[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Árið 2018 var 98. ár fuglamerkinga á Íslandi og það 87. í umsjón Íslendinga. Fimmtíu og sjö merkingamenn skiluðu skýrslum um merkingu á alls 21.648 fuglum af 83 tegundum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Árið 2018 var 98. ár fuglamerkinga á Íslandi og það 87. í umsjón Íslendinga. Fimmtíu og sjö merkingamenn skiluðu skýrslum um merkingu á alls 21.648 fuglum af 83 tegundum. Þetta er metfjöldi merkingamanna og stærsta ár frá upphafi í fjölda merktra. Mest var merkt af auðnutittlingum, 10.945 fuglar, en næstmest af skógarþresti, 2844 fuglar. Ein ný tegund var merkt á árinu og var 158. tegundin moldþröstur. Ein ný tegund var endurheimt á árinu en það var rósastari.

Þannig hefst samantekt á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar um fuglamerkingar árið 2018. Frá upphafi merkinga árið 1921 hafa alls verið merktir 740.524 fuglar. Á árinu nýmerkti Sverrir Thorstensen 5206 fugla og er það nýtt Íslandsmet.

Alls var tilkynnt um 88 endurheimtur og álestra hérlendis á fuglum með erlend merki. Flestir fuglanna, 80 talsins, voru merktir á Bretlandseyjum, tveir í Portúgal og N-Ameríku, einn í Hollandi, Spáni, Rússlandi og Noregi. Nefna má að litmerkt sandlóa sem sást á Garðskaga var þá komin 2.406 km frá merkingarstað sínum á Byloteyju í Nunavut, Kanada, sumarið 2016. Í Vestmannaeyjum fannst nýdauður haftyrðill í janúar 2018 en sá var merktur á Bjarnarey í Barentshafi í ágúst 2016.

Á sama stað 26 árum síðar

Mörg aldursmet voru slegin á árinu. Tilkynnt var um skrofu sem merkt var fullorðin á hreiðri í Ystakletti árið 1991 og náðist aftur á hreiðri á sama stað 2017, 26 árum síðar. Fuglinn var þá að minnsta kosti 28 ára gamall. Haförn sem merktur var sem ungi á norðanverðu Snæfellsnesi í júlí 1993 fannst aðframkominn í V-Húnavatnssýslu í janúar 2018, þá 24 og hálfs árs gamall. Honum var hjúkrað til lífs og sleppt aftur.

Teista sem merkt var á hreiðri í júní 1995 var handsömuð í sömu hreiðurholu 2018 og hefur þá verið að minnsta kosti 27 ára og eins mánaðar gömul.

Alls voru 138 fuglar merktir á Íslandi sem endurheimtust í útlöndum. Meðal þeirra var fyrsti auðnutittlingurinn en hann náðist í net fuglamerkingastöðvar á Skagen í Danmörku, 1.729 km frá Akureyri þar sem hann var merktur fyrr sama ár.

Vetrargestur í Massachusetts

Nokkrir fuglar náðust eða sáust mjög fjarri merkingarstað. Sem dæmi endurheimtust þrír spóar 3.880-5.770 km frá merkingastað og var sá sem lengst fór drepinn í Guinea-Bissau 52 dögum eftir merkingu. Sá var merktur sem ófleygur ungi á Rangárvöllum í júní 2016.

Stormmáfur sem merktur var sem ungi við Akureyrarflugvöll sumarið 2013 virðist vera reglulegur vetrargestur í Massachusetts í Bandaríkjunum, en hann sást þar fyrst í febrúar 2017 og aftur ári síðar, 4.111 km frá merkingarstað. Á Melrakkasléttu sáust nokkrar sanderlur vorið 2018 sem merktar voru í Máritaníu og Ghana og voru þær komnar 5-7 þúsund km á leið sinni til varpstöðva á A-Grænlandi.