stytta, hvatti hana til þátttöku í samfélaginu og studdi þegar ágjöf lífsins var mikil. Móðir Guðríðar, Kristín í Skógarnesi og amma Margrét í Hrísdal voru líka aldavinkonur, ég og Sigurbjörg dóttir Guðríðar erum vinkonur og Guðmunda og Þórhildur dætur okkar Sibbu eru það líka, sem sagt fjórar kynslóðir vinkvenna.

Núna við andlát Guðríðar í Skógarnesi er margs að minnast. Hún, eins og við öll, var sérstök, reykti pípu og engan hef ég hitt sem hafði jafn smitandi hlátur. Þau hjón Guðríður og Trausti voru fyndin og skemmtileg ekki síst þegar þau sögðu sögur af sjálfum sér og hvort öðru. Trausti sagði mér frá því að í einni af mörgum Vegamótaferðum hefði hann farið til Einars í Holti og Guðríður í verslunina. Eftir að samtali þeirra á verkstæðinu lauk keyrði Trausti af stað heim og skildi Guðríði eftir á Vegamótum. Þegar hann uppgötvaði að hann hefði skilið Guðríði eftir snéri hann við og hafði sína konu með heim frekar en að verða einn í kotinu. Fjaran í Skógarnesi var undraland fullt af gersemum og fegurð og í gönguferð með móður minni veiddi Guðríður lax í fjöruborðinu í innkaupanetið sem hún hafði með ef ske kynni að eitthvað ræki á hennar fjörur. Á saumanámskeiðinu sem ég hélt fyrir konur í Miklaholtshreppi sagði Guðríður mér að hún ætlaði að sauma sér pils sem gerði hana „høj og slank“ og hló dátt.

Það er skarð fyrir skildi meðal okkar Miklhreppinga við andlát Guðríðar í Skógarnesi, oddvita í sinni sveit, fyrirmyndar kvenna og annarra sem áttu samleið með henni. Ég minnist hennar með hlýju og virðingu og votta börnum hennar og fjölskyldum þeirra mína innilegustu samúð.

Hinn glaði hlátur Guðríðar Kristjánsdóttur í Skógarnesi er endanlega þagnaður.

Unnur G. Kristjánsdóttir.

Ævintýraheimur æsku minnar var Skógarnes. Það réði ríkjum Guðríður frænka mín sem við nú kveðjum. Stutt var úr Söðulsholti að Skógarnesi þar sem Guðríður hafði tekið við ættaróðalinu ásamt Trausta, ættuðum af Suðurnesjum. Gömlu hjónin Stína Sigrún og Kristján, foreldrar Guðríðar, bjuggu áfram í skjóli þeirra við mikið ástríki. Ekkert kynslóðabil þekktist á þeim bænum. Amma Anna, Stína á Þverá og Guðríður voru systkinadætur. Þetta þótti mér sérstakt því aldursmunur var allnokkur, eða rúm 30 ár hjá ömmu og Guðríði.

Í Skógarnesi er ótrúlegt dýralíf og fjölbreytni náttúrunnar mikil. Ekkert fannst okkur bræðrunum skemmtilegra en að fá að fara í Skógarnes og leika okkur með Sibbu, Gilla og Hallfríði. Stundum var fyllt í bíl með strákunum frá Þverá. Systkinin sýndu okkur fjöruna og búin sín, fylgst var með selveiðinni, tínd voru svartbaksegg og kríuegg. Sérstakt ritúal var þegar eggin voru skyggnd; amma og afi settu ekki fyrir sig að borða stropuð, jafnvel gráunguð egg, ekkert fór til spillis. Selkjötið var óspart nýtt, þó að veiðarnar hafi verið stundaðar vegna skinnanna sem í þá daga var góð búbót. Áfram hélt síðar selkjöt að berast frá Skógarnesi suður og frægar voru veislurnar þegar Stóra-Hraunssystkinin „átu með hljóðum“.

Frelsið var mikið í Skógarnesi. Frændsystkini okkar fengu í arf og var kennt það áræði, samhliða gætni sem þurfa að fara saman á sjávarjörð. Að baða sig í sjónum var öruggt því þau kunnu á sjávarföllin. Þau þekktu líka bestu staðina til eggjaleitar. Í minningunni var eilíft sólskin og sumar. Heimsóknir Skógarnessfólksins til okkar í Söðulsholt eru hins vegar vetrarminning. Þá var spiluð vist fram á rauða nótt og við Hlynur bróðir spiluðum bítlamúsík af segulbandi á loftinu fyrir systkinin. Yngri systkini mín, Anna Katrín og Árni Páll voru nær yngstu systurinni Elvu í aldri. Hlátursrokur Guðríðar eru sem gleðihljómur í minningunni. Trausti hægari með lúmskan húmor.

Sorg þeirra Guðríðar og Trausta var mikil er Gilli féll frá í blóma lífsins. Það tók mjög á.

Gestagangur var alla tíð mikill í Skógarnesi. Allt fram á miðja síðustu öld voru samgöngur á þessum slóðum á hestum, annaðhvort með fjöllum eða á fjörum. Flóar og mýrar voru ófærur. Kristján gamli þekkti svæðið eins og lófa sinn og veitti ferðafólki leiðsögn. Trausti lærði af honum og margir nutu ósérhlífni hans. Vinsældir hestamennsku á síðustu áratugum juku síðan aftur á gestagang og umstang á heimilinu. Það var líka alla tíð mikið rennerí af skyldmennum í Skógarnesi. Stóra-Hraunssystkinin og afkomendur þeirra og afkomendur Magnúsar í Miklaholti voru nánast eins og heimilisfólk löngum stundum. Öllu þessu stýrði Guðríður af myndugleik og allir voru velkomnir. Við systkinin og foreldrar okkar nutum slíkrar gestrisni ætíð og þökkum við fyrir það, um leið og Guðríður er nú kvödd að leiðarlokum.

Blessuð sé minning frænku minnar Guðríðar Kristjánsdóttur frá Syðra-Skógarnesi.

Þórólfur Árnason.

Við sem vorum svo lánsöm að dvelja á sumrin hjá Guðríði í Skógarnesi og Trausta, manni hennar, fáum seint fullþakkað hve vel þau reyndust okkur. Með lífríki sjávarins til suðurs, hvítan sand og kletta, en mófugl og mýrlendi til norðurs, var Syðra-Skógarnes ævintýraland hverju barni sem þar fékk að dvelja. Um þetta ævintýraland var ómetanlegt að njóta leiðsagnar Guðríðar og Trausta, sem létu sér annt um líðan okkar, svöruðu hverri spurningu og hlustuðu af áhuga á kappsfullar frásagnir okkar úr fjöruferðum, fuglaskoðun og umstangi kringum stórgripi og fiðurfé. Ekki fannst þeim öllu skipta hvort sögurnar væru í fullu samræmi við lögmál náttúrunnar. Mestu skipti hvernig við hefðum upplifað þau undur og stórmerki sem við höfðum frá að segja.

Með aldraða foreldra, fjögur börn og krakkagrislinga af mölinni mæddi oft meira á Guðríði en lítill frændi áttaði sig á, að ekki sé að auki minnst á alla þá gesti sem mín félagslynda frænka tók opnum örmum og gerði vel við. Gilti þá einu hvort þeir hefðu komið í eigin boði, sérstaklega ef þar var á ferð fjörmikið sagnafólk eins og nóg virtist af í okkar málglöðu Skógarnesætt. Skarpgreind og mannglögg lét Guðríður þó ekki segja sér hvað sem var. Og þar varð hennar hægláti bóndi gjarnan fyrri til, því sjaldnast mátti hann heyra orði hallað á nokkurn mann, alltaf sannfærður um að hver maður hlyti að eiga sér eitthvað til málsbóta ef grannt væri skoðað.

Guðríður og Trausti litu svo á að þeim hefði verið treyst fyrir Skógarnesi, landið væri hluti af þeim, og þau hluti af landinu. Fyrir bragðið varð margur spekúlantinn frá að hverfa með þá einu lexíu að enn var til fólk á Íslandi sem tók átthagana fram yfir allt annað. Fólk sem heldur kaus að fá frið til að lifa áfram við þá nægjusemi sem það hafði tamið sér frá fyrstu tíð. Slíku hugarfari var dýrmætt að kynnast.

Garðar Sverrisson.