Fátt er jafn heillandi við fótboltann og þegar lítilmagninn storkar stórveldunum

Tvö lið hafa vakið sérstaka athygli í keppni félagsliða í Evrópu í vetur. Þessi lið hafa ekki átt sérstakri velgengni að fagna undanfarin ár. Þau eru ekki skipuð dýrustu og þekktustu stjörnum knattspyrnunnar. Þau eru ekki fastagestir í undanúrslitum og úrslitum stórmóta. Þau hafa vakið athygli vegna þess að enginn átti von á að þau myndu ná jafn langt og raun bar vitni og voru grátlega nærri því að leika til úrslita, hvort í sinni keppni.

Á miðvikudag datt Ajax frá Amsterdam út með sæmd í undanúrslitum meistaradeildar Evrópu á móti Tottenham Hotspurs frá London. Liðin skoruðu jafnmörg mörk í tveimur leikjum, en enska liðið komst áfram vegna þess að það skoraði fleiri mörk á útivelli. Tæpara gat það ekki staðið.

Gengi Ajax í keppninni var hálfgert Öskubuskuævintýri. Liðið þurfti að heyja þrjú einvígi til þess eins að öðlast sæti í riðli meistaradeildarinnar. Í riðlinum átti Ajax í fullu tré við Bayern München og sló síðan út stórliðin Real Madrid og Juventus með hinn óviðjafnanlega Cristiano Ronaldo innan borðs áður en sókn þeirra eftir þeim stóra strandaði á Tottenham.

Þýska liðið Eintracht Frankfurt vakti líka hrifningu með vasklegri framgöngu í Evrópudeildinni, sem kalla má litla bróður Meistaradeildarinnar. Stóru liðin í þýsku deildinni, Bayern München og Borussia Dortmund, duttu snemma út úr meistaradeildinni, en undirmálslið Frankfurt lét ekki deigan síga og bar sigurorð af Benfica, Shakhtar Donetsk og Inter Mílanó. Í undanúrslitum dróst Frankfurt gegn Chelsea. Báðir leikir liðanna fóru 1:1, en Frankfurt beið lægri hlut í vítaspyrnukeppni. Löngu eftir að áhangendur Chelsea voru farnir heim stóðu stuðningsmenn Frankfurt enn í stúkunni á Stamford Bridge og hylltu sína menn svo minnti á stuðninginn við íslenska landsliðið í gegnum súrt og sætt.

Þýska blaðið Die Zeit skrifaði að Frankfurt hefði „endurvakið trúna á óútreiknanleika fótboltans“ eftir að liðið féll úr keppni á fimmtudag og það eru orð að sönnu.

Sú var tíðin að íslensk félagslið drógust á móti stórliðum á borð við Benfica, Liverpool, Real Madrid, Barcelona og Juventus í Evrópukeppni, en hún er löngu liðin. Nú þurfa „litlu“ liðin að berjast um að fá að spila við þau „stóru“.

Í forustu stórliðanna eru hugmyndir um að þrengja þetta enn meir. Þeir sem lengst ganga vilja stofna sérstaka Evrópudeild. Þá myndu stjörnuliðin hætta að keppa í landsdeildum. Þessar hugmyndir hafa mætt mikilli andspyrnu knattspyrnusambanda hvort sem það er á Englandi, Spáni eða í Þýskalandi. Á Spáni var reiknað út að hyrfu Barcelona og Real Madrid myndu tekjur spænsku deildarinnar dragast saman um tæpan helming. Dagblaðið New York Times komst yfir áætlanir þar sem gert var ráð fyrir 32 liða deild þar sem 28 ríkustu liðin ættu fast sæti og aðeins fjögur sæti væru á boðstólum til viðbótar fyrir lið úr 55 landssamböndum. Lykilatriði að bægja smáliðunum frá.

Hugmyndir á borð við þessar gætu hins vegar reynst afdrifaríkar. Aðdráttarafl knattspyrnunnar byggist ekki síst á hinu óvæntanlega og óútreiknanlega, að stórlið geti ekki alltaf bókað sigur gegn smáliðunum. Stórliðin eiga alltaf sína stuðningsmenn, en allir hinir halda með „litla“ liðinu. Velviljinn í garð íslenska landsliðsins undanfarin misseri er til marks um það. Ef gengið er of langt í að taka þennan óvissuþátt út úr íþróttinni er hætt við að lykilþáttur í aðdráttarafli hennar glatist.