Uppboð Allt verður að seljast og margir gera þarna reyfarakaup.
Uppboð Allt verður að seljast og margir gera þarna reyfarakaup. — Morgunblaðið/Hari
Hið árlega reiðhjólauppboð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fer fram í dag í Skútuvogi 8 í Reykjavík, það er húsnæði Vöku.

Hið árlega reiðhjólauppboð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fer fram í dag í Skútuvogi 8 í Reykjavík, það er húsnæði Vöku. Hjólin sem boðin verða upp eru á bilinu 70-80 talsins, en þau má fyrst bjóða upp þegar þau hafa verið í vörslu lögreglunnar í eitt ár og degi betur. Ýmsir aðrir óskilamunir verða boðnir upp, til dæmis barnavagnar.

Að sögn Þóris Ingvarssonar sem stýrir þjónustudeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rennur ágóði uppboðsins í lögreglusjóðinn. Úr honum eru veittir styrkir í ýmiss konar verkefni, meðal annars á sviði mannúðarmála. Einnig hefur Lögreglukórinn fengið styrki úr sjóðnum svo og líknarsjóðir.

Þórir Ingvarsson segir að allt sé gert sem hægt er svo koma megi óskilamunum sem berast lögreglu til eigenda sinna. Embættið haldið úti vefsíðu þar sem birtar séu myndir af öllu sem berist, svo sem reiðhjólum, veskjum, rafmagnssnúrum, hleðslum fyrir rafmagnsmagnsbíla og svo mætti lengi áfram telja.

„Okkar hagur er að selja sem minnst af munum. Við viljum koma þeim öllum út,“ segir Þórir um uppboðið sem er árlegt og margir bíða spenntir eftir því. „Það verður að segjast að mörg hjólanna eru í döpru ástandi og hafa fundist á víðavangi, jafnvel ofan í tjörnum. En allt sem er selt þarna er bara eins og það kemur fyrir.“