Nokkurrar óþreyju er farið að gæta í kjaraviðræðum Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Samtaka fjármálafyrirtækja.

Nokkurrar óþreyju er farið að gæta í kjaraviðræðum Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Samtaka fjármálafyrirtækja. ,,Ef samkomulag verður ekki í augsýn í næstu eða þarnæstu viku á samninganefnd SSF þann eina kost að vísa ágreiningi til Ríkissáttasemjara,“ segir í umfjöllun um stöðuna á vefsíðu SSF.

Samninganefndir viðsemjenda hafa fundað reglulega undanfarnar vikur um kjarasamninga félagsmanna SSF og kemur fram að viðræðurnar byggjast á svipuðum grunni og samningar félaga verkamanna, verslunarmanna og iðnaðarmanna við Samtök atvinnulífsins.

„Samninganefnd SSF vill að sjálfsögðu fara eigin leiðir varðandi launahækkanir félagsmanna (innan og utan launatöflu) og framkvæmd á styttingu vinnutíma á ársgrundvelli. Að auki eru nokkur önnur sérmál félagsmanna sem samninganefnd SSF leggur áherslu á. Vinnuhópar hvor í sínu lagi munu vinna núna fram yfir helgi að nánari tillögum og útfærslu. Næsti fundur samningsaðila verður strax í næstu viku,“ segir í umfjölluninni um gang kjaraviðræðnanna.

Við seinustu samningsgerð SSF tók rúmlega sex mánuði að ná kjarasamningum á árinu 2015 en að lokum náðust samningar til rúmlega þriggja ára en þeir runnu út um seinustu áramót.