— Mynd/Hornsteinar arkitekta
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Verktakafyrirtækið Ístak hefur á skömmum tíma fengið tvo stór verkefni. Því hefur fyrirtækið að stærstum hluta dregið til baka uppsagnir 56 manns, sem tilkynnt var um í febrúar sl.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Verktakafyrirtækið Ístak hefur á skömmum tíma fengið tvo stór verkefni. Því hefur fyrirtækið að stærstum hluta dregið til baka uppsagnir 56 manns, sem tilkynnt var um í febrúar sl. Þetta staðfestir Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, í samtali við Morgunblaðið.

Ístak tilkynnti í lok febrúar að fyrirtækið hefði sagt upp alls 56 manns, 31 fastráðnum starfsmanni svo og þjónustu 25 starfsmanna sem sinntu verkefnum á vettvangi fyrirtækisins fyrir tilstuðlan starfsmannaleigu.

„Við vonumst að sjálfsögðu til að geta dregið megnið af þessum uppsögnum til baka þegar og ef verkefni sem við höfum verið lægstbjóðendur í, verða samþykkt og sett í gang,“ sagði Karl Andreassen við Morgunblaðið í febrúar.

Þetta gekk eftir. Í byrjun maí skrifuðu Vegagerðin og Ístak undir samning um tvöföldun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði, frá Kaldárselsvegi vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót. Samningsupphæðin við Ístak er 2.106.193.937 kr.

Og í þessari viku tilkynnti mennta- og menningarmálaráðuneytið um þá ákvörðun að ganga að tilboði Ístaks um byggingu Húss íslenskunnar, sem rísa mun við Arngrímsgötu í Reykjavík. Upphæð tilboðsins var 4.519.907.033 krónur.

Í tilkynningu ráðuneytisins nú í vikunni segir hins vegar að í kjölfar útboðs vegna framkvæmdanna hafi verið gerð heildarkostnaðaráætlun fyrir verkefnið og nemi hún um 6,2 milljörðum króna.

„Það er búið að tilkynna að það eigi að ganga til samninga við okkur um byggingu Húss íslenskunnar, en samkvæmt lögum um opinber innkaup geta liðið 2-3 vikur þar til samningur er undirritaður,“ segir Karl Andreassen. Hann segir að Ístak sé klárt að hefja framkvæmdir strax við undirritun samnings. Í byrjun munu um 20-30 manns starfa við verkið en á seinni stigum mun sá fjöldi sennilega fara í 70 til 90 manns.

„Við erum virkilega ánægð með þá ákvörðun stjórnvalda um að setja þetta verðuga verkefni í gang og erum full tilhlökkunar að byrja að byggja utan um handritin okkar allra,“ segir Karl. Verklok eru áætluð í febrúar 2022.

Starfsmenn eru 350

Hvað tvöföldun Reykjanesbrautar varðar verður maímánuður notaður til undirbúnings og aðstöðusköpunar en framkvæmdirnar sjálfar ættu að vera komnar á skrið í lok maí. Starfsmannafjöldi við verkið verður breytilegur en reiknað er með að allt að 50 manns munu starfa þar á háannatíma.

Hjá Ístaki starfa nú um 350 manns og þar af eru erlendir starfsmenn tæp 40%. „Margir þeirra hafa verið hjá okkur í langan og farsælan tíma og það er mikil og góð reynsla sem að býr í starfsmönnum okkar hvort sem um innlenda eða erlenda starfsmenn er að ræða,“ segir Karl Andreassen.

Byggingin fékk nýtt vinnuheiti

Allt frá því kynnt voru áform um nýbyggingu fyrir Stofnun Árna Magnússonar við Arngrímsgötu hefur vinnuheiti verkefnisins verið „Hús íslenskra fræða“.

Það vakti því athygli að í frétt mennta- og menningarmálaráðuneytisins í vikunni var komið nýtt vinnuheiti, „Hús íslenskunnar“.

Að margra mati var fyrra heitið þröng lýsing á því starfi sem fram mun fara í húsinu og því þótti nýja nafnið lýsa starfseminni betur og þeirri fjölbreyttu miðlun sem þar mun fara fram. Óvíst er að þetta verði endanlegt nafn á húsinu þegar það er risið. Tölvumyndin sýnir hina nýju byggingu eins og hún mun líta út, séð frá Suðurgötu.