Súsanna Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 27. júlí 1962. Hún lést á gjörgæslu Landspítalans við Hringbraut 20. apríl 2019.

Foreldrar hennar, sem báðir lifa hana, eru hjónin María Helena Ólafsdóttir frá Melum á Skarðsströnd í Dalasýslu, og Jón Þórðarson úr Reykjavík, sem í móðurætt á rætur að rekja að Holtsmúla í Holtum í Rangárvallasýslu.

Súsanna var elst fjögurra barna þeirra, en eftirlifandi bræður hennar eru Ólafur, Gunnar og Jón Elínmundur.

Eftirlifandi lífsförunautur Súsönnu er Haraldur Einarsson húsasmiður af Seltjarnarnesi, sem alinn var upp þar og í Kópavogi. Hann er sonur hjónanna Nönnu Haraldsdóttur, sem er látin, og Einars Sigurðssonar.

Súsanna og Haraldur stofnuðu heimili vestur á Seltjarnarnesi, en fluttust 1996 austur að Gunnarsholti á Rangárvöllum, fyrst að Akurhóli en árið eftir í Heklugerði og áttu þar heima síðan.

Börn þeirra eru fjögur. Elstur er Þorvarður Helgi, húsasmíðameistari, fæddur 1983. Sambýliskona hans er Agnieszka Olejarz og dóttir þeirra er Gabríella Guðlaug. Næstelst er Ásta Særós, fædd 1984, viðskiptafræðingur. Sonur hennar er Kristófer Freyr. Næstyngstur er Halldór Haukur, fæddur 1988, flutningabílstjóri. Sambýliskona hans er Ásrún Dís Jóhannsdóttir. Yngstur er Hákon Hjörtur, fæddur 1989, verkamaður.

Útför Súsönnu fór fram frá Garðakirkju á Álftanesi 10. maí 2019.

Það var á laugardaginn fyrir páska að Halli bróðir hringdi og sagðist hafa misst hana Súsönnu sína. Sársaukinn í röddinni var svo augljós og skal engan undra því samrýndara par þekktist varla og með brotthvarfi hennar skapaðist stórt skarð og mun hennar verða sárt saknað af öllum þeim sem til hennar þekktu.

Ég þekkti Súsönnu mestan part ævinnar og minnist hennar aldrei öðru vísi en brosandi og hlæjandi. Hún hafði beittan húmor og gat látið mann roðna án mikillar áreynslu. Hún var trygg og góð sínum og hjá henni var ávallt hægt að leita skjóls.

Af henni skein lífsgleðin og ferðalög um heiminn með Halla sínum var hennar líf og yndi. Þau fóru vítt og breitt og t.d. heimsóttu þau okkur Berglindi hingað til Noregs fyrir tæpum tveimur árum.

Það þótti okkur afar vænt um og það var svo gaman að sýna þeim um svæðið þar sem við höfum sest að og búið okkur heimili. Það var í síðasta sinn sem ég hitti mágkonu mína.

Sússa og Halli eignuðust fjögur yndisleg börn sem gaman var að fylgjast með vaxa úr grasi. Helgi, Ásta, Hákon og Haukur. En þar er ekki ríkidæmið upp talið því þegar eru barnabörnin orðin tvö, þau Kristófer og Gabríella. Glæsilegur hópur og það get ég vottað að þau hafa erft glettnina og húmorinn frá móður sinni og ömmu, henni Súsönnu.

Súsönnu var margt til lista lagt og hægt að segja að allt hafi leikið í höndunum á henni. Einn af hennar mörgu hæfileikum og þeim bragðbestu voru töfrabrögðin sem framin voru í eldhúsinu. Hnallþórur og rjómabollur, brauðtertur og kransakökur, bakstur af bestu gerð er eitthvað sem varla þarf að nefna við neinn þann sem einhvern tímann var boðinn í heimsókn til Halla og Sússu eða í veislu á þeirra vegum. Reyndar voru allar heimsóknir til þeirra veislur og maður svo hjartanlega velkominn í alla staði, hvort sem það var í eldhúsið eða hesthúsið.

Kæra Súsanna, ástarþakkir fyrir allt hið liðna. Ég veit að þér verður vel tekið í sumarlandinu góða.

Elsku Halli bróðir og fjölskylda, mínar dýpstu samúðarkveðjur. Megi guð og allir englarnir gefa ykkur styrk.

Kristján Einarsson

og fjölskylda.